Samfélagslega ábyrgar fjárfestingar og siðferðileg viðmið

Samfélagslega ábyrgar fjárfestingar og siðferðileg viðmið

Um þessar mundir þurfa lífeyrissjóðir að mæta auknum kröfum sem til þeirra eru gerðar um samfélagslega ábyrgar fjárfestingar. Þá hefur verið bundin í lög skylda um að sjóðirnir setji sér siðferðileg viðmið í fjárfestingastefnu. Leiðandi evrópskir lífeyrissjóðir og stór alþjóðleg fjármálafyrirtæki hafa á síðustu misserum tekist á við áskoranir af þessu tagi með því að útiloka einstaka fjárfestingakosti og beina fjármumum sínum í auknum mæli í átt til samfélagslega ábyrgra fjárfestinga.

Í hádeginu fimmtudaginn 19. október flytur Kristján Guy Burgess fyrirlestur um nýjustu strauma, hvaða leiðir alþjóðlegir lífeyrissjóðir hafa farið, og hver þróunin hefur verið hjá helstu fyrirtækjum í eignastýringu. Hann mun einnig rekja nokkur dæmi um hvernig staðlar, vísitölur og mælikvarðar hafa tekið miklum framförum á stuttum tíma til að meta að fjárfestingarnar hafi raunverulega jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag.  

Kristján Guy Burgess starfar sem ráðgjafi fyrir eigið fyrirtæki sem hann stofnaði árið 2005 um verkefni á alþjóðavettvangi. Á árunum 2005-2009 vann hann með ráðamönnum og fyrirtækjum að verkefnum m.a. tengdri samfélagslegri ábyrgð, og leiddi saman ólíka aðila að umbótaverkefnum víða um heim. Hann var aðstoðarmaður utanríkisráðherra 2009-2013, starfaði hjá Atlantshafsbandalaginu um skeið og var framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar frá 2015 fram í ársbyrjun 2017.