Í mörg horn að líta við endurskoðun lífeyrissjóðalaganna

Í mörg horn að líta við endurskoðun lífeyrissjóðalaganna

Undirbúningur er hafinn í fjármála- og efnahagsráðuneytinu að vinnu við að endurskoða lífeyrissjóðalöggjöfina frá 1997. Ráðherra segir verkefnið vandasamt og að það muni taka nokkurn tíma. Heppilegt sé að áfangaskipta því.

Bjarni Benediktsson sagði í framsöguræðu á málþingi Fjármálaeftirlitsins (FME) um framtíðarsýn fyrir lífeyriskerfið að markmið endurskoðunar laganna væri að skapa starfsemi og réttindasöfnun lífeyrissjóða einfalda og heildstæða umgjörð. Lífeyrissjóðir landsins væru öflugir og hefðu sýnt styrk sinn í efnahagshruninu og við endurreisnarstarf eftir hrun en umsvif þeirra vektu líka ýmsar spurningar, til dæmis um einsleitni fjárfestingarhópa, stjórnendatengsl og samkeppnisvanda. Einnig vekti stór hlutdeild sjóðanna i skráðum hlutabréfum og skuldabréfum spurningar um verðmyndun og seljanleika bréfa. Um þetta yrði að fjalla við endurskoðun lífeyrissjóðakerfisins til að tryggja virkni markaða og tiltrú annarra fjárfesta. Æskilegt væri að skýra þetta hlutverk lífeyrissjóða áður en ríkið seldi hluta af eign sinni í fjármálakerfinu.

Fjármála- og efnahagsráðherra hvarf af málþinginu fljótlega eftir framsögu sína til fundar við forystufólk samtaka atvinnurekenda og launafólks í Stjórnarráðinu. Drög að kjarasamningi á almennum vinnumarkaði höfðu verið staðfest um nóttina í Karphúsinu með fyrirvara um tiltekna aðkomu ríkisvaldsins. Þar biðu ráðherranna margir lausir endar að hnýta.

Þrír aðrir frummælendur ávörpuðu fundinn og tóku þátt í umræðum á eftir, undir stjórn Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans.

Sérlög um séreignarsparnað 

Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, nefndi þrennt sem gott væri og gagnlegt að skerpa á við endurskoðun lagatexta um lífeyrissjóði. 

  1. Rétt sé að setja frjálsum séreignarsparnaði sérlög, enda eðlismunur á skyldutryggingum og samtryggingu annars vegar og frjálsum séreignarsparnaði hins vegar.
  2. Setja verði skýr lagaákvæði um hagsmunaárekstra og útvistun reksturs lífeyrissjóða. Starfandi séu 22 sjóðir á landinu, þar af 9 í vörslu annarra lífeyrissjóða eða banka. Því miður séu of mörg dæmi um að hagsmunaárekstur af þessu tagi kalli tjón yfir sjóðfélaga. Mikilvægt sé að framkvæmdastjóri og yfirmaður áhættustýringar lífeyrissjóðs séu óháðir fyrirtækinu sem visti viðkomandi sjóð. Dæmi séu hins vegar um sama framkvæmdastjóra yfir fleiri en einum lífeyrissjóði og að yfirmaður áhættustýringar lífeyrissjóðs sé í sama hlutverki í fyrirtækinu sem vistar sjóðinn.
  3. Herða þurfi hæfniskröfur til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og stjórnenda í lífeyrissjóðum og skerpa lagakröfur um skipan stjórna lífeyrissjóða. „Af hverju ættum við að gera minni kröfur til stjórnar lífeyrissjóðs en stjórna í öðrum fyrirtækjum á fjármálamarkaði og í vátryggingarfélagi?“ spurði Unnur.

Stjórnarskrárvarinn gegnumstreymislífeyrir? 

Gylfi Magnússon, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, varpaði því fram að minnka vægi sjóðsöfnunar í lífeyrissjóðakerfinu en hafa hluta af réttindaávinnslu sjóðfélaga í gegnumstreymi sem nyti þá verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Réttindi almannatrygginga eru annars ekki stjórnarskrárvarin. Hann vék að vaxandi ólgu vegna skerðingar á lífeyri almannatrygginga og sagði samspil lífeyrisstoðanna tveggja jafngilda því í raun að „stór hluti ávöxtunar lífeyrissjóðanna rennur óbeint í ríkissjóð og sveitarfélaga að hluta.“

Gylfi sagði það nánast óhjákvæmilegt að nú halli á elstu kynslóðirnar vegna þess hvernig lífeyrissjóðakerfið sé byggt upp. Þeir sem fyrstir fóru inn í sjóðasöfnunarkerfið greiði raunverulega fyrir tvö kerfi og fái ef til vill minna út úr því kerfi sem þeir treysta á en sjóðfélagar sem á eftir koma. Gegnumstreymisstoð lífeyriskerfisins (almannatryggingarnar) sé bæði of lítil og og veik og háð pólitískum sviptivindum á hverjum tíma. Ekki sé því mögulegt að treysta á lífeyri Tryggingastofnunar með sama hætti og á stjórnarskrárvarin réttindi lífeyrissjóða.

Gylfi ræddi líka raunvexti og sýndi myndrænt að þeir hefðu lækkað á Íslandi um fjórðung úr prósentustigi að jafnaði frá því vextir voru gefnir frjálsir á níunda áratug liðinnar aldar. Með einföldum framreikningi megi því álykta sem svo að raunvextir fari niður undir núll hérlendis eftir um það bil sex ár. Lántakendur kunni að fagna slíku en fyrir lífeyrissjóði sé verulegt áhyggjuefni að ná ávöxtunarviðmiði sjóðanna við slíkar aðstæður, hvað þá ef vextir verði neikvæðir líkt og gerist til dæmis í Þýskalandi og Svíþjóð. 

Einhver tekjutenging eðlileg en hvar eiga mörkin að liggja? 

Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, sagði tímabært að leggja sterkan grunn að heildarendurskoðun á lífeyrissjóðalögunum, einkum að því er varðaði samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða. Þannig hafi til að mynda bráðabirgðarákvæði laga um samspil kerfanna tveggja varðandi greiðslur örorkulífeyris ítrekað verið framlengt allt frá árinu 2011, án þess að unnið sé þar að framtíðarlausn svo vitað sé. Þórey hélt síðan áfram og sagði efnislega: 

„Þegar framtíðarstefna er mótuð fyrir lífeyrissjóðakerfið er mikilvægt að heildarsýn sé fengin á málaflokkinn, leitað sé til sérfræðinga og hugmyndir séu rýndar með faglegum hætti. Nýleg mál hafa komið upp þar sem samráð skorti. Nefna má hálfan lífeyri almannatrygginga og hina svokölluðu tilgreindu séreign sem varð nánast að fjölmiðlafári þegar hún var innleidd. Skal samt tekið fram að fólki gekk ekkert nema gott eitt til! 

Nú mun í félagsmálaráðuneytinu vera unnið að því að leggja drög að nýju framfærslukerfi og sveigjanlegum störfum fyrir endurhæfingar- og örorkulífeyrisþega. Við þá vinnu virðist ekki hafa verið hugað að hlutverki lífeyrissjóða. Mikilvægt er að ekki verði farið af stað í þá vegferð að þróa nýtt framfærslukerfi nema svara um leið spurningunni: Hvert á hlutverk lífeyrissjóða að vera við greiðslu endurhæfingar- og örorkulífeyris? Á það að vera óbreytt eða er það bara svona seinna tíma verkefni? Við þurfum að rýna og kanna hlutina í samhengi. 

Íslenska lífeyrissjóðakerfið hefur talsvert mikla sérstöðu. Við erum með lögbundið skyldutryggingarkerfi sem byggist á þeirri hugsun að tryggja þátttöku allra. Grunnhugsunin er sú að margir spari ekki án skyldu og því hætt við að þeir sem leggja fyrir þurfi að fjármagna þá sem ekki sýna fyrirhyggju. Fyrirhyggjan þarf þó að vera sýnileg.

Margir sjá lítinn sem engan ávinning af því að hafa greitt í lífeyrissjóð og á það einkum við þá sem eiga réttindi í samtryggingu. Íslenska lífeyrissjóðakerfið sker sig úr í samanburði við önnur lönd með svo miklu samspili greiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða. Þannig hefur grunnlífeyririnn verið afnuminn og upp undir 70% af öllum lífeyrisgreiðslum til eldri borgara koma frá lífeyrissjóðum.

Þessi þróun hefur verið hröð enda kerfið stækkað ört en kannski er hún aðeins of hröð með því að láta lífeyrissjóðina taka lungann af greiðslunum. Í þessu sambandi hefur það jafnvel heyrst að lífeyrissjóðakerfið sé fyrsta stoð lífeyris en almannatryggingar aðeins öryggisnet fyrir þá sem eiga engin réttindi. Það kann að vera framtíðarsýn einhverra en kerfið hefur ekki náð þeim þroska og núverandi lífeyrisþegar eru ekki sáttir! 

Ég held að flestir séu sammála um að einhverjar tekjutengingar séu eðlilegar og í raun nauðsynlegar en hvar eiga mörkin að liggja? Þessari spurningu þarf að svara en ljóst er að ekki ríkir sátt um núverandi skipan mála.“