Sjóðfélagar í Almenna lífeyrissjóðnum og Lífsverki hafa samþykkt sameiningu sjóðanna með yfirgnæfandi meirihluta í rafrænum kosningum.
Hjá Almenna samþykktu 87% sjóðfélaga tillöguna og 81% hjá Lífsverki, með metþátttöku hjá báðum sjóðum.
Stjórnir sjóðanna höfðu áður einróma mælt með sameiningunni og rík ánægja er með skýra niðurstöðu kosninganna. Sameiningin er talin styrkja rekstur, auka skilvirkni og nýta stærðarhagkvæmni til hagsbóta fyrir sjóðfélaga til framtíðar.
Sameinaður sjóður, Almenni – Lífsverk, lífeyrissjóður, tekur til starfa 1. janúar 2026, að því gefnu að samþykki Samkeppniseftirlitsins og Fjármála- og efnahagsráðuneytisins liggi fyrir. Hann verður fimmti stærsti lífeyrissjóður landsins með um 700 milljarða króna í heildareignir.
Landssamtök lífeyrissjóða óska sameinuðum sjóði góðs gengis og farsældar.