Góð ávöxtun lífeyrissjóða þriðja árið í röð

Árið 2021 var gott ávöxtunarár hjá íslenskum lífeyrissjóðum og er þetta þriðja árið í röð sem ávöxtun er langt umfram 3,5% ávöxtunarviðmið þeirra. Samkvæmt áætlun Landssamtaka lífeyrissjóða (LL) er raunávöxtun sjóðanna árið 2021 um 10,2%. Er miðað við vegið meðaltal ávöxtunar alls eignasafns sjóðanna en endanlegar ávöxtunartölur verða birtar þegar ársreikningar sjóðanna fyrir árið 2021 liggja fyrir.

Eignir lífeyrissjóða 

Hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóða var yfir 35% í lok nóvember 2021 en hjá samtryggingadeildum nokkurra sjóða er hlutfallið nú komið nálægt 45%. Á þetta einkum við um sjóði með yngri sjóðfélagahópa og er hætt við að núverandi heimildir kunni að hafa neikvæð og hamlandi áhrif á fjárfestingarstefnu slíkra sjóða.

Af þessum sökum hefur umræða skapast um mikilvægi þess að heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í erlendri mynt verði auknar. Gjaldmiðlaáhætta þeirra má ekki fara upp fyrir 50% af heildareignum og færast margir sjóðir nær því marki. LL hafa vakið athygli á málinu og virðist ríkja almennur skilningur á mikilvægi þess að veita sjóðunum aukið svigrúm. Er nú unnið að greiningu á stöðunni og er þess vænst að sú vinna gangi hratt og örugglega fyrir sig og leiði til aukinna heimilda stjóðanna til fjárfestinga í erlendri mynt. 

Jafnvægi virðist vera að komast á húsnæðislán lífeyrissjóða til heimila á árinu 2021 eftir mikla hreyfingu frá lífeyrissjóðum yfir til banka árið á undan. Áfram vex hlutfall óverðtryggðra lána en verðtryggð húsnæðislán eru þó enn meirihluti allra sjóðfélagalána. Alls námu húsnæðislán lífeyrissjóða tæpum 500 ma.kr. í lok nóvember 2021 eða um 7,5% af fjárfestingareignum sjóðanna.

Framlenging Covid-19 úrræða

Á nýliðnu ári voru ýmsar ráðstafanir yfirvalda tengdar faraldrinum framlengdar. Tímabundið leyfi til úttektar á séreignarsparnaði var framlengt til ársloka 2021 og nemur heildarúttekt séreignarsparnaðar vegna úrræðisins alls 37 mö.kr., þar af voru 12 ma.kr. greiddar út á árinu 2021. Lokað var fyrir nýjar umsóknir um sl. áramót en áætlað er að greiðslur vegna fyrirliggjandi umsókna, fram til mars 2023, muni nema 1,2 ma.kr.

Góð ávöxtun undanfarin ár

Eins og fyrr greinir hefur ávöxtun lífeyrissjóða verið langt umfram þá 3,5% ávöxtun sem notuð er sem viðmið við útreikninga á tryggingafræðilegri stöðu sjóðanna. Ljóst er að ekki er hægt að gera ráð fyrir að áframhaldandi ávöxtun verði jafn há en mestu skiptir að meðalávöxtun til langs tíma standist áætlanir. Lífeyrissjóðir fjárfesta til langs tíma og fyrir réttindi sjóðfélaga skiptir langtímaávöxtun mestu máli.

Nýjar lífslíkutöflur hafa nú verið birtar af fjármála- og efnahagsráðuneytinu þar sem gert er ráð fyrir áframhaldandi hækkun lífaldurs. Sjóðirnir hafa tveggja ára ráðrúm til að innleiða þessar nýju lífslíkutöflur. Góð ávöxtun undanfarin ár hefur gert það að verkum að margir sjóðir eru nú í sterkri stöðu til að innleiða breyttar lífslíkutöflur án þess að uppfærslan leiði til breytinga á núverandi réttindum sjóðfélaga.