Íslenska lífeyrissjóðakerfið fremst í flokki fimmta árið í röð

Íslenska lífeyriskerfið er í öðru sæti, á eftir Hollandi í alþjóðlegri lífeyrisvísitölu sem ráðgjafarfyrirtækið Mercer og samtökin CFA Institute standa að.

Ísland tók nú í fimmta sinn þátt í vísitölunni þar sem gerður er samanburður á lífeyriskerfum 52 ríkja. Ísland fékk A einkunn ásamt Hollandi, Danmörku, Singapore og Ísrael. Í skýrslu Mercer gefur A einkunn til kynna "Öflugt lífeyriskerfi sem tryggir góð réttindi, er sjálfbært og sem traust ríkir um".

Lífeyrisvísitalan metur heildarlífeyriskerfi mismunandi landa út frá þremur meginþáttum; sjálfbærni, nægjanleika og trausti, og var Ísland með A einkunn í öllum þremur meginflokkum eins og undanfarin ár.

Heildareinkunn Íslands í vísitölunni í ár var 84,0 stig og er það lítils háttar hækkun frá fyrra ári en þá fékk Ísland einkunnina 83,4. Ástæða hækkunarinnar er einkum vegna uppfærðra hagvaxtagagna sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur gefið út.

Samanburður lífeyriskerfa í Mercer vísitölunni byggist annars vegar á talnaefni frá Efnahags- og framfarastofnunni – OECD og öðrum fjölþjóðastofnunum og gagnabönkum og hins vegar á upplýsingum sem sérfræðingar hjá Mercer og fleiri hafa aflað í viðkomandi ríkjum.

Mercer CFA Institute Global Pension Index 2025