Fráleit krafa fjármálafyrirtækja um að lífeyrissjóðum verði bannað að lána til fasteignakaupa

Fráleit krafa fjármálafyrirtækja um að lífeyrissjóðum verði bannað að lána til fasteignakaupa

Það er almenningi ótvírætt í hag að lífeyrissjóðir veiti áfram sjóðfélögum sínum lán til fasteignakaupa, líkt og þeir hafa gert allt frá því er sjóðirnir voru stofnaðir. Fráleitt væri því að fallast á kröfu Samtaka fjármálafyrirtækja um að Alþingi banni lánastarfsemi lífeyrissjóða. Slíkar lagaskorður ganga gegn almannahagsmunum en lífeyrissjóðir eru eign almennings.

Fjármálafyrirtækjum gengur aðeins eitt til með þessari kröfu sinni og það er að sitja ein að þessum hluta lánamarkaðarins. Þau vilja að lánveitingar eigi sér stað í gegnum fjárfestingar í fjármálagerningum sem skráðir eru á markaði á borð við sértryggð skuldabréf.

Samtök fjármálafyrirtækja sjá fyrir sér að lífeyrissjóðir kaupi síðan skuldabréfin og fjármagni þannig fasteignalánin áfram en að til komi nýr milliliður í viðskiptunum, það er að segja fjármálafyrirtækin með tilheyrandi kostnaðarauka. Slík breyting væri fullkomlega í andstöðu við hagsmuni sjóðfélaga lífeyrissjóða og alls almennings. Að vefja fasteignalánum inn í markaðspappíra er klárlega dýrari og óhagkvæmari kostur en bein lánveiting til sjóðfélaga og hreint ekki til þess fallið að lækka útlánavexti.

Lífeyrissjóðir hafa áratuga reynslu af því að lána til fasteignakaupa. Fasteignalán eru góður kostur fyrir sjóðfélaga. Sjóðirnir standa faglega að veitingu þeirra til samræmis við lög og reglur og undir ströngu eftirliti, rétt eins og fjármálafyrirtækin. Reglur um greiðslu- og lánshæfismat eiga að sjálfsögðu við lífeyrissjóðina eins og um fjármálafyrirtækin.

  • Landssamtök lífeyrissjóða vænta þess að ekki verði fallist á kröfu fjármálafyrirtækjanna.

Rétt er að rifja hér upp að erindi fjármálafyrirtækja til Alþingis nú er ekki fyrsta áhlaup þeirra á lánveitingar lífeyrissjóða til sjóðfélaga. Hliðstæð atlaga var gerð árið 2004 en þá sendu Landssamtök lífeyrissjóða frá sér yfirlýsingu þar sem eftirfarandi kom m.a. fram:

„Staðreyndin er sú að bönkunum leiðist samkeppnin og vilja hafa þennan markað fyrir sig einan. Verður þá fyrst ömurlegt að búa á Íslandi þegar ekki verður hægt að leita fasteignatryggðra lána víðar en hjá bönkunum. Það er von Landssamtaka lífeyrissjóða að slík staða komi aldrei upp.“

Nú sem fyrr stendur yfirlýsingin.