Lífeyrissparnaður á Íslandi einhver sá mesti innan OECD landa

Efnahags og framfarastofnunin (OECD) hefur birt bráðabirgðatölur um helstu kennitölur lífeyrissparnaðar innan aðildarlanda sinna og valinna landa utan samtakanna. Eignir lífeyrissjóða eru taldar hafa numið um 32 trilljónum Bandaríkjadala við árslok 2019. Eftir lækkanir seinni hluta árs 2018 hækkuðu eignir lífeyrissjóða innan OECD landa að meðaltali um 13,2% og um 11,3% meðal landa utan samtakanna árið 2019.

Samkvæmt gögnum OECD nemur lífeyrissparnaður á vegum íslenskra lífeyrissjóða, samtryggingar og séreignar, um 167% af vergri landsframleiðslu (VLF). Eins og áður er lífeyrissparnaður hér á landi einhver sá mesti innan OECD landa á eftir Danmörku og Hollandi.

Í skýrslunni kemur einnig fram að Ísland er eitt af þeim löndum þar sem flestir eiga lífeyrissparnað eða um 88 % einstaklinga en einungis í helmingi landanna í skýrslunni nær hlutfallið yfir 70%.

Samsetning eigna íslenskra lífeyrissjóða í hlutabréfum, skuldabréfum og öðrum eignum er með líkum hætti og í helstu samanburðarlöndum, t.d Hollandi, Írlandi og Nýja-Sjálandi. Hlutfall erlendra eigna íslensku sjóðanna var svipað og hjá nágrannaþjóðum okkur Dönum og Norðmönnum.  

Sjá frétt á vef Seðlabankans