Ársreikningabók lífeyrissjóða 2020

Lífeyrissparnaður Íslendinga einn sá hæsti innan OECD 

Seðlabanki Íslands sendi frá sér samantekt úr ársreikningum lífeyrissjóða og vörsluaðila séreignarsparnaðar fyrir árið 2020 þann 15. júní sl. Þar kemur fram að lífeyriseignir landsmanna hafi vaxið mikið á árinu og að íslenska lífeyrissjóðakerfið sé eitt það stærsta innan OECD sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, eða um 206% af VLF. Einungis í Danmörku og Hollandi er lífeyriskerfið stærra en hér. 

Hrein raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða var 9,48% á árinu sem er eilítið lægra en árið 2019 en þá var raunávöxtun 11,95%. Hafa ber í huga að lífeyrissparnaður er langtímasparnaður og síðastliðin 10 ár hefur hrein raunávöxtun samtryggingardeilda lífeyrissjóða verið 5,88% að meðaltali. 

Á árinu 2020 störfuðu 21 lífeyrissjóður í 25 samtryggingardeildum og af þeim buðu 13 sjóðir upp á séreignarsparnað í 44 deildum. 

Eignir lífeyrissjóða við árslok 2020 voru um 5.723 milljarðar kr.: Eignir samtryggingardeilda 5.129 milljarðar kr., jukust um 15% milli ára og séreignarsparnaður í vörslu sjóðanna 594 milljarðar kr., með um 16% aukningu milli ára. Séreignarsparnaður hjá lífeyrissjóðum óx því milli ára þrátt fyrir sérstakar útgreiðsluheimildir vegna Covid-19 faraldursins. 

Tryggingafræðileg staða batnar milli ára 

Tryggingafræðileg staða samtryggingardeilda lífeyrissjóða batnaði milli ára og hafa nú 13 af 18 deildum án ábyrgðar launagreiðenda jákvæða tryggingafræðilega stöðu. Tryggingafræðileg staða lýsir jafnvægi milli skuldbindinga og eigna lífeyrissjóða.

Lífeyrissjóðir eru umfangsmiklir fjárfestar í íslensku efnahagslífi og samkvæmt sjóðstreymi keyptu sjóðirnir skuldabréf fyrir um 494 ma.kr og hlutabréf fyrir 565 ma.kr. á árinu. Bein og óbein fjárfestingargjöld eru einn stærsti útgjaldaliður lífeyrissjóða og náum þau 0,31% af heildaeignum á árinu. Hlutdeild erlendra eigna nam 34% af heildareignum í lok árs 2020. 

Samantekt frá Seðlabanka Íslands 

Á Lífeyrismál.is eru hagtölur lífeyrissjóða uppfærðar reglulega undir Tölur og gögn.

 

Viltu fylgjast með
og fá fréttabréfið okkar?
Netfangið þitt