Fjölmenn og áhugaverð ráðstefna um innviðafjárfestingar

Fjárfest í þágu þjóðar 

Enginn skortur er á nauðsynlegum og stórum nýfjárfestingar- og viðhaldsverkefnum á mörgum sviðum í íslensku samfélagi, svo mikið er víst. Það vantar hins vegar að leggja línur um forgangsröðun, fjármögnun og hvernig standa skuli að verkefnunum. Ófá eru því spurningamerkin, álitaefnin og sjónarmiðin.

Allt þetta var rætt í þaula frá ýmsum hliðum á ráðstefnu Landssamtaka lífeyrissjóða og innviðaráðuneytisins á Grandhóteli í Reykjavík fimmtudaginn 2. febrúar. Samkoman bar yfirskriftina Fjárfest í þágu þjóðar – möguleikar á samvinnuverkefnum hins opinbera og lífeyrissjóða við uppbyggingu innviða.

Ekki skorti áhugann því fundarsalurinn var þéttskipaður frá því kl. 8 að morgni til 16:00. Heill dagur var með öðrum orðum undirlagður og dagskrárefnið samt langt í frá útrætt. Reyndar væri nær að tala um að ráðstefnan væri upphaf að markvissari umræðu og (vonandi) stórum ákvörðunum í framhaldinu.

Samvinnuverkefni og hugmyndafræði PPP

Samvinnuverkefni í þeim skilningi sem hér er um ræðir er aðferð til fjármögnunar og samninga um tiltekna samfélagsinnviði, á enskri tungu kallast þetta Public Private Partnership, skammstafað PPP.

Hugmyndafræðin er í grófum dráttum sú að einkafyrirtæki fjármagni innviðina, taki áhættu af rekstrinum og fái greitt með tekjum af notendagjöldum, greiðslu skattfjár eða hvoru tveggja. Hvalfjarðargöng eru bæði þekkt og vel heppnað dæmi um samvinnuverkefni af þessu tagi. Einkafélagið Spölur ehf. samdi við stjórnvöld um að gera göng undir Hvalfjörð, rak síðan mannvirkið í tvo áratugi, innheimti veggjald af notendum og skilaði ríkinu göngunum skuldlausum.

Samgöngur og samgöngumannvirki bar oft á góma á ráðstefnunni. Sundabraut var þannig nefnd oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og skyldi nú engan undra. Innviðaráðherrann sagði að ef ríkið ætlaði að fjármagna þá framkvæmd á venjulegan hátt myndu fjárveitingaheimildir til vegagerðar einfaldlega tæmast og ekkert væri eftir til annarra verkefna í vegakerfinu!

Innviðafjárfestingar í ýmsum geirum 

Innviðafjárfestingar koma hins vegar við sögu á mun fleiri sviðum en samgöngum. Íslenskir lífeyrissjóðir hafa til að mynda fjárfest í jarðvarmaorkuverum og í fjarskiptaverkefnum.

Íslenskir lífeyrissjóðir lýstu líka yfir á sínum tíma að þeir væru reiðubúnir að fjármagna nýjan Landspítala en af því varð ekki. Einn lífeyrissjóður lýsti vilja til að fjármagna byggingu nýs Tækniskóla en af því varð heldur ekki. Stjórnvöld þurfa að leggja skýrar línur til að slík verkefni komist til framkvæmda.

Samvinnuverkefni gætu til að mynda verið á sviðum orkubeislunar, orkuflutnings eða veitna. Fráveituverkefni sveitarfélaga bíða mörg og dýr á sama tíma og afkoma sveitarfélaganna hefur versnað.

Ýmsir þættir fjarskipta geta verið samvinnuverkefni og félagslegir innviðir á borð við hjúkrunarheimili, heilsugæslustöðvar eða íþróttaleikvelli og knatthús.

Frummælendur komu úr mörgum áttum hérlendis og erlendis. Innviðaráðherrann Sigurður Ingi Jóhannsson ávarpaði fundarmenn í upphafi og sat síðan ráðstefnuna til enda. Fleiri ráðuneytismenn voru á mælendaskrá, fulltrúar lífeyrissjóða, verktaka, sveitarfélaga og íslenskra og erlendra ráðgjafar- og fjármögnunarfyrirtækja. Meðal frummælenda var líka fyrrverandi stjórnarformaður Spalar, reynslunni ríkari af sjálfu umfjöllunarefni dagsins í framkvæmd.

Dagskrá og kynningar sem voru fluttar:

Dagskrá dagsins 

Upptaka af ráðstefnunni

Myndir frá ráðstefnunni