Tímabundið úrræði, fyrirfram útgreiðsla viðbótarlífeyrissparnaðar

Viðtal við Snædísi Ögn Flosadóttur, sem birtist í Morgunblaðinu 15. apríl.

Tímabundið úrræði, fyrirfram útgreiðsla viðbótarlífeyrissparnaðar

Snædís Ögn Flosadóttir, framkvæmdastjóri EFÍA og LSBÍNú hefur verið opnað fyrir fyrirfram útgreiðslur viðbótarlífeyrissparnaðar. Sparnaður sem að öðru jöfnu væri laus við sextugt. Úrræðið er sett fram samhliða öðrum aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem miða að því að koma okkur í gegnum vonandi tímabundið ástand fylgjandi heimsfaraldrinum Covid 19. Í þessum pistli er viðrað hvort fólk eigi að nýta sér úrræðið og hvernig, hvað í þessu felst svo og samspil úrræða.

Á fólk að nýta sér úrræðið

Viðbótarlífeyrissparnaður er mikilvæg viðbót við tekjur þegar komið er á ellilífeyrisaldur. Með slíkum sparnaði eykur fólk við tekjur sínar þegar þessum áfanga er náð og eykur einnig sveigjanleika við starfslok sem í dag skiptir okkur sífellt meira máli. Að sjálfsögðu getur staðan verið þannig í dag að nauðsynlegt sé að ganga á framtíðarsparnað vegna sérstakra aðstæðna og þá er jákvætt að sú leið standi til boða. Komi til þess að slíkt teljist nauðsyn er mikilvægt að kynna sér alla möguleika og taka vel ígrundaða ákvörðun um hvort brýna nauðsyn beri til að taka fyrirfram út af viðbótarlífeyrissparnaði og þá hversu mikinn hluta. Gott er að hafa í huga að opið er fyrir umsóknir um fyrirframgreiðslu til 1. janúar 2021 og því tími til að skoða málið vel. Þá er sá möguleiki jafnframt til staðar að sækja eingöngu um hluta af þeim sparnaði sem er laus og nauðsyn þykir fyrir og svo er hægt að sækja um að nýju ef á þarf að halda.

Heilræði um hvernig best er að að haga lífi sínu eru ekki af skornum skammti. Annars vegar er mikilvægt að við getum staðið við skuldbindingar okkar í dag og hins vegar er afar mikilvægt að við hugum að framtíðinni með öllum ráðum, þrátt fyrir að hún virðist oft ansi fjarlæg í amstri dagsins. Ljóst er að erfitt getur verið að sameina þessi tvö markmið í dag og enn ljósara er að enginn er handhafi sannleikans í lífi annars manns um hvernig fari best á því að feta þann línudans. Fyrir þá sem hins vegar efast um að stutt sé í lífeyrisaldurinn og telja því óþarfa að huga strax að þeim tímamótum vil ég minna á að kvikmyndin Lord of the Rings kom út fyrir tæpum 20 árum. 

Hvað fellst í fyrirframgreiðslunni

Hægt er að óska eftir því að fá greidda inneign sem sjóðfélagi átti 1. apríl 2020, að hámarki 12 milljónir króna sem greiddar eru út með jöfnum mánaðarlegum greiðslum á allt að 15 mánuðum frá því að sótt er um og er mánaðargreiðsla því að hámarki 800 þúsund krónur. Með öðrum orðum þá er greidd út mánaðarleg upphæð að hámarki 800 þúsund krónur þar til annað af tvennu kemur til, heildarupphæð sem greidd hefur verið út nær þeirri upphæð sem sjóðfélagi átti 1. apríl 2020 eða sjóðfélaginn óskar sjálfur eftir því að stöðva greiðslur. Greiddur er tekjuskattur af fyrirframgreiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar, ef sjóðfélagi er með aðrar tekjur eru líkur á því að sparnaðurinn verði skattlagður í efri þrepum tekjuskatts. 

Samspil úrræða

Fyrirframgreiðslan er ekki eina úrræðið sem er í boði í dag og snýr að nýtingu þessa sparnaðar áður en lífeyristökualdri er náð. Sjóðfélagar geta nýtt iðgjöld sem greidd eru í viðbótarlífeyrissparnað skattfrjálst til greiðslu inn á húsnæðislán eða til útborgunar við kaup á fasteign. Þar sem iðgjöld eru greidd jafnóðum inn á íbúðarlánið en fyrirframgreiðslan miðast við þá inneign sem sjóðfélagi á þann 1. apríl 2020 og fara þessi tvö úrræði því ágætlega saman. Sjóðfélagar sem hafa verið að safna viðbótarlífeyrissparnaði sem ætlunin er að nýta til fasteignakaupa ættu hins vegar að gæta sín á því að taka ekki þá upphæð út í fyrirframgreiðslu þar sem hagstæðara er að nýta sér úrræði um nýtingu viðbótarlífeyrissparnaðar til fasteignakaupa vegna skattlegra áhrifa.