Fjárfest og ávaxtað undir heillastjörnu Arsenal

Lífeyrissjóður Vestmannaeyja er varfærinn í fjárfestingum og hefur alltaf verið. Hann skilar að jafnaði góðri ávöxtun eigna, hefur hvorki farið í hæstu hæðir né niður í djúpa dali. Raunávöxtun eigna í samtryggingu var 11,6% á árinu 2019 og séreignin hefur líka komið vel út. Ég nefni í framhjáhlaupi að raunávöxtun sjóðsins fyrstu fjóra mánuði ársins 2020 var tæplega 2% þrátt fyrir þær sérstöku aðstæður sem hafa verið í heiminum undanfarið.

Það segir væntanlega sína sögu að Lífeyrissjóður Vestmannaeyja er einn fárra sjóða sem aldrei hefur skert lífeyrisréttindi. Þá er rétt að hafa í huga að sjóðurinn okkar hafði ári fyrir bankahrunið 2008 aukið lífeyrisréttindi sjóðfélaga sinna um 10% en hélt samt sjó.“ 

Góðir straumar frá rauðri og hvítri treyju á vegg 

Haukur Jónsson hóf störf sem framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja á árinu 2011 í veikindaforföllum þáverandi framkvæmdastjóra en var síðan ráðinn formlega framkvæmdastjóri 1. janúar 2012. Hann var áður skrifstofustjóri sjóðsins og viðloðandi starfsemina frá árinu 1997.

Haukur er Eyjamaður að uppruna, viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Bifröst með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá sama skóla með viðkomu í Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn (Copenhagen Business School) og hefur hann löggildingu í verðbréfamiðlun.

Framkvæmdastjórinn er gallharður stuðningsmaður Arsenal í enska fótboltanum og hefur uppi á vegg hjá sér á kontórnum treyju klúbbsins sem liðsmenn árituðu 2017 og Arsene Wenger knattspyrnustjóri sömuleiðis. Í tilveru Hauks jafngildir treyjan heillastjörnu og undir henni stýrir hann lífeyrissjóðnum frá degi til dags og fær þaðan góða strauma! Þá er það sagt og vonum seinna að upplýst sé hvað búi að baki góðu gengi Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja sem náði bestri ávöxtun allra lífeyrissjóða á Norðurlöndum árið 2018!

Hátt hlutfall erlendra eigna, lágt hlutfall innlendra hlutabréfa 

Höfnin í VestmannaeyjumEignir Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja eru um 62 milljarðar króna og í hann greiða um 1.650 manns mánaðarlega árið um kring. Starfsmenn eru fjórir, þar af einn VIRK-fulltrúi. 

Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og Festa lífeyrissjóður hafa átt og rekið Jökla-Verðbréf hf. í Reykjavík frá árinu 2000. Jöklar-Verðbréf hafa það meginhlutverk að annast verðbréfaviðskipti og eignastýringu fyrir eigendur sína og skila sínu með sóma.

„Við höfum um árabil verið með hátt og jafnvel hæsta hlutfall erlendra eigna í lífeyrissjóðakerfinu. Í lok árs 2019 var það 41% og í bankahruninu var það líka með því hæsta sem gerðist meðal sjóða.

Þá nefni ég að vægi innlendra hlutabréfa í eignasafninu okkar er minna en gerist og gengur eða um 17% nú.

Í hnotskurn greiða allir Eyjamenn til sjóðsins nema einstaka bæjarstarfsmenn og svo ríkisstarfsmennirnir. Launagreiðendur eru um 330 og þá segir sig sjálft að margir þeirra eru utan Vestmannaeyja. Fólk sem flytur héðan, einkum í yngri kantinum, kýs að greiða áfram í sjóðinn. Við fylgjum því fjölda fólks upp á meginlandið.

Ímynd sjóðsins er mjög góð í Vestmannaeyjum og fátt sem hallar á hann á heimavelli. Einstaka fjárfestingar lífeyrissjóða vekja oft umræðu og ég minnist þess að það vakti ekki hrifningu alls staðar í samfélaginu hér þegar sjóðurinn keypti umtalsverðan hlut í Vinnslustöðinni árið 2000. Fyrirtækið var þá í öldudal og hafði ári áður gripið til fjöldauppsagna og fleiri ráðstafana til að rétta sig af. Niðurstaða faglegrar greiningar var að hlutabréf í Vinnslustöðinni væru álitlegur fjárfestingarkostur og það gekk heldur betur eftir. Eignarhluturinn okkar hefur skilað sjóðnum og sjóðfélögum mjög góðri ávöxtun.“

 „Yfir okkur er lítið að kvarta!“

Um eða upp úr síðustu aldamótum kviknuðu hugmyndir um að sameina þrjá landsbyggðarlífeyrissjóði í einn fyrir Norðurland, Austurland og Vestmannaeyjar. Af því varð ekki. Síðar varð Stapi lífeyrissjóður til með sameiningu Lífeyrissjóðs Austurlands og Lífeyrissjóðs Norðurlands. Lífeyrissjóður Vestmannaeyja er hins vegar og verður rekinn áfram. Haukur framkvæmdastjóri merkir ekkert sameiningarsnið á nokkrum manni í sínum ranni. 

„Engin sameining er í spilunum hvað okkur varðar. Við skilum ávöxtun yfir meðallagi ár eftir ár og rekstrarkostnaður sjóðsins er lágur, hlutfallslega sambærilegur við það sem gerist hjá stærstu lífeyrissjóðunum. Yfir okkur er því lítið kvarta! 

Í þjóðfélagsumræðunni er því oft slegið fram að lífeyrissjóðakerfið sé flókið og illskiljanlegt. Þungir sleggjudómar falla. Ég valdi mér þennan starfsvettvang á sínum tíma því mér fannst lífeyrismál einfaldlega áhugaverð og spennandi og kynnti mér kerfið vel áður en ég sótti um starf í Lífeyrissjóði Vestmannaeyja. Starfið átti því betur við mig sem ég kynntist því meira, sérstaklega verðbréfahlutinn. 

Allra brýnast er að fá skýrari línur og slípa samspil lífeyrissjóðakerfisins annars vegar og Tryggingastofnunar ríkisins hins vegar. Gríðarleg óánægja ríkir hjá þeim sem hafa áunnið sér takmörkuð lífeyrisréttindi en þurfa samt að þola skertar greiðslur almannatrygginganna. 

Orð skulu standa. Skýr fyrirheit voru gefin á sínum tíma um að það sem greitt yrði úr lífeyrissjóðum hefði ekki áhrif á greiðslur Tryggingastofnunar. Fólk sem stritað hefur á lágmarkslaunum og greitt skatta, skyldur og lífeyrissjóðsiðgjöld alla sína tíma upplifir að loforð hafi verið svikin. Ríkið hirðir ávinninginn af lífeyrissjóðunum.“