Vinna við grænbókina er loksins hafin!

Jón Ólafur Halldórsson nýr formaður stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða

Formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna, Jón Ólafur Halldórsson, er nýkjörinn stjórnarformaður Landssamtaka lífeyrissjóða. Hann var fyrir í stjórninni en tók við formennsku af Hilmari Harðarsyni frá Birtu lífeyrissjóði sem lét af stjórnarsetu á aðalfundi Landssamtakanna 30. maí sl. Aðrar breytingar í stjórninni eru þær að Jakob Tryggvason, Birtu lífeyrissjóði, tók þar sæti á nýjan leik. Hann var áður í stjórninni frá 2018 til 2020. Þá var Elsa Björg Pétursdóttir, Stapa lífeyrissjóði, kjörin í stjórn Landssamtakanna í stað Erlu Jónsdóttur og Auður Kjartansdóttir, Brú lífeyrissjóði, í stað Halldóru Káradóttur. Nýr varamaður var kjörin, Una Eyþórsdóttir sem kemur frá Íslenska lífeyrissjóðnum. 

Ný stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða er því þannig skipuð eftir aðalfundinn 2023 (aðalmenn í stafrófsröð):

 • Arnaldur Loftsson, Frjálsa lífeyrissjóðnum
 • Auður Kjartansdóttir, Brú lífeyrissjóði
 • Elsa Björg Pétursdóttir, Stapa lífeyrissjóði
 • Gylfi Jónasson, Festu lífeyrissjóði
 • Harpa Jónsdóttir, LSR
 • Ingibjörg Ólafsdóttir, Gildi lífeyrissjóði
 • Jakob Tryggvason, Birtu lífeyrissjóði
 • Jón Ólafur Halldórsson, Lífeyrisjóði verslunarmanna
 • Valmundur Valmundsson, Lífeyrissjóði Vestmannaeyja

Nýi stjórnarformaðurinn, Jón Ólafur Halldórsson, er með B.Sc. í véltæknifræði frá KTH Kaupmannahöfn, MBA með áherslu á fjármál fyrirtækja og MS í stjórnun og stefnumörkun í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og AMP diploma frá IESE í Barcelona. Hann hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og sinnir ráðgjafarstörfum ásamt stjórnarstörfum. Hann er formaður stjórnar Samtaka verslunar og þjónustu og situr einnig í stjórn og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins auk annarra stjórnarstarfa. Hann starfaði hjá Olís í 27 ár, þar af sem forstjóri í 7 ár.

Vinna við grænbókina hafin – loksins, loksins!

Eftirfarandi kom fram í ávarpi Hilmars Harðarsonar, fráfarandi formanns Landssamtaka lífeyrissjóða, á ársfundi samtakanna 30. maí sl. 

„Nú gekk það loksins eftir að skipaður var fjölmennur starfshópur um grænbókina til að vinna að grænbók um lífeyriskerfið, verkefni sem við höfum kallað eftir því að ráðist verði í. Fjallað verður um stöðu lífeyriskerfisins og helstu áskoranir til að þroska umræðuna, leggja mögulega grunn til framtíðar og jafnvel að breytingum á lagaramma um lífeyrismál og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Gert er ráð fyrir því að starfshópurinn skili drögum að grænbók eigi síðar en 1. desember 2023 og því ljóst að fulltrúar í hópnum og sérfræðingar þeirra vita hvað til síns friðar heyrir næstu mánuði. Grænbókarvinnan er mikil áskorun sem tengist beint eða óbeint ýmsum öðrum áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í starfsemi lífeyrissjóða. Nægir að nefna loftlags- og umhverfismál, grænar fjárfestingar og tengd áherslumál sem kalla á markvisst samstarf stjórnvalda og fjármálakerfisins svo unnt sé að ná tilskildum árangri. Þetta er og verður stóra verkefnið okkar næstu árin.“

Hilmar vék líka að eftirfarandi efnisatriðum og áherslupunktum:

 • Áætluð meðalávöxtun eigna íslenskra lífeyrissjóða var neikvæð um tæplega 12 prósent, sem er mikill viðsnúningur til hins verra. Fimm ára ávöxtun er 4% og tíu ára ávöxtun 4,6%.
 • Eignir lífeyrissjóðakerfisins námu um 6.640 milljörðum króna í lok árs 2022.
 • Ísland er fjölþjóðlegt samfélag og þess sjást merki í starfsáherslum Landssamtaka lífeyrissjóða. Þar hefur fræðslustarf verið eflt og styrkt með erlent vinnuafl og aðflutta í huga. Reynt er að ná til þessa hóps með verkefninu Lífeyrisviti þar sem birtar eru upplýsingar á ensku og pólsku um lífeyrissjóði, lífeyrisréttindi og tilheyrandi málefni.
 • Fulltrúar allra sjóða hafa undirritað viljayfirlýsingu um framtíðarþróun í gagnasamskiptum lífeyrissjóða í samstarfi við Stafrænt Ísland. Efst á blaði er að setja upp vefþjónustu milli lífeyrissjóða og Tryggingastofnunar þannig að stofnunin geti á greiðan hátt nálgast upplýsingar um hvort sjóðfélagar hafi hafið töku lífeyris hjá viðkomandi sjóði.

Í lokin þakkaði Hilmar stjórnarmönnum, starfsfólki LL og öðrum í lífeyrissjóðakerfinu fyrir ánægjulegt samstarf á liðnum árum.

Lífeyrisgagnagrunnur í deiglunni

Stefán Halldórsson, verkefnastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, upplýsti ársfundarfulltrúa um viðræður sem átt hafa sér stað undanfarna mánuði við Háskóla Íslands, Hagstofuna, fjármálaráðuneytið og Seðlabankann í samræmi við stefnu samtakanna um að efla rannsóknir og greiningu. Lagt hefur verið til að setja upp lífeyrisgagnagrunn sem hýstur verði hjá Hagstofunni, efla stuðning við rannsóknir á lífeyrismálum í Háskóla Íslands og koma á fót námslínu í tryggingastærðfræði við háskólann, enda er brýnt að fjölga menntuðum tryggingastærðfræðingum í fjármálakerfinu. Stefán sagði að það væri skýr vilji allra aðilanna að koma þessum verkefnum á legg. Á næstu vikum verða viðræður um tilhögun og kostun. Í fjárhagsáætlun Landssamtakanna 2023, sem samþykkt var á aðalfundinum, er „eyrnamerkt“ fjárveiting til handa stjórn samtakanna til að stuðla að farsælum niðurstöðum í þessum efnum.

Loftslagsáhætta og lífeyrissjóðir  

Á aðalfundinum flutti Rebekka Ólafsdóttir áhættustjóri hjá Gildi og formaður áhættunefndar LL greinargott erindi sem nefndist Áhættustýring til framtíðar - innleiðing á sjálfbærni og loftslagsmarkmiða hjá lífeyrissjóðum. Í erindinu fjallaði hún um áskoranir lífeyrissjóða tengdar loftslagsáhættu og hvernig hægt væri að mæla hana og greina. 

Rebekka gerði grein fyrir ESB flokkunarkerfi (e. EU Taxonomy) en tilgangur þess er að hjálpa fjárfestum og fyrirtækjum að taka upplýstar fjárfestingarákvarðanir með sjálfbærniviðmið í huga. Þann 1. júní nk. tekur reglugerðin gildi á Íslandi og er þá aðilum á fjármálamarkaði gert skilt að birta upplýsingar um hvort, og þá hvernig, afurðir sem seldar eru sem sjálfbærar falla að flokkunarkerfi ESB. 

Í erindinu var einnig komið inn á mögulega aðkomu stjórnvalda, bæði varðandi fjárfestingartækifæri og aðgengi að samræmdri upplýsingagjöf við mat á loftslagsáhættu fyrirtækja og atvinnugreina. Eftir erindið var umræða meðal fundargesta um að mælingar geti orðið flóknar og kostnaðarsamar í framtíðinni og miklu máli skipti að beita almennri skynsemi (e. common sense) eins og kom fram í lok erindis Rebekku.

Ársskýrsla 2022-2023
Glærur frá aðalfundi
Erindi Rebekku Ólafsdóttur


Myndir frá aðalfundinum