Sjóðsöfnun eða gegnumstreymi? Kostir og gallar

„Íslendingar eru komnir allra þjóða lengst í því að byggja upp lífeyriskerfi sjóðsöfnunar þar sem miðað er við að hver kynslóð leggi til hliðar á starfsævinni til efri áranna. Til þessa er horft, enda fetum við þá braut sem Efnahags- og framfarastofnunin – OECD og Alþjóðabankinn mæla eindregið með í ljósi þess að samfélög, fyrirtæki og efnahagskerfi ríkja ráða ekki við það til lengdar að fjármagna eftirlaun með sköttum að mestu eða öllu leyti í svokölluðu gegnumstreymiskerfi. 

Mælt er með því að bæði kerfin séu notuð og styðji hvort annað. Við erum með lífeyrissjóðina annars vegar og Tryggingastofnun hins vegar en almennt séð getur það verið mismunandi eftir eiginleikum hagkerfa og aldurssamsetningu þjóða hver hlutfallsleg skipting kerfanna er á hverjum stað.“

Stefán Halldórsson, verkefnastjóri hjá Landssamtökum lífeyrissjóða, hefur svör á reiðum höndum við ýmsum áleitnum spurningum sem kvikna stöðugt um mismunandi lífeyriskerfi og samanburð á íslenska lífeyrissjóðakerfinu og sambærilegum kerfum í grannríkjum okkar. Hann stýrði til að mynda vinnu starfshóps sem skilaði af sér skýrslu í febrúar 2017 þar sem íslenska lífeyriskerfið var borið saman við kerfi Englands, Hollands, Svíþjóðar og Danmerkur.

Ísland var með afgerandi hæst hlutfall lífeyris úr lífeyrissjóðum og tekjujöfnuður var hér meiri en í hinum ríkjunum. Yfir 60% lífeyris á Íslandi er nú greiddur úr lífeyrissjóðakerfinu en undir 40% koma frá Tryggingastofnun. Þannig hlutfall þekkist ekki annars staðar. Sambærileg skipting í Hollandi og Danmörku er til dæmis nálægt því að vera til helminga.

Íslenska kerfið sker sig hins vegar úr með mikilli tekjutengingu lífeyris úr opinbera kerfinu. Fram kom í skýrslunni að einungis á Íslandi félli lífeyrir úr opinbera kerfinu alveg niður ef tekjur frá lífeyrissjóðum færu yfir tiltekin mörk.

„Í öllum samanburðarríkjum okkar frá þessum tíma hafa verið stigin frekari skref til að efla sjóðsöfnun í lífeyrissjóðum og létta um leið byrði ríkissjóða af greiðslum gegnum tryggingakerfi sín. Þau velja í meginatriðum sömu leið að því marki að létta á gegnumstreymiskerfum sínum með því að:

 • Hækka lífeyristökualdur til að fólk vinni lengur áður en það fer á lífeyri frá hinu opinbera.
 • Þrengja að svigrúmi fólks til að fara snemma á lífeyri, einnig til að stuðla að því að það sé lengur á vinnumarkaði og greiði skatta til að halda gegnumstreyminu gangandi.

Í Danmörku og Svíþjóð er svo stuðlað líka að meiri sveigjanleika og valfrelsi í lífeyriskerfinu til að gera meira aðlaðandi að greiða lengur í það fram eftir ævinni.

Í Hollandi er tekist á um lífeyrismál. Verkalýðshreyfingin og stjórnvöld eru sammála um að styrkja beri sjóðsöfnun í lífeyriskerfinu en stéttarfélög launafólks vilja ekki auka greiðslur inn í kerfið nema ríkið dragi úr skerðingu greiðslna úr opinbera almannatryggingakerfinu. Hollenska lífeyrissjóðakerfið er annars eitt hið öflugasta sem um getur og hefur verið undanfarin ár, samkvæmt OECD.

Hollenska verkalýðshreyfingin stendur vörð um lífeyrissjóðakerfi en menn standa frammi fyrir þeim vanda að tryggingafræðileg staða sjóða miðast við ríkjandi vexti á hverjum tíma og þeir eru mjög lágir í Hollandi. Framreiknuð ávöxtun dugar ekki og því blasir við mörgum hollenskum lífeyrissjóðum að grípa til þess að skerða lífeyrisréttindi svo skuldbindingar sjóðanna séu ekki umfram eignir til lengri tíma.

Almennt séð veldur breytt aldurssamsetning þjóða því að gegnumstreymiskerfi í lífeyrismálum eiga erfiða tíma framundan. Þjóðir eldast hlutfallslega og sífellt færri vinnandi hendur standa undir velferðarkerfum ríkja með því að greiða skatta af tekjum sínum. Gegnumstreymiskerfi ganga ekki upp til lengri tíma litið, ein og sér.

Íslendingar eru heppnir vegna þess að þjóðin er hlutfallslega ung. Aldurssamsetningin er hagstæðari en víða annars staðar, atvinnuástand er jafnan gott og hagvöxtur umtalsverður eða jafnvel verulegur. Íslendingar voru mun fyrr á ferðinni en aðrir að lögfesta greiðslur í lífeyrissjóði og gott efnahags- og atvinnuástand stuðlar að miklum inngreiðslum í kerfið.“

Kostir og gallar í fáum orðum

Gegnumstreymiskerfi –­ kostir: 

 • Hentar vel til færslu fjármuna milli þjóðfélagshópa, til að mynda til stuðnings við tekjulága og þá sem af einhverjum ástæðum hafa ekki náð að safna nægjanlegum réttindum í lífeyrissjóðum.
 • Áhættulítið kerfi til skemmri tíma litið.

Gegnumstreymiskerfi –­ gallar: 

 • Stjórnmálamenn geta breytt kerfinu með nýjum lögum eða reglum og skert lífeyrisréttindi ef svo ber undir.
 • Breytt aldurssamsetning (hærra hlutfall aldraðra) eykur framfærslubyrði vinnandi fólks uns kemur að því að ekki er hægt að ganga lengra í skattheimtu til að standa undir lífeyriskerfinu.

Sjóðsöfnunarkerfi –­ kostir 

 • Hver kynslóð safnar fyrir eigin lífeyri í sjóðum.
 • Lífeyrissjóðir eiga kost á fjölbreyttari fjárfestingu en ríkið.
 • Erlendar fjárfestingar draga úr áhættu sem fylgir því að eiga allt undir hagkerfi heimaríkisins.
 • Ávöxtun fjárfestinga (byggð á reynslu fortíðar) verður líklega meiri en launahækkanir sem gegnumstreymiskerfin þurfa að reiða sig á.
 • Launafólk horfir frekar á lífeyrisiðgjöld sem sparnað en skattheimtu og er því viljugra til að leggja fjármuni til hliðar.
 • Lífeyrissjóðir geta stuðlað að fjölbreyttari atvinnuuppbyggingu en ríkisvaldið.

 Sjóðsöfnunarkerfi –­ gallar 

 • Ónóg ávöxtun eigna getur orðið til þess að lífeyrisréttindi skerðist.
 • Rekstrarkostnaður kerfisins.
 • Lengri meðalævi þjóðar getur skert lífeyri.

 

Vefsnið - íslenska lífeyriskerfið borið saman við kerfi Englands, Hollands, Svíþjóðar og Danmerkur 

PDF snið - íslenska lífeyriskerfið borið saman við kerfi Englands, Hollands, Svíþjóðar og Danmerkur