Lífeyrissjóðir í 50 ár frumsýnd 1. desember

Lífeyrissjóðir í 50 ár frumsýnd 1. desember

Drífa Snædal og Guðrún HafsteinsdóttirSjónvarpsstöðin Hringbraut frumsýnir næstkomandi sunnudagskvöld 1. desember viðtalsþátt sem ber yfirskriftina Lífeyrissjóðir í 50 ár. Frumsýning hefst kl. 21 og þátturinn verður endursýndur síðar um kvöldið og oftar á næstu vikum.

Þátturinn er samvinnuverkefni Hringbrautar og Landssamtaka lífeyrissjóða. Stjórnandi er Sigmundur Ernir Rúnarsson. Hann vann líka að handriti þáttarins og undirbúningi ásamt Atla Rúnari Halldórssyni og Þóreyju S. Þórðardóttur. Sýningin tekur um klukkustund og í hraðri yfirferð er tæpt á fjölmörgu er varðar lífeyrissjóðakerfið og samfélagið. 

Snædís Ögn Flosadóttir og Gunnar BaldvinssonVið hæfi er að frumsýna þáttinn að kvöldi fullveldisdagsins enda er þess minnst um þessar mundir að hundrað ár eru liðin frá stofnun lífeyrissjóðs embættismanna 1919, forvera Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, LSR, aðeins einu ári eftir að Íslendingar lýstu yfir fullveldi. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í afmælisveislu LSR 28. nóvember að stofnun lífeyrissjóða í kjölfar fullveldisins hefði með öðru sýnt að Íslendingar vildu vera „alvöru ríki, þjóð meðal þjóða.“ 

Davíð Rúdólfsson og Hrönn IngólfsdóttirSvo vill til að 2019 er tvöfalt afmælisár í lífeyrismálum þjóðarinnar. Liðin er hálf öld frá því undirritaðir voru kjarasamningar á almennum vinnumarkaði þar sem kveðið var á um skylduaðild að lífeyrissjóðum. Landssamtök lífeyrissjóða efndu í vor til hátíðarsamkoma í Reykjavík og á Akureyri þar sem sýnd var heimildarmyndin Lífeyrissjóðaöldin 1919-2019. Hún var samstarfsverkefni Landssamtaka lífeyrissjóða og Hringbrautar og hugmynd kviknaði þá um að búa til viðtalsþátt á svipuðum nótum í framhaldinu til sýningar seinna á árinu. 

Nýi þátturinn er því á sinn hátt lokaviðburður þessa mikla afmælisárs. Þar koma eftirtaldir fram: 

  • Arnar Sigurmundsson, fyrrverandi formaður Landssamtaka lífeyrissjóða.
  • Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.
  • Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
  • Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar hjá Gildi-lífeyrissjóði.
  • Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands.
  • Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða.
  • Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins.
  • Gylfi Magnússon dósent í Háskóla Íslands.
  • Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri LSR.
  • Hrönn Ingólfsdóttir, stjórnarformaður Festu - miðstöðvar um samfélagsábyrgð.
  • Magnús L. Sveinsson, fyrrverandi formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur.
  • Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs.
  • Snædís Ögn Flosadóttir, framkvæmdastjóri Eftirlaunasjóðs FÍA.
  • Stefán Halldórsson, verkefnastjóri hjá Landssamtökum lífeyrissjóða.
  • Sumarliði Ragnar Ísleifsson sagnfræðingur.
  • Tómas N. Möller, lögfræðingur hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna.
  • Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.
  • Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara.