Harpa Jónsdóttir tekin við sem framkvæmdastjóri LSR

Harpa Jónsdóttir, nýráðinn framkvæmdastjóri LSR og Unnur Pétursdóttir, formaður stjórnar LSR.
Harpa Jónsdóttir, nýráðinn framkvæmdastjóri LSR og Unnur Pétursdóttir, formaður stjórnar LSR.

Harpa Jónsdóttir tók í dag við starfi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins – LSR af Hauki Hafsteinssyni. Hún hóf vinnudaginn með því að efna til fundar með starfsmönnum sjóðsins og skrifaði að því búnu undir ráðningarsamning ásamt Unni Pétursdóttur, stjórnarformanni LSR.

Harpa var áður framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands. Hún er með BS-gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands og meistara- og doktorspróf í verkfræði frá Tækniháskóla Danmerkur með tímaraðagreiningu, tölfræði og vatnafræði sem sérsvið.

Haukur Hafsteinsson, fráfarandi framkvæmdastjóri, var forsvarsmaður LSR í 34 ár samfleytt. Hann vann að lífeyrismálum ríkisstarfsmanna allan starfsferil sinn eða frá því hann útskrifaðist úr lögfræði í Háskóla Íslands árið 1982. Haukur réði sig fyrst til starfa hjá Tryggingastofnun ríkisins sem annaðist þá rekstur nokkurra lífeyrissjóða, þar á meðal sjóðs ríkisstarfsmanna.

Það teljast mikil tíðindi í lífeyrissjóðakerfinu þegar Haukur hverfur nú af þeim vettvangi. Honum eru færðar hér þakkir og árnaðaróskir um leið og Harpa er boðin velkomin til starfa.