Úr grunnbúðum Everest í forystusveit lífeyrissjóða

Úr grunnbúðum Everest í forystusveit lífeyrissjóða

Úr grunnbúðum Everest í forystusveit lífeyrissjóða

„Lífeyrissjóðakerfið okkar gegnir hlutverki sínu vel. Ég er afar hlynnt því og vil sjá það styrkjast og eflast en ætla ekki að birta hér neinar meiningar eða yfirlýsingar um kerfið, enda lít ég á mig sem nýliða í forystu og tek mér tíma til að kynna mér málið og læra. Ætli ég sé ekki stödd í „neðstu grunnbúðum“ að þessu leyti en frekari þekking og reynsla í lífeyriskerfinu fleytir mér vonandi ofar!“

Halldóra Káradóttir var skipuð í stjórn Brúar, lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga, í kjölfar síðustu sveitarstjórnakosninga og um svipað leyti var hún kjörin í stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða. Hún hefur starfað á fjármálasviði Reykjavíkurborgar frá árinu 2006 sem skrifstofustjóri en um leið deildarstjóri áætlana- og greiningardeildar og staðgengill fjármálastjóra. Í byrjun júní 2019 tók hún við nýju starfi sviðsstjóra fjármála- og áhættugreiningarsviðs Reykjavíkurborgar. 

„Ég þekki auðvitað vel til lífeyrissjóðakerfisins frá hlið Reykjavíkurborgar sem launagreiðanda og þar með iðgjaldagreiðanda til Brúar lífeyrissjóðs vegna starfsfólks síns. Sjálf hef ég ekki haft önnur afskipti af kerfinu en að greiða iðgjöld til þess líkt og hver annar. 

Það tekur tíma að setja sig inn í málin. Ég tók strax sæti í áhættunefnd Brúar sem er áhugavert. Mat á áhættuþáttum og eftirlit með þeim er afar mikilvægt í starfsemi lífeyrissjóða. Svo vill reyndar til að áhættustýringarmál eru líka ofarlega á baugi á mínu sviði hjá Reykjavíkurborg og til stendur að setja þar á laggir sérstaka skrifstofu áhættustýringar. 

Við höfum að sjálfsögðu haft sérfræðinga og metið um margra ára skeið fjárhagsáhættu borgarinnar í ljósi efnahagsaðstæðna í þjóðfélaginu á hverjum tíma, tilheyrandi varnir og möguleg viðbrögð. Nú ætlum við að fara í heildstæða áhættugreiningu, greina starfsemi sviðanna og rekstur borgarinnar í víðara samhengi en áður og áhættu út frá því.“

Frá Samskipum til borgarinnar

Halldóra er viðskiptafræðingur með MSc gráðu í fjármálum fyrirtækja. Hún starfaði áður hjá Samskipum og var deildarstjóri vöruhúsa fyrirtækisins í sjö ár áður en hún flutti sig til fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar. 

Nýja fjármála- og áhættustýringarsviðið sem hún veitir forystu er umfangsmikið og þræðir þess liggja víða um kerfi Reykjavíkurborgar. Það annast allt bókhald borgarinnar, launavinnslu, formlegt ferli útboða og innkaupa, fjárstýringu, uppgjör og áætlanagerð. Starfsmenn eru hátt í hundrað talsins. 

Gekk upp í grunnbúðir Everest í Nepal 

Engin tilviljun er að Halldóra hafi gripið til samlíkingar við „grunnbúðir“ í upphafi samtalsins, heimsþekkts samheitis áfangastaða þeirra sem klífa hlíðar Everestfjalls áleiðis á hæsta tind veraldar. Hún hefur mikinn áhuga á útivist og hreyfingu og gekk ásamt eiginmanninum, Guðbergi Davíð Davíðssyni kvikmyndagerðarmanni, og tíu öðrum upp í meira en tvöfalda hæð Hvannadalshnjúks yfir sjó, ofan við grunnbúðir Everest í Khumba héraði í Nepal, í október 2014. 

„Við gengum inn Khumba dalinn og fórum upp í nær 5.600 metra hæð á leið á fjallið Kala Patthar. Það reynir virkilega á að vera í svo þunnu lofti. Gangan sjálf er ekki svo erfið, galdurinn er að fara nógu rólega upp brekkurnar.

 Þetta gekk rosalega vel og var mikil upplifun sem gleymist ekki.“