Um skynsemisregluna í starfsemi íslenskra lífeyrissjóða

Um skynsemisregluna í starfsemi íslenskra lífeyrissjóða

Eftirfarandi grein eftir Óla Frey Kristjánsson, sérfræðing í eignastýringu fagfjárfesta í Arion banka, birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 24. nóvember og er hér birt með góðfúslegu leyfi greinahöfundar.

Nýverið samþykkti Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um starfsemi lífeyrissjóða. Samkvæmt lögunum skulu stjórnendur lífeyrissjóða starfa samkvæmt reglu hins grandvara manns (e. Prudent Person Rule). Regla hins grandvara manns, einnig þekkt sem skynsemisreglan, felur það í sér að aðilar hagi störfum sínum með sama hætti og góður og grandvar maður myndi haga sínum eigin málum. Skynsemisreglan er hluti af hugtakinu um umboðsskyldu (e. Fiduciary Duty) hvers gildi hafa staðist tímans rás. Með þessari grein er gerð tilraun til að varpa ljósi á hvað liggi að baki hugtaksins í víðum skilningi. Umboðsskylda er lögð á herðar umboðsmanns, einstaklings eða stofnunar, sem fer með ákvörðunarvald fyrir hönd umbjóðanda síns við aðstæður sem byggjast á trúnaði og trausti. Þetta er sérstaklega mikilvægt í aðstæðum þar sem ríkir mikið ójafnvægi á þekkingu milli aðila og þegar umbjóðendur hafa takmarkaða möguleika á því að fylgjast með eða hafa umsjón með aðgerðum umboðsmanns sem starfar í þeirra þágu. Umboðsskyldan samanstendur af tveimur meginþáttum, annarsvegar hollustuskyldu (e. Duty of Loyalty) og hins vegar skynsemisskyldu (e. Duty of Prudence).

Hollustuskyldan kveður á um að umboðsmönnum beri að starfa í góðri trú, koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og starfa í þágu umbjóðanda síns en ekki í eigin þágu eða þriðja aðila. Skynsemisskyldan kveður hinsvegar á um að umboðsmaður sem bundinn er af umboðsskyldu starfi með aðgát, kunnáttu og af kostgæfni. Þannig ber honum að byggja ákvarðanir sínar á sömu forsendum og „grandvar maður“ myndi gera og haga ákvörðunum sínum og gerðum í þágu umbjóðanda síns eins og hann myndi gera fyrir sjálfan sig. Þetta þýðir ekki að einstaka ákvarðanir þurfi eftir á að hyggja að vera réttar eða skila jákvæðri niðurstöðu heldur að grandvar maður gæti komist að sömu niðurstöðu byggðri á þeim upplýsingum sem liggja fyrir á þeim tíma sem ákvörðun er tekin. Gildi umboðsskyldunnar um hollustu, heiðarleika og sanngirni gegna mikilvægu hlutverki og stuðla að því að nauðsynlegt traust og trúnaður sé til staðar þegar sérfræðiþjónusta er veitt. Ef traust er ekki til staðar getur dregið úr hvata til viðskipta, möguleikum til sérhæfingar og þannig haldið aftur af aukinni velsæld samfélagsins. Efnahags- og samfélagslega velsæld undanfarna áratugi má að stórum hluta rekja til aukinnar sérhæfingar meðal fyrirtækja, stofnana og einstaklinga. Grunnforsenda aukinnar sérhæfingar og þess að aðilar nýti sér sérfræðiþjónustu er að traust ríki á milli þiggjenda og veitenda. Þrátt fyrir augljósan ábata þess að treysta á sérþekkingu og fag- þekkingu annarra felst einnig í því umtalsverð áhætta. Líklega hafa flestir á einhverjum tímapunkti átt í sambandi sem fallið getur undir hugtakið um umboðsskyldu. Útvistun á hinum ýmsu þáttum hins daglega lífs þykir í dag sjálfsagður hluti nútímalífsstíls. Þannig felum við sérfræðingum í auknum mæli að gæta hagsmuna okkar í trausti þess að þeir gæti þeirra umfram annarra hagsmuna, þar með talið sinna eigin. Foreldrar þekkja það vel að fela kennurum forsjá yfir börnum sínum stóran hluta úr degi og treysta þannig á að í þeirra umsjón hljóti þau viðeigandi fræðslu og umönnun við öruggar aðstæður. Með sambærilegum hætti ber stjórnendum lífeyrissjóða að setja hagsmuni sjóðfélaga framar öðrum hagsmunum, sína varfærni í störfum sínum og starfa í samræmi við þá fjárfestingastefnu sem þeim er sett. Þetta eru aðeins tvö dæmi um umboðsskyldu sem meginþorri almennings á auðvelt með að tengja við. Dæmi um aðila sem falla undir umboðsskyldu í störfum sínum eru t.a.m. lögfræðingar, læknar, prestar, kennarar, foreldrar o.fl. Umboðsaðilar bera skyldu gagnvart umbjóðanda sem grundvallast á trausti á milli þeirra. Umboðsaðili þarf að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna og eftir því sem meira traust ríkir á milli þeirra eykst möguleiki á sérhæfingu og bættum lífskjörum. Umboðsskylda lýsir þeim grundvallargildum sem mikilvægt er að umboðsaðilar tileinki sér í þjónustu við umbjóðendur sína. Með aukinni umræðu og þekkingu á umboðsskyldunni geta umboðsaðilar hagað verklagi sínu þannig að umbjóðendur öðlist aukið traust á þjónustu sérfræðinga.

 

Óli Freyr