Elsti og stærsti lífeyrissjóðurinn fagnar aldarafmæli

Elsti og stærsti lífeyrissjóðurinn fagnar aldarafmæli

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins – LSR fagnar aldarafmæli og hélt upp á tímamótin á samkomu á Hilton Reykjavík Nordica í morgun. Þar var margt um manninn og sérskreyttar tertur á borðum.

Haukur Hafsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri, og Harpa Jónsdóttir, núverandi framkvæmdastjóri LSRHaukur Hafsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri sjóðsins, var heiðraður. Hann stýrði LSR þriðjung þess tíma sem sjóðurinn hefur starfað en lét af störfum í sumar og afhenti Hörpu Jónsdóttur keflið.

Tímanna tákn. Frumkvöðlar sjóðsins fyrir hundrað árum og núverandi framkvæmdastjóri.Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði hátíðarsamkomuna og sagði að stofnun lífeyrissjóða á Íslandi hefði tengst verkalýðshreyfingunni, þróun velferðarkerfisins og baráttu fyrir því að þurfa ekki að vera úti í horni á efri árum. Hún vísaði til fleiri áfanga  á svipuðum tíma; kosningaréttar kvenna, almannatrygginga, stofnunar Háskóla Íslands og uppbyggingar Landspítalans. Allt væru þetta dæmi um árangur sem þjóðin hefði náð með samstöðu. 

„Núna lifir fólk hvert og eitt í sínum heimi samfélagsmiðla, heyrir oft ekki í öðrum en þeim sem eru því sammála í bergmálsherberginu. Hver er aðstaða okkar nú til að ná samstöðu um stóra samfélagslega áfanga?“ spurði Katrín en fékk hvorki svar úr sal né svaraði spurningunni sjálf. 

Unnur Pétursdóttir, stjórnarformaður LSR, rifjaði upp að prestekknasjóður hefði í raun verið vísir að þeim lífeyrissjóði sem er aldargamall í dag. Unnur vitnaði í bókina 60 kíló af sólskini. Þar kemur þessi sjóður prestsekkna við sögu í anda höfundarins, Hallgríms Helgasonar: 

Unnur Pétursdóttir, stjórnarformaður LSR, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Harpa Jónsdóttir.„Íslenskar prestsfrýr nefndust maddömur, orð sem kallaði á virðingu og vandað umhverfi, að giftast presti var eina leiðin fyrir konur burt úr búbasli, því prestssetrin voru bestu jarðir landsins, þar voru skástu híbýlin og bestu hjúin líka. Og þótt bóndinn reyndist vera drafandi drykkjurútur var maddömuhlutskiptið skárra en flest annað. Prestsfrýrnar létu sér því lynda mörg leiðindin og bjuggu yfir miklu langlundargeði. Þegar þær urðu svo ekkjur, sem þær allar urðu, því presturinn drakk sig nær undantekningarlaust í hel, gátu þær lifað ágætu lífi á peningasendingum úr prestekknasjóði.“ 

Í máli Hörpu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra LSR, kom fram að hinn upprunalegi lífeyrissjóður, sem stofnaður var 28. nóvember 1919, hafi verið ætlaður embættismönnum, ríkisstarfsmönnum í æðstu stöðum. Markmiðið var að tryggja sjóðfélögum lifibrauð til æviloka. 

Með lögum frá 1943 var nafni sjóðsins breytt. Hann var opnaður öllum ríkisstarfsmönnum og hét eftir það Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins. 

LSR er bæði elstur og stærstur lífeyrissjóða á Íslandi. Eignir hans nema um 1.000 milljörðum króna og virkir sjóðfélagar (þeir sem greiða iðgjald að meðaltali í hverjum mánuði) voru tæplega 32.000 á árinu 2018. Alls fengu hátt í 28.000 manns greiddan lífeyri frá LSR árið 2018.

Pallborðsumræður: Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, Bergur Ebbi rithöfundur, Anna Björk Sigurðardóttir, sérfræðingur hjá LSR, og Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins.

Þéttsetinn fundarsalur gesta á afmælissamkomunni.