Ávöxtun ársins 2017 var góð og tryggingafræðileg staða batnað

Ávöxtun ársins 2017 var góð og tryggingafræðileg staða batnað

Tryggingafræðileg staða batnað verulega frá fyrra ári

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur birt samantekt um stöðu lífeyrissparnaðar, samtryggingar og séreignar við árslok 2017. Þar kemur fram að tryggingafræðileg staða samtryggingardeilda lífeyrissjóða batnaði verulega frá fyrra ári vegna aukinnar ávöxtunar og á það bæði við um sjóði á almennum vinnumarkaði og sjóði með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga. 

Eignir alls lífeyriskerfisins voru um 4.114 milljarðar króna í árslok 2017, eða um 161% af vergri landsframleiðslu (VLF). Eignir lífeyriskerfisins, sem hlutfall af VLF, hækkaði um 7 prósentustig frá fyrra ári vegna hærri ávöxtunar sjóðanna, hækkunar á mótframlagi og aukinnar atvinnuþátttöku en heldur dró úr aukningu landsframleiðslu miðað við árið á undan. Hlutfallið er með því hæsta sem gerist innan OECD landanna, en aðeins Danmörk og Holland eru með hærra hlutfall lífeyrissparnaðar af VLF. 

Eignir samtryggingardeilda lífeyrissjóða jukust um nærri 11% á árinu 2017 og voru 3.550 milljarðar kr. í lok ársins. Séreignarsparnaður í vörslu lífeyrissjóðanna nam 383 milljörðum kr. og 181 milljarð kr. hjá öðrum innlendum vörsluaðilum séreignarsparnaðar. Aukning frá fyrra ári nemur nálægt 13% hjá þeim fyrrnefndu og 11% hjá þeim síðarnefndu.

Eignir lífeyrissjóða við árslok 2017. Mynd frá FME.

Hrein raunávöxtun samtryggingardeilda lífeyrissjóðanna batnaði verulega milli ára og var 5,5% á árinu 2017 samanborið við um 0% árið 2016. Ávöxtunin var nálægt meðaltali innan OECD landanna á liðnu ári.

Raunávöxtun lífeyrissjóða valinna OECD landa (Heimild: OECD Pension funds in Figures). Mynd frá FME 

Fréttatilkynning um stöðu lífeyrissjóðanna 2017 á vef FME

Samantekt FME á ársreikningum lífeyrissjóða og talnaefni úr skýrslunni á vef FME