Samanburður lífeyriskerfa fimm landa

Inngangur

Í þessari samantekt eru skoðaðar vísbendingar um að íslenska lífeyriskerfið (almannatryggingar og lífeyrissjóðir) komi vel út í alþjóðlegum samanburði, þrátt fyrir að hér séu greidd lægri iðgjöld en víðast hvar annars staðar. Dregin er upp mynd af stöðunni með samanburði á íslenska lífeyriskerfinu og lífeyriskerfi fjögurra nágrannalanda. Dregin eru fram helstu einkenni kerfanna í löndunum fimm og varpað ljósi á hvernig Ísland kemur út í því samhengi. Áhersla er lögð á ellilífeyri en ekki á örorku-, maka- eða barnalífeyri. Ekki er fjallað um einstakar lífeyrisafurðir, eignasamsetningu eða stjórnarhætti. Samantektin er gerð til að styðja við upplýsta umræðu um lífeyrismál og auðvelda aðgang að gögnum sem eru uppfærð reglulega. 

Árið 2014 var gerð rannsókn á lífeyrissparnaði Íslendinga sem liður í fjölþjóðlegur verkefni á vegum OECD (Efnahags- og framfarastofnunarinnar) með fjárstuðningi Evrópusambandsins. Skýrslan, Nægjanleiki lífeyrissparnaðar, um niðurstöður rannsóknarinnar var kynnt og gefin út í febrúar 2015. Íslenska lífeyriskerfið kom afar vel út í þeim samanburði.

Í erindi fulltrúa OECD á fundi þar sem efni skýrslunnar var kynnt var m.a. vakin athygli á því að þótt lág iðgjöld vegna lífeyrissparnaðar væru greidd á Íslandi í samanburði við flest önnur lönd væru lífeyrisréttindi engu síðri en í þeim löndum sem tóku þátt í samanburðarrannsókninni. Að bera saman lönd á þennan hátt getur reynst erfitt vegna mismunandi vægis lífeyrisstoða, þ.e. grunnþátta lífeyriskerfsins í hverju landi fyrr sig. Í kjölfarið töldu Landssamtök lífeyrissjóða ástæðu til að fara í nánari samanburð við nokkur nágrannalönd til að varpa ljósi á þá þætti sem ráða mestu um lífskjör lífeyrisþega. Skipaður var starfshópur sem hefur nú lokið athugun sinni og er þessi samantekt afraksturinn.

Starfshópurinn valdi fjögur lönd til samanburðar við Ísland: Bretland, Danmörku, Holland og Svíþjóð. Forsendur valsins voru einkum þessar: 

 • Gjarnan er horft til þessara landa um samanburð við íslenskt samfélag.
 • Útfærsla lífeyriskerfanna er ólík - og það varpar ljósi á mismunandi leiðir og valkosti.
 • Kerfin eru almennt talin standa framarlega í alþjóðlegum samanburði lífeyriskerfa  - og því góð fyrirmynd, ef ástæða væri talin til að huga að endurbótum á íslenska lífeyriskerfinu. 
 • Engar séraðstæður eða einkenni torvelda samanburð (dæmi: Olíusjóður Norðmanna).
 • Gögnin sem samanburðurinn byggir á eru auðfengin á veraldarvefnum og uppfærð reglulega þannig að auðvelt verður að uppfæra samantektina á komandi árum.

Samantektinni var ætlað að draga fram eftirtalin atriði:

 • Lýsingu á uppbyggingu og einkennum lífeyriskerfa landanna fimm.
 • Lýsingu á fjármögnun kerfanna.
 • Samanburð á ellilífeyri núverandi lífeyrisþega.
 • Greiningu á því hverju kerfin muni skila í framtíðinni fyrir nýliða á vinnumarkaði.
 • Líklegri útkomu íslenska kerfisins ef það yrði tekið með í árlegum samanburði þekktra rannsóknastofnana.

Starfshópinn skipuðu:

Stefán Halldórsson, verkefnastjóri hjá Landssamtökum lífeyrissjóða.
Tómas N. Möller, yfirlögfræðingur hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna.
Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.

Maríanna Jónasdóttir, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu, veitti hópnum ráð í upphafi.
Rakel Fleckenstein Björnsdóttir, verkefnastjóri hjá Landssamtökum lífeyrissjóða, starfaði með hópnum á síðari stigum og sá um frágang samantektarinnar.
Björn Z. Ásgrímsson, sérfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu, veitti ráðgjöf um efnistök og heimildir, m.a. frá OECD þar sem hann var starfsmaður um skeið.


Meginniðurstöður samantektarinnar

Þrátt fyrir hlutfallslega lág opinber framlög til ellilífeyris (sem að hluta má rekja til þess að hlutfall eldri borgara af heildarmannfjölda er lægra en í samanburðarlöndunum) kemur íslenska lífeyriskerfið vel út hvað tekjuhlutföll varðar í samanburði við hin löndin fjögur af tveimur ástæðum:

 • Vernd gegn alvarlegri fátækt er náð með því að beina greiðslum almannatrygginga markvisst að láglaunafólki og þeim sem verst standa, en hinir fá lítið eða ekkert.
 • Réttindakerfi starfstengdu lífeyrissjóðanna geta tryggt nægilegt lífeyrishlutfall, að vísu eftir lengri starfsævi en tíðkast í hinum löndunum. (Kafli 6)

Ísland er nú þegar með afgerandi hæst hlutfall ellilífeyris úr söfnunarkerfum (starfstengdum lífeyrissjóðum og séreignarsparnaði). Í hinum löndunum fjórum kemur meirihluti lífeyris úr opinberum gegnumstreymiskerfum. (Kafli 2)

Ef reiknaður er út væntur lífeyrir einstaklings sem er nýkominn á vinnumarkað verður niðurstaðan sú, að hollenska kerfið skili bæði hæstu lífeyrishlutfalli og jöfnustu skiptingunni á greiðslum frá ríki annars vegar og lífeyrissjóðakerfinu hins vegar. Íslenska kerfið kemur þar næst á eftir. (Kafli 3)

Íslenska kerfið sker sig úr með mikilli tekjutengingu lífeyris úr opinbera kerfinu. Ísland er jafnframt eina landið þar sem lífeyrir úr opinbera kerfinu fellur niður ef tekjur frá lífeyrissjóðum fara yfir tiltekin mörk.  (Kafli 3)

Á Íslandi er jöfnuður í tekjum meiri en í hinum löndunum, hér eru hlutfallslega færri undir fátæktarmörkum og lífeyrisþegar koma allvel út hvað þetta varðar í samanburði við aðra landsmenn og við lífeyrisþega hinna landanna. (Kafli 4)

Á Íslandi eru útgjöld til ellilífeyris sem hlutfall af landsframleiðslu mun minni en í hinum löndunum fjórum. (Kafli 5)

Af umfjöllun tveggja erlendra rannsóknarstofnana um styrkleika og veikleika lífeyriskerfa nokkurra tuga erlendra ríkja má ætla að Ísland myndi fá háa einkunn í slíkum samanburði og líklega ná inn í eitt af efstu sætunum eða a.m.k. topp tíu. (Kafli 7)

Opna kafla 1: Markmið og einkenni lífeyriskerfa