Rafræn aðalfundarstörf á tímum veirufaraldurs

Rafræn aðalfundarstörf á tímum veirufaraldurs

„Ávöxtun ársins 2019 hjá lífeyrissjóðunum var 11,6% og munaði þar mest um gott gengi erlendra fjárfestinga. Erlendar eignir skiluðu góðri ávöxtun auk þess sem krónan veiktist lítillega sem stuðlaði að eignaaukningu í krónum talið. Ávöxtun innlendra eigna var einnig ágæt á árinu.“  

Þetta kom meðal annars fram í skýrslu stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða sem Guðrún Hafsteinsdóttir, stjórnarformaður, flutti á aðalfundi samtakanna á Grandhóteli í gær, fundi sem ekki var líkur neinum fyrri aðalfundi heildarsamtaka lífeyrissjóða landsmanna. 

Kórónaveiran hefur vikið til hliðar flestum siðum og venjum og nú voru til að mynda einungis fáeinir tugir manna á sjálfum vettvangi aðalfundarins í Reykjavík, allir hinir fylgdust með streymi á vinnustað eða heima hjá sér víðs vegar um höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina. 

Framkvæmd fundarins heppnaðist í alla staði glimrandi vel, þökk sé röggsömum fundarstjóra, Guðrúnu Högnadóttur, og fagmannlegri tæknistjórn Jakobs Tryggvasonar, formanns Félags tæknifólks í rafiðnaði. Þetta var reyndar síðasta verkefni Jakobs sem stjórnarmanns í Landssamtökum lífeyrissjóða. Hann hefur setið sem aðalmaður í stjórn Stafa lífeyrissjóðs og síðan Birtu lífeyrissjóðs í átta ár og hættir þar á aðalfundi í júní vegna ákvæða í samþykktum um að aðalmaður skuli að hámarki sitja í átta ár. Hann hætti jafnframt í stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða og var kært kvaddur með blómum og árnaðaróskum. 

Hilmar Harðarson, stjórnarmaður í Birtu lífeyrissjóði, var kjörinn í stjórn Landssamtakanna í stað Jakobs. Hilmar gegnir nú formennsku bæði fyrir Samiðn- samband iðnfélaga og einnig FÍT - Félag iðn- og tæknigreina.

„Stjórnarmenn lífeyrissjóða verða aldrei strengjabrúður“

Guðrúnu Hafsteinsdóttur var tíðrætt um þátt lífeyrissjóðanna í ráðstöfunum gagnvart sjóðfélögum og fyrirtækjum vegna erfiðleika sem kórónukreppan hefur kallað yfir samfélagið og efnahagslífið. Hún minnti á að reynslan af uppbyggingu eftir bankahrunið 2008 sýndi að vel og farsællega gæti farið saman að taka þátt í að stuðla að endurreisn atvinnulífsins annars vegar og ávaxta eignir lífeyrissjóða hins vegar. Framtakssjóður Íslands væri gott dæmi um slíkt. Hún hvatti jafnframt til þess að stjórnir lífeyrissjóða íhuguðu nú vel og vandlega aðkomu að innviðum samfélagsins og vísaði til útspils ríkisstjórnarinnar á dögunum í því sambandi: 

„... samgönguráðherra boðaði nýlega sex verkefni sem hægt væri að fara í með tiltölulega stuttum aðdraganda. Hann talaði um þau sem samvinnuverkefni og nefndi í því sambandi mögulega aðkomu lífeyrissjóða. 

Ég er þeirrar skoðunar að þarna fari vel saman hagsmunir allra sem hlut eiga að máli og því eigi lífeyrissjóðirnir velta þessum möguleikum fyrir sér af fullri alvöru. 

Nú þegar gefur á bátinn í efnahagslífi okkar nefnir annar hver maður að við Íslendingar þurfum nauðsynlega að fjölga stoðum verðmætasköpunar hér á landi. Við köllum eftir því að Ísland leggi meiri áherslu á hugvitsdrifið hagkerfi en auðlindadrifið. Sömuleiðis er horft til lífeyrissjóðanna og þeir hvattir til að fjárfesta í auknum mæli í nýsköpun. 

Nýsköpunarumhverfið hér á landi er að mörgu leyti mjög gott á fyrstu stigum nýsköpunar en þegar fyrirtækin þurfa að vaxa enn frekar vandast oft málin og þau hafa í fáa sjóði að leita hér á landi. Það veldur því að mörg efnileg félög fara úr landi og byggjast upp í grannríkjum okkar í stað þess að dafna áfram hér heima og skapa verðmæti. 

Þetta þekkjum við öll og einnig þá klemmu sem lífeyrissjóðirnir eru í hvað þetta varðar. Fjárfesting í nýsköpun er áhættusamari en í grónari félögum en ávinningurinn getur líka orðið meiri ef vel tekst til. 

Umræðan á síðustu árum um fjárfestingar lífeyrissjóða hefur oft verið mjög óvægin og ósanngjörn. Skilningur á eðli fjárfestingarstarfsemi okkar er oft á tíðum takmarkaður og sérstaklega á því að fjárfestingar lífeyrissjóða eru í eðli sínu til langs tíma. Við metum stöðu okkar, starfsemi og horfur með ár og áratugi í huga en slík hugsun hentar til að mynda afar illa í sviptivindum svokallaðrar umræðu á samfélagsmiðlum og meðal þeirra sem virðast oft stjórnast af því hvernig vindar blása þar. 

Á næstunni standa margar stjórnir lífeyrissjóða frammi fyrir óvenju stórri og afdrifaríkri ákvörðun varðandi hlutafjárútboð Icelandair. Ljóst er að það mun ekki skipta nokkru máli hvað stjórnir sjóðanna gera, ákvarðanir þeirra verða umdeilanlegar.

Mér hefur á síðustu dögum þótt miður með hvaða hætti sumir úr sveit bakhjarla lífeyrissjóðakerfisins hafa tjáð sig um málefni Icelandair og mögulegan þátt lífeyrissjóða í því að takast á við vanda þessa lykilfyrirtækis í samgöngumálum og ferðaþjónustu landsmanna.

Svo virðist jafnvel sem forystumenn úr verkalýðshreyfingunni telji sig hafa völd til að taka ákvarðanir um hvað beri að gera fyrir hönd stjórna sjóðanna. Svo er að sjálfsögðu ekki og ég vara við slíku enda er það í hæsta máta óeðlilegt að reyna þannig að hafa áhrif á ákvarðanir stjórnarmanna lífeyrissjóða. Slíkt gæti jafnvel verið á jaðri hins löglega.

Mjög mikilvægt er að hafa í huga að sjálfstæði stjórna er grundvallaratriði í starfsemi sjóðanna. Við í stjórnum lífeyrissjóða höfum alvarlegum skyldum að gegna, berum ríkar skyldur og höfum mikla ábyrgð að svara fyrir. Við erum ekki og eigum aldrei að verða strengjabrúður!“ 

Glíman við að ráða í framtíðina 

Ásta Ásgeirsdóttir, nýlega ráðinn sérfræðingur hjá Landssamtökum lífeyrissjóða, fjallaði í áhugaverðu erindi á aðalfundinum um lífaldur Íslendinga og reifaði hvernig aðrar þjóðir mætu hækkandi lífaldur sinn. Þar staldraði hún helst við Dani og Hollendinga. 

Ásta er stærðfræðingur og hagfræðingur að mennt og vann um árabil fyrir lífeyrissjóði í Danmörku og í fyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun reiknikerfa fyrir danska lífeyrissjóði.

Hún sagði í erindi sínu að lífaldur og ávöxtun eigna væru þeir þættir sem jafnan hefðu mest áhrif á stöðu lífeyrissjóða til lengri tíma. Vanmat á lífslíkum jafngilti vanmati á skuldbindingum, ofmat á ávöxtun til lengri tíma hefði sömu áhrif. 

Framtíðarsýnin er því margvísleg og óvissu háð til lengri tíma enda sýna dæmin að óvæntir atburðir geta á svipstundu gert skammtímaspár um gang mála í samfélögum marklausar. Þar er nærtækast að benda á kórónufaraldurinn. 

Við blasir víðast hvar að fólk lifir lengur og fæðir færri börn. Aldurssamsetning í samfélögum breytist og sama á við um íslenska þjóð. Hún eldist. Sú þróun birtist skýrt á meðfylgjandi mynd sem Ásta brá upp þar sem sést að nú í ársbyrjun 2020 voru 5,3 Íslendingar á vinnualdri fyrir hvern mann á eftirlaunaaldri. Árið 2060 verða þeir einungis 2,5 ef mannfjöldaspá Hagstofunnar gengur eftir. 

Félag íslenskra tryggingastærðfræðinga hefur á sinni könnu að gefa út réttindatöflur þar sem lagt er mat á lífslíkur Íslendinga og eru viðmiðun íslenska lífeyrissjóðakerfisins til að meta stöðu lífeyrisréttinda landsmanna gagnvart eignum i lífeyrissjóðum. 

Í erindi Ástu kom fram að í Danmörku gæfi fjármálaeftirlitið út viðmiðunartöflur um dánartíðni handa lífeyrissjóðum og tryggingafélögum að styðjast við þegar skuldbindingar eru metnar. Lífeyrissjóðir geta notað eigin módel fyrir dánartíðni en einungis að fengnu leyfi fjármálaeftirlitsins. 

Hollenska hagstofan gefur út spá fyrir lífslíkur og sú nýjasta nær til tímabilsins 2018-2060. Eftirlaunaaldur í Hollandi er beintengur spá hagstofunnar þar um meðalævilengd 65 ára landsmanna, fastsettur nokkur áfram fram í tímann. Reiknaðar lífslíkur 2018 hafa til að mynda áhrif á eftirlaunaaldur 2024-2025. 

Lögbundinn eftirlaunaaldur í Hollandi var 65 ár á árinu 2013 en hefur hækkað í þrepum og er núna 66 ár og 4 mánuðir. 

„Þannig tryggja Hollendingar sjálfbærni eftirlaunakerfisins og um leið jafnvægi í opinberum fjármálum sínum,“ segir Ásta Ásgeirsdóttir.

Tengill á erindi Ástu.

Tengill á starfsskýrslu Landssamtaka lífeyrissjóða 2019-2020.

 Myndir frá fundinum: