Þrír komma fimm er talan!

Gunnar Baldvinsson á blaðamannafundi forystu Landssamtaka lífeyrissjóða í febrúar 2015.
Gunnar Baldvinsson á blaðamannafundi forystu Landssamtaka lífeyrissjóða í febrúar 2015.

Talan 3,5 er vissulega hvorki heilög né töfrum hlaðin en hún kemur mjög við sögu í tengslum við lífeyrissjóði og eftirlaunasparnað á Íslandi:

  • Miðað er við 3,5% raunvexti þegar lífeyrissjóðir reikna út réttindi sjóðfélaga.
  • 3,5% ávöxtunarviðmið er notað til að reikna út verðmæti eigna og skuldbindinga lífeyrissjóða svo unnt sé að meta hvort þeir standi við lífeyrisskuldbindingar sínar.

Nú bætist eftirfarandi við. Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins og formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, velti á dögunum fyrir sér svari við algengri spurningu: Hve mikinn viðbótarsparnað þarf að eiga við starfslok til að eftirlaun teljist „viðunandi“? Hann gaf sér að 70% af heildarlaunum teldust viðunandi eftirlaun og fékk þá niðurstöðu, sem svar við spurningunni, að viðbótarsparnaður þyrfti þá að svara til þriggja og hálfra árslauna. Talan ásækna, 3,5, birtist sem sagt þarna líka!

 

Viðmiðun, ekki algild sannindi!

„Mér þótti svolítið skemmtilegt að reikna mig þarna niður á kunnuglega tölu. Auðvitað eru engin algild sannindi til um hve mikill viðbótarsparnaður teljist „viðunandi“ eða „æskilegur“. Aðstæður eru svo mismunandi. Sumir komast af með minna en aðrir vilja hafa meira úr að spila á eftirlaunaskeiðinu. Aðalatriðið er að fólk byrji strax í upphafi starfsferils síns að leggja aukalega fyrir til efri áranna með því að stofna til séreignarsparnaðar.

Menn geta haft mismunandi skoðanir á því hvenær eftirlaun séu „nægjanleg“ en hver og einn á að setja sér markmið eftir því sem honum finnst henta og duga. Nærtækast er að horfa til núverandi heildarlauna og meta eftirlaunaþörfina út frá þeim. Treystir fólk sér til að lifa bærilega fyrir umtalsvert minna ráðstöfunarfé en svarar til launatekna nú? Þá þarf líka að horfa til útgjalda í nútíð og framtíð.“

Gunnar nefnir sem dæmi varðandi útgjaldahliðina á efri árum að eftirlaunamaður

  • greiðir hvorki í lífeyrissjóð né í séreignarsparnað.
  • þarf ekki að verja sig tekjumissi með örorkutryggingu.
  • greiðir ekki af lánum og hefur ekki þörf á líftryggingu vegna áhvílandi skulda – að því gefnu að hann sé skuldlaus í lok starfsferils síns.
  • getur í mörgum tilvikum lækkað rekstarkostnað heimilisins með því að minnka við sig húsnæði og ætla má að fækkað hafi í heimili þegar líður á ævina.

 Á hinn bóginn verður að gera ráð fyrir að kostnaður vegna frístunda, læknisþjónustu og lyfja aukist þegar líður á ævina.

 

Því fyrr sparað, því betra

„Algengt er að miða eftirlaun við ákveðið hlutfall núverandi launa fyrir vinnu, til dæmis 60-80% af launum. Eftirlaun verða að minnsta kosti að duga til lágmarksframfærslu. Sú upphæð telst vera um 180 þúsund krónur fyrir einstakling og 325 þúsund krónur fyrir hjón samkvæmt framfærsluviðmiðum velferðarráðuneytisins.

Sá sem gerir kröfu um að eftirlaun sín séu 70% af launum í fimmtán ár eftir starfslok þarf að eiga séreignarsparnað og lífeyrisréttindi sem samanlagt svarar til 8,2 árslauna. Þar af yrði séreignarsparnaður að nema 3,5 árslaunum,“ segir Gunnar Baldvinsson.

„Það gefur auga leið að fáum eða engum tekst að leggja til hliðar á skömmum tíma upphæð sem svarar til margfaldra árslauna. Rétta og viðráðanlega leiðin er hins vegar sú að byrja strax í upphafi starfsferils síns að leggja fyrir í séreignarsparnað. Sá sem nýtir sér heimild til viðbótarlífeyrissparnaðar alla starfsævina, það er að segja leggur fyrir 2-4% af launum og fær 2% mótframlag launagreiðanda, fer langt með að ná því markmiði að safna þremur og hálfum árslaunum áður en hann fer á eftirlaun. Því fyrr sem byrjað er að spara, því betra.“

 

Eftirlaun

eru að jafnaði samanlagðir fjórir tekjuliðir fólks á efri árum:

 

  1. Eftirlaun almannatrygginga.
  2. Eftirlaun lífeyrissjóða.
  3. Viðbótarlífeyrissparnaður (séreignarsparnaður).
  4. Annar sparnaður eða aðrar eignir.

Almannatryggingar tryggja að allir hafi lágmarkslífeyri. Greiddur eru tekjutengdur lífeyrir sem fellur niður þegar greiðslur úr lífeyrissjóðum og aðrar tekjur fara umfram ákveðin mörk.

Lög mæla fyrir um skylduaðild Íslendinga að lífeyrissjóðum og úr þeim fá sjóðfélagar greidd eftirlaun til æviloka. Lífeyrissjóðir hafa að markmiði að sjóðfélagar, sem greitt hafa 12% af launum í 40 ár, fái lífeyri sem svarar til 56% af meðallaunum frá 67 ára aldri. Þetta hlutfall er í reynd yfirleitt lægra vegna þess að laun hækka jafnan þegar líður á starfsævina og meðallaun eru lægri hlutfallslega en lokalaunin. Fólk þarf því að leggja fyrir og byggja upp viðbótarsparnað vilji það auka við eftirlaunin sín.


Birtist í Vefflugunni í október 2014