Ísland efst í alþjóðlegum samanburði lífeyriskerfa

Íslenska lífeyriskerfið er í efsta sæti í alþjóðlegri lífeyrisvísitölu sem ráðgjafarfyrirtækið Mercer og samtökin CFA Institute standa að og birt var í morgun.

Ísland er nú í fyrsta sinn með í þessum samanburði lífeyriskerfa í alls 43 ríkjum og í næstu sætum fyrir neðan eru Holland og Danmörk. Þessi þrjú ríki eru þau einu sem lenda í efsta flokki vísitölunnar þegar lögð eru saman stig fyrir hvern einstakan þátt lífeyriskerfanna.

Styrkleikar íslenska lífeyriskerfisins

Ísland fær góða útkomu í mörgum þáttum en ekki mjög slaka útkomu í neinum þætti. Í því liggur ágæt heildarútkoma íslenska lífeyriskerfisins. 

Þessi samanburður lífeyriskerfa byggist annars vegar á talnaefni frá Efnahags- og framfarastofnunni – OECD og öðrum fjölþjóðastofnunum og gagnabönkum og hins vegar á upplýsingum sem sérfræðingar hjá Mercer og fleiri hafa aflað í viðkomandi ríkjum.

Hvað er Mercer vísitalan?

Niðurstöður vísitölunnar birtar

Listinn yfir lífeyrisvísitölu lífeyriskerfa var birtur samtímis um allan heim nú í morgunsárið að íslenskum tíma. Stefán Halldórsson, verkefnastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, hefur kynnt sér niðurstöðuna og er líka vel kunnugur öðrum alþjóðlegum könnunum þar sem lífeyriskerfið á Íslandi var borið saman við sambærileg kerfi erlendis:

„Það er mikill fengur að þessum samanburði, því að þótt heildareinkunn Íslands sé góð eru ýmsar ábendingar um hvar gera mætti betur og þá einnig til hvaða ríkja við ættum helst að horfa sem fyrirmynda.“

Tíu efstu og fimm neðstu

Lífeyriskerfin geta mest fengið 100 stig á vísitölulistanum. Ísland, Holland og Danmörk ná yfir 80 stigum og teljast því búa við öflug lífeyriskerfi sem skili góðum réttindum, séu sjálfbær og með trausta umgjörð.

Hér er listi yfir 10 efstu ríkin af alls 43 og þau 5 neðstu ásamt heildarniðurstöðu hvers fyrir sig í stigum talið.

Hvað skýrir efsta sæti Íslands?

Dr. David Knox, sérfræðingur hjá Mercer, ritstýrir nær 100 blaðsíðna skýrslu um vísitöluna.

Sjá Mercer-CFA skýrslu ársins 2021

Í ávarpsorðum eru skýringar á því að Ísland er í efsta sæti á vísitölulistanum. Hann nefnir þar

  • tiltölulega ríflegan lífeyri frá ríkinu (Tryggingastofnun)
  • samtryggingarlífeyrissjóði alls launafólks með hárri iðgjaldaprósentu sem leiði til þess að verulegar eignir séu lagðar til hliðar fyrir framtíðina
  • góða stjórnarhætti og regluverk lífeyrissjóða í kerfi með góða eiginleika

Í skýrslunni er einnig bent á hvernig unnt væri að hækka heildareinkunn Íslands enn frekar. Það yrði helst gert með því að

  • minnka skuldir heimilanna sem hlutfall af vergri landsframleiðslu,
  • hækka lífeyristökualdur eftir því sem lífslíkur halda áfram að aukast,
  • minnka skuldir ríkisins sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.

Styrkleikar og veikleikar íslenska kerfisins

Heimsvísitala Mercer greinist í þrjár undirvísitölur sem mæla nægjanleika, sjálfbærni og traust (e: adequacy, sustainability og integrity). Ísland er í efsta sæti bæði í nægjanleika og sjálfbærni, sem vega þyngst í vísitölunni, en í sjöunda sæti hvað varðar traust.

Athyglisvert er að í þremur þáttum af fjórum, sem vega þyngst í vísitölunni (samtals 31% af heildareinkunn), er Ísland með miðlungi góða einkunn en hámarkseinkunn í þeim fjórða.

Ísland fær þannig 7,7 í einkunn fyrir hlutfall meðallífeyris af meðaltekjum, 6,2 fyrir sparnað og skuldir heimila, 6,4 fyrir lífeyristökualdur og lífeyrisbyrði samfélagsins en 10 fyrir almenna sjóðfélagaaðild. Þetta þýðir jafnframt að fyrir aðra þætti í vísitölunni fær Ísland mjög háa meðaleinkunn, 8,9.

Í fjórum þáttum fær íslenska lífeyriskerfið 5 í einkunn eða lægra (hæst er gefið 10). Það gefur veikleika til kynna:

  • Auka verði miðlun upplýsinga til nýrra sjóðfélaga.
  • Ekki sé ávinnsla lífeyrisréttinda fyrir foreldra sem eru utan vinnumarkaðar til að sinna umönnun barna sinna.
  • Ekki sé nægilega séð til þess að taka áunnin lífeyrisréttindi með í útreikninga á eignaskiptum við hjónaskilnað.
  • Traustari ákvæði vanti í lög og regluverk sem skyldi lífeyrissjóði til að gæta að sjálfbærniþáttum í fjárfestingum.

 Í fjórða sæti á lista um kynjamun í lífeyriskerfum

Sérstakur kafli er í Mercer-skýrslunni um kynjamun í lífeyriskerfum. Samkvæmt útreikningum sem OECD birti í mars 2021 er meðallífeyrir kvenna lægri en meðallífeyrir karla í öllum lífeyriskerfum.

  • Mestur er munurinn í Japan þar sem meðallífeyrir karla er nærri tvöfaldur lífeyrir kvenna.
  • Minnstur munur er í Eistlandi, um 10%.
  • Ísland kemur nokkuð vel út úr þessum samanburði og er í fjórða sæti af 34 ríkjum með um 13,2% mun árið 2017.

Ástæður fyrir þessum mun er einkum styttri starfsævi og/eða tímabundin fjarvera kvenna af vinnumarkaði sem jafnframt dregur úr möguleikum á stöðu- og launahækkun, lægri laun í hefðbundnum kvennastéttum og hærra hlutfall kvenna í hlutastörfum.

Einnig geta félags- og menningarleg áhrif skýrt muninn að hluta, svo og regluverk í lífeyriskerfinu varðandi réttindaávinnslu. Sum þessara atriða hafa lækkað einkunnir Íslands í lífeyrisvístölunni.

 

Sjá Mercer-CFA skýrslu ársins 2021

Sjá samantekt Mercer á helstu atriðum skýrslunnar