Fjármálaleiðbeiningar til höfuðs hugsunarhættinum „þetta reddast“

Fjármálaleiðbeiningar til höfuðs hugsunarhættinum „þetta reddast“

„Við fáum stundum hópa framhaldsskólanema hingað í heimsókn og ég tek eftir því að þeir vita ýmislegt um Justin Bieber og um meltingarfæri jórturdýra en sáralítið um fjármál! Út af fyrir sig er slíkt eðlilegt í ljósi þess að fjármálafræðsla er ekki á dagskrá í skólunum okkar. Eiginkona mín, Björg, stakk upp á því að ég leggði mitt lóð á vogarskálar fræðslu og upplýsingar með því að skrifa bók um fjármál fyrir fólk á fyrstu árum vinnu og búskapar. Það gerði ég og hef fengið þau viðbrögð úr skólakerfinu að bókin sé vel fallin til að nota til kennslu.“

Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, er höfundur nýrrar bókar, Lífið er framundan, sem bókaforlagið Framtíðarsýn hefur gefið út í kiljuformi. Út kom eftir hann bókin Verðmætasta eignin, árið 2004, sem hefur síðan þá verið höfuðrit um íslensk lífeyrismál. Í nýju bókinni skrifar Gunnar fyrir ungt fólk og tekst svo vel upp að Gylfi Magnússon, hagfræðingur og dósent í Háskóla Íslands, segir í umsögn á bókarkápu að fyrir þá, sem vilja kynna sér fjármál heimila til langs tíma, gætu kaup á þessari bók „hæglega orðið besta fjárfesting þeirra á ævinni“.

„Ég legg mikla áherslu á að fólk gefi sér tíma til að velta vöngum og ígrunda áður en það ákveður eitthvað afdrifaríkt í fjármálum sínum,“ segir Gunnar. „Engar töfralausnir eru til en ég ráðlegg ungu fólki að leggja fyrir og vanda sig svo þegar taka þarf lán, til dæmis vegna íbúðarkaupa. Afar óskynsamlegt er að fara út í fasteignakaup með skuldir á bakinu og ég vil að fólk hafni hugsunarhættinum „þetta reddast“ í stórum skuldbindingum á borð við íbúðarkaup.

Í bókinni fjalla ég um eignir og sparnað, hvernig lán geta bæði verið „lán og ólán“, um skuldir, áhættustýringu í heimilishaldi, lífeyrismál og eftirlaunasparnað. Þetta er með öðrum orðum heildstætt fjármálarit fyrir ungt fólk.“

Gunnar settist við skriftir í byrjun árs 2015 og lauk við handritið um það leyti sem hann lét af störfum sem formaður Landssamtaka lífeyrissjóða í maímánuði. Hann skrifaði á kvöldin og um helgar, reiknaði heilmikið og grúskaði, setti upp töflur og skýringarmyndir sem gera bókina aðgengilegri og læsilegri en ella.

Aftast í hverjum kafla er skálduð saga af tvennum hjónum sem fylgt er ævina alla. Þau hafa sömu tekjur og verja jafn miklu til framfærslu, eiga jafnmörg og
jafngömul börn en fara mismunandi leiðir í fjármálum. Þessar dæmisögur gæða umfjöllunarefnið lífi og gera það raunverulegra.

„Þegar upp var staðið reyndist erfiðast að koma þessum hjónum gegnum fyrsta áratug búskapar síns, enda eru útgjöldin þá hvað mest en tekjurnar hvað minnstar á ævinni líkt og flestir þekkja af eigin raun. Mér tókst að fleyta þeim áfram. Það var vandasamt verkefni en yfirstíganlegt.“

Birtist í Vefflugunni í febrúar 2015