"Cutting through the noise" í Dublin

Fræðslumál lífeyrissjóða í brennidepli

Snædís Ögn Flosadóttir, framkvæmdastjóri EFÍA (Eftirlaunasjóðs FÍA) flutti nýverið erindi á ráðstefnu á Írlandi sem landssamtök lífeyrissjóða á Írlandi, IAPF, stóðu fyrir. Um 250 manns stóttu ráðstefnuna, lífeyrissjóðir sem eiga aðild að samtökunum sem og eignastýringarfyrirtæki og aðrir sem vinna með lífeyrissjóðum.

Í erindi sínu fjallaði Snædís um fjármálafræðslu og það hvernig lífeyrissjóðir á Íslandi standa að fjármálafræðslu og fræðslu um lífeyrissjóði. Hún benti á mikilvægi þess að sinna slíkri fræðslu af kostgæfni og hvers vegna það skiptir lífeyrissjóði máli að stuðla að bættri þekkingu sjóðfélaga.

Snædís sagði frá starfi Fjármálavits, sem er samstarfsverkefni SFF (Samtök fjármálafyrirtækja) og Landssamtaka lífeyrissjóða (LL), og frá annarri fræðslustarfsemi á vegum LL. Fram kom í máli hennar að nýstárlegum og spennandi aðferðum hafi verið beitt til að höfða til yngri sjóðfélaga en þar hafi samfélagsmiðlastjarna (Gói sportrönd) spreytt sig á lífeyrismálunum og gert þau bæði skemmtileg og aðgengileg. Notkun samfélagsmiðla hefur aukist og hafa LL nýtt sér það, útbúið  kynningarmyndbönd og ýmislegt fleira.

Snædís greindi einnig frá því sem lífeyrissjóðirnir eru að gera til að fræða og þjónusta sjóðfélaga sína og nefndi meðal annars gott aðgengi að upplýsingum á heimsíðum sjóðanna, Mínar síður, opna fræðslufundi, almennt kynningar- og fræðslustarf o.fl.