Reynslubolti með 36 ár að baki lítur yfir sviðið

Reynslubolti með 36 ár að baki lítur yfir sviðið

„Ég get ekki séð að lífeyrissjóðakerfi landsmanna verði bitbein í kjarasamningum og því síður að draga eigi lífeyrissjóði beinlínis inn í baráttu um kaup og kjör. Heildarsamtök atvinnurekenda og launafólks bera sameiginlega ábyrgð á lífeyrissjóðakerfinu. Á sameiginlegum vettvangi þeirra er eðlilegt að fjalla um hve há iðgjöld skuli vera, hvernig iðgjöldin skiptast, um séreignarsparnað og annað eftir því,“ segir Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR.

„Nú heyrist að verkalýðshreyfingin eigi beinlínis að krefja fulltrúa sína í stjórnum lífeyrissjóða um að beita sér gegn tilteknum fjárfestingum til stuðnings kröfum í kjarabaráttu. Þar færu menn inn á hættulega braut, á sama hátt og ef atvinnurekendur legðu að sínum fulltrúum að beina fjármagni lífeyrissjóða í ákveðnar áttir. Ég hef enga trú á að stjórnarmenn lífeyrissjóða láti ábyrgðarlaust tal hafa áhrif á störf sín.

Annars gengur lífið bara sinn vanagang hjá LSR og við erum upptekin alla daga við það sem okkur er ætlað að sinna í þágu sjóðfélaganna.“

3-4 heimsóknir sjóðfélaga á ævinni

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins – LSR er stærsti lífeyrissjóður landsmanna og nokkrar lykiltölur um umsvif hans segja sína sögu í þeim efnum. 

    • Um 24.000 manns fá lífeyri greiddan frá LSR í hverjum mánuði.
    • LSR hefur greitt 4,7 milljarða króna í lífeyri á mánuði það sem af er ári 2018.
    • Eignir LSR til ávöxtunar nema um 900 milljörðum króna.
    • LSR hefur lánað sjóðfélögum sínum um 3 milljarða króna að jafnaði á mánuði á árinu 2018.

 „Sjóðfélagslánum fjölgar stórlega hjá okkur eins og öðrum lífeyrissjóðum. Við lánuðum alls 30 milljarða króna fyrstu tíu mánuði ársins og það er nettótalan, ný lán að frádregnum uppgreiðsluhlutanum við endurfjármögnun eldri lána.

Við viljum stuðla að jafnvægi í eignasafni sjóðsins og hafa alltaf hluta safnsins í verðtryggðum bréfum á sama tíma og skuldbindingar sjóðsins eru verðtryggðar. Sjóðfélagalán bera vissulega ekki háa vexti en þau falla vel að markmiðum sjóðsins, enda ekki mikið framboð verðtryggðra skuldabréfa á markaðinum. Á sama tíma eru sjóðfélagalánin mikilvæg þjónusta við sjóðfélaga okkar.

Mesta breytingin er sú að áður fjármögnuðum við húsnæðiskaup sjóðfélaga okkar óbeint í gegnum Íbúðalánasjóð en núna lánum við þeim í ríkara mæli beint. Sjóðfélagar koma samt sjaldan hingað þegar að er gáð. Þeir eiga örugglega erindi við LSR til að fá lán og svo þegar þeir fara á eftirlaun!

Fæstir koma hingað á skrifstofuna oftar en þrisvar til fjórum sinnum á starfsferlinum en eru vissulega alltaf velkomnir.

Viðhorfskannanir sýna að mikil ánægja ríkir meðal sjóðfélaga með þjónustu og samskipti við sjóðinn. Það þykir okkur vænt um að sjá og heyra.“

Samræming lífeyriskerfa í áföngum

Lífeyrissjóðakerfi opinberra starfsmanna annars vegar og fólks á almennum vinnumarkaði hins vegar voru að mörgu leyti afar ólík en það hefur breyst og er að breytast. Nú er svo komið, frá og með maímánuði 2017, að nýir sjóðfélagar í LSR ganga inn í aldurstengt lífeyriskerfi sem er í samræmi við almenna löggjöf um lífeyrissjóði, með 67 ár sem viðmiðunaraldur eftirlauna.

„Það gat ekki gengið til lengdar að lífeyriskerfi hjá opinberum starfsmönnum væri byggt upp á jafnri réttindaávinnslu meðan lífeyriskerfi starfsmanna á almennum vinnumarkaði væri byggt upp á aldurstengingu. Spurningin var aldrei hvort þetta yrði samræmt á öllum vinnumarkaðinum, heldur hvenær það gerðist, hvernig og hve langan tíma það tæki.

Frá og með vorinu 2017 fóru nýir sjóðfélagar sem sagt inn í nýtt aldurstengt fyrirkomulag og ríkið greiddi jafnframt inn í kerfið til að réttindi þeirra sem fyrir voru myndu ekki skerðast.

Það tekur heila kynslóð að samræma lífeyrisréttindin á vinnumarkaðinum en góðir hlutir gerast gjarnan á löngum tima. Samræmingin er alveg nauðsynleg því vinnumarkaðurinn er orðinn galopinn og fólk flytur sig milli starfa á opinberum og almennum markaði mun tíðar en áður þekktist.“

Tilgreinda séreign líka fyrir LSR-fólk?

„Sjálfur er ég mikill samtryggingarmaður en mér finnst samt eðlilegt að hyggja að því að sjóðfélagar okkar geti sett 3,5% af 15,5% heildariðgjaldi í séreignarsparnað ef þeir kjósa svo, líkt og gerist á almenna markaðinum. Samið var um það á almennum markaði að sjóðfélagar gætu valið um að setja 3,5% viðbótarframlag atvinnurekenda í samtryggingu lífeyrissjóðanna sinna eða í tilgreinda séreign.

 Opinberir starfsmenn hafa ekki þetta val en eðlilegt er að þeir sem eru nýir sjóðfélagar okkar geti ráðstafað viðbótarframlaginu á sama hátt og sjóðfélagar á almennum markaði. Þá þyrfti jafnframt að styrkja lagaumhverfið um þetta fyrirkomulag.

Fyrir þá sem fyrir voru í opinbera lífeyriskerfinu í maí 2017 er ekki hagstætt að setja viðbótarframlagið í tilgreinda séreign því þá myndu viðkomandi glata ákveðnum réttindum sem þeim voru tryggð með lögum 2017.“

Samferða í lífeyriskerfinu í 36 ár

Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR, og Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis-lífeyrissjóðs, hafa að baki lengstan samfelldan starfsferil allra sem skipa forystusveit lífeyrissjóðakerfisins. Þeir voru samferða í lagadeild Háskóla Íslands og útskrifuðust þaðan vorið 1982. Báðir voru líka á kafi í íþróttum. Árni keppti í fótbolta og körfubolta með KR en Haukur var knattspyrnuþjálfari á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu, Keflvíkingur að uppruna og því sjálfgefinn stuðningsmaður ÍBK.

Árni fór að vinna fyrir Lífeyrissjóð sjómanna strax sumarið 1982, nýbakaður lögfræðingurinn. Sá sjóður var rekinn undir hatti Tryggingastofnunar ríkisins og þar voru fleiri lífeyrissjóðir, þar á meðal sjóður ríkisstarfsmanna. Árni benti Hauki á að sækja um starf sem losnaði og þar með urðu þeir vinnufélagar, starfsmenn lífeyrissjóða sem síðar urðu sjálfstæðir utan Tryggingastofnunar.

Umtalið verra en kerfið á skilið

Enn eru félagarnir að og hafa kynnst ýmsu og reynt ýmislegt í lífeyrismálum á 36 árum. Haukur nefnir sérstaklega að samfélagsumræðan sé á köflum afar harkaleg og óvægin í seinni tíð.

 „Ég segði ekki satt með því að fullyrða að skrápurinn væri orðinn svo þykkur að stóryrðaflaumurinn hefði engin áhrif. Efnahagshrunið færði út allar girðingar og viðmið sem fólk flest tamdi sér áður í opinberri umræðu og þótti siðlegt. Allt orðfæri er orðið miklu harðara og grimmara. Umræða um lífeyriskerfið, svo mikilvægt sem það nú er, byggist oft á vanþekkingu. Málefnaleg gagnrýni er nauðsynleg en stundum finnst mér umfjöllunin vera á villigötum. Verst er þegar áhrifamenn með umfjöllun sinni sjá sér hag í að brjóta niður kerfið sjálfum sér til framdráttar!

Lífeyrissjóðir landsmanna urðu fyrir þungu höggi eins og fjöldinn allur af lífeyrissjóðum erlendis sem og fjármálakerfin yfirleitt, heima og heiman. Lífeyrissjóðirnir voru lykilafl í endurreisn efnahagskerfisins á Íslandi og án sterkrar stöðu þeirra væri staðan hér á landi verri en hún er. Sjóðirnir hafa náð sér vel á strik og eru helsti styrkur þjóðarbúsins.

Við fáum að heyra það stundum að lífeyrissjóðir séu alltof fyrirferðarmiklir í fyrirtækjarekstri á Íslandi. Rétt er það að LSR á að jafnaði um það bil 10% í hverju einasta skráðu félagi á Íslandi og lífeyrissjóðirnir í heild eiga um helming í öllum skráðum félögum landsins. Sú staðreynd á sér sögulegar skýringar en þetta mun breytast og er að breytast. Eftir að gjaldeyrishöftum var aflétt er áherslan á að auka hlutfallslega eignir erlendis en eignarhald í íslenskum félögum minnkar þá að sama skapi.

Við fáum líka að heyra að rekstrarkostnaður lífeyrissjóða sé alltof mikill og vissulega kallar umsvifamikil starfsemi á mannahald, stór og flókin tölvukerfi og annað tilheyrandi. Sameining lífeyrissjóða á undanförnum árum og áratugum hefur stuðlað að hagræðingu en vissulega má gera betur í þeim efnum. Rekstrarkostnaður íslenskra lífeyrissjóða er hins vegar í lægri kantinum í OECD-samanburði og sömuleiðis í samanburði við til dæmis tryggingarfélög, banka og aðra sambærilega starfsemi.

Lífeyrissjóðirnir mynda umfangsmikið, gott og öflugt tryggingakerfi sem gagnast þeirra fólki vel og horft er til sem fyrirmyndar víðs vegar að úr veröldinni.

Í því ljósi finnst mér opinber umræða um lífeyrisjóðakerfið oft vera hvorki sanngjörn né í þeim anda sem það á skilið.“