Loftslagsbreytingar skapa fjárfestum fjölda áskorana og álitaefna

Frá vinstri: Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð, dr. Lára…
Frá vinstri: Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð, dr. Lára Jóhannsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði í Háskóla Íslands, Tómas Njáll Möller, yfirlögfræðingur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og nefndarmaður í Nefnd Landssamtaka lífeyrissjóða um fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóða og Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.

Loftslagsbreytingar skapa fjárfestum fjölda áskorana og álitaefna

„Meðalhlýnun um eina gráðu á jörðinni jafngildir tveimur til þremur gráðum á Norðurskautinu, sem er mikið og ég er ekki viss um að allir átti sig á hvað þýðir. Bráðnun íss á Norðurskautinu á einum degi jafngildir vatnsforðanum sem notaður er í New York-borg á heilu ári! Það gefur hugmynd um umfang vandans,“ sagði Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð, í erindi sínu á málþingi Landssamtaka lífeyrissjóða um ábyrgar fjárfestingar á Grandhóteli 5. nóvember.

Festa er með aðsetur í Háskólanum í Reykjavík og hefur að markmiði að „tengja saman ólíka aðila, fyrirtæki, sveitarfélög og einstaklinga sem vilja vera leiðandi á sviði samfélagsábyrgðar og sjálfbærni“.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru stærsta aðgerðaáætlun sögunnar, mótuð af milljónum manna og tekur til heimsins alls - Íslands líka.

„Að okkur snúa risavaxnar umhverfisbreytingar sem enginn veit hvert leiða. Heimsmarkmiðunum skal náð árið 2030 og okkur miðar ekki sérlega vel á þeirri leið. Það hjálpar ekki til á heimsvísu að stjórnmálamenn í lýðræðisríkjum hugsa í kjörtímabilum, enda dugar ekki að hafa sjóndeildarhringinn aldrei fjær sér en sem svarar til fjögurra ára, í mesta lagi. Þeim mun meira verður því hlutverk og ábyrgð fjármálageirans og viðskiptageirans.“ 

Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgðHrund var á Grænlandi í sumar á vegum Alþjóðaefnahagsráðsins vegna loftlagsmála og sjálfbærrar þróunar. Með í för voru forystumenn úr fjarlægum hornum heimsins, þar á meðal ráðherra frá Bangladesh.

„Sá maður vissi meira um áhrif loftlagsbreytinga á Norðurskautssvæðið en flestir Íslendingar. Það kann að þykja einkennilegt en þegar að er gáð kemur í ljós að ef sjávarborð hækkar um hálfan til einn metra hrekjast 20 milljónir manna í Bangladesh á flótta. Svo risavaxið er nú málið fyrir stjórnvöld og íbúa þess ríkis.

Íshettan á Norðurskauti gegnir verndarhlutverki og heldur hlýnun frá okkur. Nú bráðnar ísinn hins vegar hraðar á tíu árum en á heilli öld áður. Við þurfum því á langtímahugsun að halda í baráttunni, tíminn leyfir ekki annað.

Við horfum fram á aukna misskiptingu með fjórðu iðnbyltingunni, mikinn óróleika og fólksflótta frá svæðum sem harðast verða úti þegar afleiðingar loftlagsbreytinga segja frekar til sín.

Til lengri tíma er mannfjölgun á jörðinni líka áhyggjuefni. Hér búa nú 7,5 milljarðar manna en Sameinuðu þjóðirnar spá því að jarðarbúar verði allt að 25 milljarðar um næstu aldamót.“

Hrund sagði að Alþjóðaefnahagsráðið og þrjú stærstu endurskoðunarfyrirtæki heims væru að þróa nýja kvarða í anda nútíma hugsunar til að mæla hagvöxt, velsæld hagkerfa og fyrirtækja.

Þannig þyrfti til dæmis að endurskoða hvernig þjóðarframleiðsla sé metin og hvað teljist vera „heilbrigt hagkerfi“.

Síðast en ekki síst vill Alþjóðaefnahagsráðið innleiða UFS-hugmyndafræðina í öllum fyrirtækjum (Umhverfi-Félagslegir þættir-Stjórnarhættir), á ensku ESG: Environment-Social-Governance.

Kerfisáhætta og fjárfestingar

Dr. Lára Jóhannsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði í Háskóla Íslands„Í akademískri umræðu um fjárfestingar er nú horft mun meira en áður á víðtækt samhengi hluta, sjálfa stóru myndina, en ekki aðeins á einstök fyrirtæki og eignasöfn viðkomandi í þröngum og hefðbundnum skilningi,“ sagði dr. Lára Jóhannsdóttir, prófessor í Háskóla Íslands, á málþinginu í erindi um kerfislægar fjárfestingar og fjárfestingar sem hún kallaði „Ekki er allt gull sem glóir“. 

Hún fjallaði meðal annars um kerfisáhættu gagnvart norðurslóðum vegna vinnslu eða flutnings olíu og vísaði í niðurstöður eigin rannsókna um hlutverk vátryggingafélaga í efnahagslegri þróun á Norðurskautssvæðinu. 

Kerfisáhætta í þessum skilningi er mun umfangsmeiri en svo að eingöngu varði efnahagsleg áhrif á fyrirtækin sem valda skaða eða verða fyrir tjóni heldur taki áhættan samtímis til umhverfis, samfélags og menningar á viðkomandi stað. Þessir þættir séu nátengdir, til dæmis hjá frumbyggjum sem lifi á því sem land og sjór gefur. 

Alvarlegt olíuslys getur þannig haft víðtæk félagsleg og menningarleg áhrif, í versta falli kallað á brottflutning íbúa af hamfarasvæðum. Áhrif á lífríkið eru augljós en einnig myndi olíuslys geta haft alvarleg efnahagsáhrif á aðrar, óskyldar atvinnugreinar á svæðinu, til að mynda á ferðaþjónustu og fiskveiðar. Þá tekur kerfisáhættan til áhrifa á „sökudólgana“, það er að segja fyrirtækja sem valda skaða og þeirra sem með þeim eða fyrir þau starfa. Þar kemur til dæmis við sögu kostnaður við umhverfishreinsun olíumengaðra svæða, lögfræði- og málskostnaður og fleira í þeim dúr. 

Lára sagði að farið væri að ræða samhengi hlutanna á þessum nótum á vettvangi tryggingafélaga;  meta kerfislæga áhættu verkefna og samspil efnahagslegra afleiðinga og umhverfisþátta frekar en áhrif á einstaka fyrirtæki og starfsemi þeirra. 

Hún nefndi líka umfang og afleiðingar stærstu olíuslysa sögunnar en einnig tvö nýleg dæmi um „næstum-slys“, jafnvel í eigin ranni Íslendinga. 

Í marsmánuði 2019 munaði minnstu að farþegaskipið Viking Sky ræki í ofsaveðri upp í fjöru á vesturströnd Noregs vegna vélabilunar. Þegar hætta leið hjá hafði einungis tekist að bjarga um 300 af alls 900 á heilum sólarhring og það í landi þar sem innviðir og björgunartæki eru með því besta sem þekkist í veröldinni. 

Nær okkur í tíma og rúmi var hins vegar atvik í Hvalfirði 21. október 2019 þegar 42 þúsund brúttótonna olíuskip losnaði frá bryggju og rak frá henni með olíuslöngu tengda í land. „Það fá allir hland fyrir hjartað þegar svona gerist,“ hafði fréttavefurinn mbl.is eftir hafnsögumanni Faxaflóahafna. Frekar var ekki fjallað um málið á mbl.is og enginn annar fjölmiðill greindi frá því svo vitað sé. 

Fá orð þarf samt að hafa um hvað þarna hefði getað gerst með tilheyrandi afleiðingum.