Ísland fær viðurkenningu fyrir jafnrétti í almannatryggingum

Ríkisstjórn Íslands fær viðurkenningu frá ISSA 

Á vef Stjórnarráðsins og á vef Tryggingastofnunar er greint frá því að alþjóðlegu almannatryggingasamtökin (ISSA) hafi veitt ríkisstjórn Íslands viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í almannatryggingum fyrir að móta almannatryggingakerfi sem stuðlar að og hvetur til aukins jafnréttis.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þakkaði fyrir viðurkenninguna í stafrænu ávarpi sem hún flutti þegar viðurkenningin var afhent, í ávarpinu sagði hún m.a. að „Sögulega séð hafa konur barist fyrir hverju skrefi sem við höfum stigið í átt að jafnrétti kynjanna á Íslandi“.

Huld Magnúsdóttir, forstjóri TR, tók við verðlaununum fyrir Íslands hönd á þingi samtakanna í Marrakesh í Marokkó. 

Viðurkenning ISSA er veitt á þriggja ára fresti og er ætlað að viðurkenna skuldbindingar og árangur ríkja á sviði almannatrygginga.

Frétt á vef ISSA 

Í tengslum við ofangreinda frétt ber að nefna að Ísland tók í annað sinn í ár þátt í alþjóðlegu lífeyrisvísitölu Mercer og var í efsta sæti nú annað árið í röð. Vísitalan mælir styrkleika lífeyriskerfa í 44 löndum út frá nægjanleika, sjálfbærni og trausti til kerfanna.

Ástæða þess að Ísland nær svo góðum árangri er m.a. að lífeyrir frá almannatryggingum er tiltölulega ríflegur og skyldusparnaður alls launafólks með hárri iðgjaldaprósentu leiðir til þess að verulegar eignir eru lagðar til hliðar fyrir framtíðina.

Niðurstöður Mercer lífeyrisvísitölunnar 2022