Ísland á heimslista lífeyriskerfa

Stefán Halldórsson hjá LL
Stefán Halldórsson hjá LL

Leit að ref fréttnæmari en toppsæti Íslands á heimslista lífeyriskerfa

Mynd af Sigríði Lillý

„Ég mæli með því að efnt verði hér til ráðstefnu á ENSKU um Ísland og Mercer-vísitöluna til að ná athygli fjölmiðla og annarra svo tíðindin berist almenningi!“ sagði Sigríður Lilly Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, á kynningarfundi sem Landssamtök lífeyrissjóða efndu til vegna þeirra fregna sem bárust um miðjan október að Ísland hefði náð efsta sæti í alþjóðlegu samanburði bandaríska ráðgjafarfyrirtækisins Mercer og samtakanna CFA Institute á lífeyriskerfum 43 ríkja í öllum heimsálfum.

Hliðstæður samanburðarlisti hefur verið birtur tólf sinnum áður en nú var Ísland með í fyrsta sinn og íslenska kerfið er efst á blaði og hið eina sem nær einkunninni A ásamt lífeyriskerfum Hollands og Danmerkur.

„Fjórða valdinu“ á Íslandi, fjölmiðlakerfinu, þótti þetta litlum tíðindum sæta en þeim mun meira fjölmiðlarými fengu til að mynda frásagnir af árangurslausri leit yfirvalda dýraheilbrigðis að villtum ref sem talið var að ungur maður héldi sem húsdýri í blóra við lög.

Nokkrir málshefjendur á kynningarfundinum viku að sérkennilegu fréttamati í ávörpum sínum og göntuðust nokkuð með það. Þannig var rifjað upp að íslenska handboltalandsliðið hefði fengið heiðursrúnt í tveggja hæða strætisvagni um miðborg Reykjavíkur með silfurmedalíur af Ólumpíuleikunum en „gullmedalía“  lífeyriskerfisins kæmi ekki einu sinni til álita sem umræðuefni í helstu fréttaþáttum ljósvakamiðla.

Niðurstaða Mercer í samræmi við aðrar samanburðarrannsóknir

Benedikt Jóhannesson tryggingastærðfræðingur stjórnaði umræðum á kynningarfundinum og sagði niðurstöðu Mercer auðvitað afar ánægjulega og „miklu stærri frétt en hún varð í fjölmiðlum“ Hann kvað áhugavert að í þessari „alþjóðakeppni lífeyrissjóða“ væri ekki aðeins fjallað um styrkleika kerfanna heldur einnig bent á veikleika þeirra og hvernig mætti ná enn betri árangri.

Stefán Halldórsson, ráðgjafi hjá Landssamtökum lífeyrissjóða, reifaði málið og fór yfir það á hverju samanburður Mercer byggðist, samanber fyrri frétt um málið hér á þessum vettvangi. Hann varpaði undir lokin fram þeirri spurningu hvort árangur Íslands í Mercer-samanburðinum kæmi á óvart og svaraði sjálfur á þann veg að svo væri í raun ekki. Stefán studdi þá ályktun með niðurstöðum í þremur öðrum samanburðarkönnunum þar sem íslenska lífeyriskerfið var ofarlega eða efst a blaði:

1.„Nægjanleikarannsóknir“ birtust 2014. Þar var leitast við að svara því hvernig réttindaávinnslu fólks á vinnumarkaði væri háttað og hvað þeir fengju út úr kerfinu sem komnir voru á lífeyri. Niðurstaðan var sú að réttindaávinnslan stæðist að stórum hluta kröfur sem lög kvæðu á um. Undantekningar skýrðust af fráveru á vinnumarkaði og áttu einkum við konur, þá sem komu seint inn á vinnumarkað vegna langskólananáms og fólk sem flust hafði til Íslands erlendis frá og hóf hér starfsferil án þess að eiga réttindi í lífeyriskerfinu.

2. Rannsókn OECD á tveggja ára fresti, (næsta birting niðurstaðna nú fyrir lok árs 2021). Könnuð er réttindaávinnsla fólks sem hefur starfsferil á vinnumarkaði 22 ára og safnar réttindum fram að opinberum lífeyristökualdri. Þetta er kannað í öllum aðildarríkjum OECD og borið saman. Ísland er þarna yfirleitt í fremstu röð.

3. „Vísitala ævikvölds“ á vegum erlends eignastýringartækis, Natixis. Ísland er þar í efsta sæti.

Gott kerfi má alltaf bæta

Nokkrum gestum var boðið á kynningarfundinum um Mercer-vísitöluna sérstaklega til að bregðast við fregninni um stöðu Íslands í þessum alþjóðlega samanburði í stuttum ávörpum.

Sigríður Lilly Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins:
Mikilvægt er og augljóst að auka þarf og bæta umfjöllun um lífeyrismál í samfélaginu. Þessi niðurstaða Mercer mælist ekki á ánægjuvog lífeyrisþeganna sjálfra. Ef marka má samfélagsumræður í aðdraganda alþingiskosninga má gera ráð fyrir miklum breytingum í lífeyrismálum í samræmi við loforð sem stjórnmálamenn gáfu kjósendum. Mikilvægt er að „mikil og þétt umræða“ sé undanfari verulegra breytinga á lífeyriskerfinu. Ég mæli með því að efnt verði til ráðstefnu á ENSKU á Íslandi til að ná athygli fjölmiðla og annarra um Mercer-vísitöluna og kosti þess kerfis sem við búum við!

mynd af Hilmari Harðarsyni

Hilmar Harðarson formaður Samiðnar og fulltrúi Alþýðusambands Íslands:
­Framsýni verkalýðsforystu og atvinnurekenda fyrir áratugum er að þakka að þessu kerfi var komið á sem reynist sterkt. Við segjum samt ekki að lífeyriskerfið sé fullkomið því gott fyrirkomulag má alltaf bæta. Við eigum fyrir eigin lífeyri, greiðum af honum skatta og tökum þátt í samfélaginu með lífeyrinum okkar.
Þannig höfum við byggt upp kerfi sem við eigum sjálf og borgum okkur sjálfum úr lífeyrissjóðunum.

Mynd af Friðriki Jónssyni

Friðrik Jónsson formaður Bandalags háskólamanna:
Mercer-skýrslan er jákvætt og gott innlegg í umræðuna vegna þess að þar er bent utan frá á það sem vel er gert og líka á það sem betur mætti fara. Það hlýtur að vera sameiginlegt verkefni okkar að taka á „kynjavanda kerfisins“ enda í samræmi við pólitíska umræðu og áherslur í samfélaginu.
Við getum líka gert mun betur í að vekja ungt fólk til vitundar um mikilvægi eigin lífeyris. Þá verður að vera gott samstarf við sjóðfélaga þegar til dæmis talað er um breytingar í lífeyriskerfinu vegna lengri lífaldurs.

Gunnar Björnsson sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu:

Ég vil nota tækifærið og nefna atriði sem EKKI eru nefnd í Mercer-skýrslunni en þyrfti að fjalla um. Til dæmis verðum við að ná sátt um hver eigi að vera tryggingavernd okkar að lágmarki. Í lögum er kveðið á um að miða skuli við 56% af meðalævitekjum en þannig er það ekki í raun í kerfinu öllu. Samspil kerfa almannatrygginga og lífeyrissjóða er annað atriði sem horfa þarf til. Þriðja atriðið er samspil séreignarsparnaðar og samtryggingar. Í skýrslunni er heldur ekki fjallað um smæð íslenska fjárfestingamarkaðarins og hve umsvifamiklir lífeyrissjóðir eru þar orðnir. Við þurfum að komast að niðurstöðu um það hve miklu af eignum sjóðanna hlutfallslega er varið í fjárfestingar erlendis annars vegar og hér heima hins vegar. Fleiri spurningum þarf að svara.
Eiga lífeyrissjóðir eingöngu að fjárfesta í skráðum fyrirtækjum á verðbréfamarkaði?

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins:

Heimskur maður hreykir sér hátt yfir svona niðurstöðum hjá Mercer en hygginn maður spyr sig hvernig hægt sé að tryggja að í næstu mælingu höfum við styrkt stöðu okkar enn frekar! Auðvitað er ánægjulegt að sjá þessa niðurstöðu og líklega kemur hún flestum landsmönnum á óvart í ljósi umræðunnar um lífeyriskerfið og samspil þess við Tryggingastofnun. Við hjá Samtökum atvinnulífsins og þar áður hjá Vinnuveitendasambandi Íslands höfum sem hluti af baklandi lífeyriskerfisins tölum fyrir hægfara breytingum á lífeyriskerfinu á löngum tíma en ekki í hlykkjum og skrykkjum.
Sé horft til framtíðar þykir mér fyrir löngu kominn tími til að ræða aukinn sveigjanleika og frelsi til ráðstöfunar séreignarlífeyrissparnaðar. Sömuleiðis verður að horfa til breytinga á hlutföllum sem heimildir kveða á um fyrir erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða.

Gunnar Baldvinsson framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins:
Ánægjulegt er að fá staðfest hjá Mercer að lífeyriskerfið okkar er mjög gott. Niðurstöðurnar koma mér samt ekki sérstaklega á óvart fremur en ýmsum öðrum. Á árinu 2016 skrifaði ég blaðagrein undir fyrirsögninni Holtasóley eða túlípani og endaði hana á því að lýsa yfir að ef valið stæði um lífeyriskerfi Íslands eða Hollands myndi ég alltaf velja það íslenska. Hvers vegna? Ég horfði þá fyrst og fremst til nægjanleikans. Við erum með almannatryggingar sem tryggja öllum lágmarkslífeyri, öfluga lífeyrissjóði sem tryggja grunnlífeyri og í þriðja lagi viðbótarlífeyrissparnað.
Til framtíðar verðum við að verja kosti og sjálfbærni kerfisins og tryggja að lífeyrissjóðir standi við að gefin loforð um að greiða sjóðfélögum lífeyri til æviloka.

 
Viltu fylgjast með
og fá fréttabréfið okkar?
Netfangið þitt