Yfirlýsing frá Landssamtökum lífeyrissjóða vegna málefna Bakkavarar

Yfirlýsing frá Landssamtökum lífeyrissjóða vegna málefna Bakkavarar

Frá Landssamtökum lífeyrissjóða:

Fram hefur komið í umfjöllun um málefni matvælafyrirtækisins Bakkavarar að óskað hafi verið eftir fundi með formanni og framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða til að ræða verðmætaaukningu þess í kjölfar sölu nokkurra lífeyrissjóða á hlutum sínum í fyrirtækinu. Það er rétt að orðið var við beiðni forystumanna tveggja verkalýðsfélaga um fund til að fara yfir þetta mál, þrátt fyrir að landssamtökin hafi enga aðkomu haft að umræddum ákvörðunum. Skýrt kom hins vegar fram á fundinum, og full ástæða er til að ítreka þá afstöðu nú, að hafi einhver rökstuddan grun um að leynt hafi verið upplýsingum um raunverulegt verðmæti fyrirtækisins Bakkavarar þá er hinn eini rétti farvegur að fara með þær grunsemdir til lögbærra yfirvalda og leggja fram formlega kæru. Landssamtökin telja mikilvægt að öll slík mál sem varða mikla fjárhagslega hagsmuni almennings séu skoðuð í kjölin. Því hvetja landssamtökin þá sem hafa rökstuddan grun um að eitthvað ólögmætt athæfi hafi átt sér stað í umræddum viðskiptum til að koma málinu í réttan farveg.

Landssamtök lífeyrissjóða vilja einnig nota þetta tækfæri til að árétta að samtökin koma ekki að ákvörðunum um fjárfestingar einstakra lífeyrissjóða. Slíkar ákvarðanir eru ávallt í höndum þess fagfólks sem starfar í hverjum sjóði fyrir sig. Sjóðirnir starfa sjálfstætt og meta hverja fjárfestingu út frá hagsmunum sinna sjóðfélaga.