Raunávöxtun íslensku lífeyrissjóðanna 2011 umtalsvert betri en í flestum öðrum ríkjum OECD

Eignir íslensku lífeyrissjóðanna eru hátt í tvöfalt meiri en að meðaltali í öðrum OECD-löndum. Í árslok 2011 námu eignir íslenskra lífeyrissjóða tæplega 129% sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, en vegið meðaltal í ríkjum OECD var hins vegar ríflega 72%. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í grein Björns Z. Ásgrímssonar, sérfræðings í áhættugreiningu hjá Fjármálaeftirlitinu, í nýju tölublaði Fjármála, vefrits FME

Þrátt fyrir að vegið meðaltal eigna sjóðanna hafi verið nokkru hærra í árslok 2011 en við upphaf aldarinnar - 72,4% borið saman við 67,3% í árslok 2001 - er þetta hlutfall samt enn mjög lágt í mörgum ríkjum. Í um helmingi landa OECD er hlutfallið undir 20%. Aðeins þrjár þjóðir - Holland, Ísland og Sviss - eru með umrætt hlutfall hærra en 100%. Á það er bent í grein Björns að raunávöxtun íslensku  lífeyrissjóðanna á síðasta ári, sem var 2,3%, hafi verið umtalsvert betri en í flestum öðrum ríkjum OECD.
Meðaltal raunávöxtunar lífeyrissjóðanna árið 2011 innan OECD var neikvætt um 1,7% - en mest var raunávöxtun í Danmörku en minnst í Tyrklandi. Fjárfestingar lífeyrissjóða í hlutabréfum eru í sögulegu lágmarki og lækkaði þetta hlutfall talsvert árið 2011. Í engu ríki námu hlutabréf meira en 50% af eignum sjóðanna. Ísland er hins vegar nálægt miðgildi í þessum efnum, en 20% eigna lífeyrissjóða hér á landi eru í hlutabréfum. Í grein Björns er ennfremur vakin athygli á því að þegar litið er til erlendra eigna í eignasöfnum lífeyrissjóða í löndum OECD þá sést greinilega að erlendar fjárfestingar íslenskra lífeyrissjóða eru verulega minni en flestra annarra sjóða innan OECD. Í árslok 2011 var hlutdeild erlendra eigna tæp 25% af heildareignum íslenskra lífeyrissjóða, sem er svipað og í Noregi og Danmörku.


Grein: Hörður Ægisson af MBL.is