20 ára afmæli viðbótarlífeyrissparnaðar

Snædís Ögn Flosadóttir, framkvæmdastjóri LSBÍ og EFÍA20 ára afmæli viðbótarlífeyrissparnaðar

20 ára afmæli

Fyrir 20 árum síðan var ég 16 ára. Líkt og aðrir unglingar á þeim tíma vann ég samhliða skóla og hafði í raun furðu góðar tekjur upp úr því krafsi. Á þessu sama ári, 1999, var viðbótarlífeyrissparnaði komið á í landinu. Ég bar ekki gæfu til að hefja slíkan sparnað fyrr en um fimm árum seinna. Rökin voru einföld. Ég hafði að mínu mati ekki efni á að missa neinar tekjur, var tortryggin gagnvart þessu nýja sparnaðarformi og síðast en ekki síst var alveg ferlega langt þangað til ég yrði 60 ára.

Mótframlag hvatti til sparnaðar

Í ár fagnar viðbótarlífeyrissparnaður 20 ára afmæli hér á landi. Það er í hinu stóra samhengi ekki mjög langur tími en þó hefur mikið vatn runnið til sjávar á þessum árum. Möguleikinn á viðbótarlífeyrissparnaði kom inn með lögum 129/1997 árið 1997. Samhliða beittu stjórnvöld sér fyrir ýmsum breytingum á skattalögum með það að markmiði að hvetja til aukins sparnaðar almennings með viðbótarlífeyrissparnaði. Það var svo árið 1999 sem breytingar á skattalögum tóku gildi sem heimiluðu launþegum að draga 2% frá skattstofni og ráðstafa í sparnað af þessu tagi. Á þeim tíma bauðst við þá ráðstöfun mótframlag frá ríkinu upp á 0,2%. Framlag launþega átti svo eftir að hækka í 4% og jafnframt hækkaði framlag ríkisins upp í 0,4%, seinna var samið um mótframlag atvinnurekenda upp á 2% í kjarasamningum og féll framlag ríkisins þá niður. Skemmst er frá því að segja að fólkið í landinu tók hratt við sér og strax á árinu 1999 höfðu um 20% vinnandi fólks hafið greiðslur í viðbótarlífeyrissparnað. Það hlutfall var svo komið hátt í 50% árið 2004 og hefur haldist nokkuð stöðugt síðan, farið hæst í 63% árið 2014 og er samkvæmt nýjustu tölum um 55%.

Opnað fyrir frekari útgreiðsluheimildir

Viðbótarlífeyrissparnaður hefur þróast á þessum tuttugu árum og þó svo að markmið sparnaðarins sé enn það að leggja fyrir til efri áranna þá hefur verið opnað á að nýta sparnaðarformið á fyrri hluta æviskeiðsins. Í kjölfar efnahagshrunsins árið 2009 var fyrirframgreiðsla viðbótarlífeyrissparnaðar heimiluð innan ákveðinna marka og stóð það úrræði allt til ársins 2016. Á árinu 2014 var svo ákveðið að heimila einstaklingum að nýta viðbótarlífeyrissparnað skattfrjálst til að greiða niður íbúðarlán. Sú heimild hefur verið framlengd í tvígang og samkvæmt núgildandi framlengingu stendur úrræðið til boða fram á mitt ár 2021. Þá stendur fyrstu íbúðarkaupendum til boða að nýta allt að 5 milljónir króna skattfrjálst yfir 10 ára tímabil til fasteignakaupa. Nú er til skoðunar að útvíkka þá heimild frekar svo hún nái einnig til þeirra hópa er ekki hafa átt fasteign í ákveðið langan tíma.

Mikilvægt að huga snemma að sparnaði  

Það má hins vegar ekki gleyma tilgangi þessa sparnaðar sem er að auka við tekjur fólks þegar eftirlaunaaldri er náð. Kostir þess að eiga viðbótarlífeyrissparnað þegar kemur að starfslokum eru margir. Má þar helst nefna sveigjanleikann og frelsið en sjóðfélagi getur hagað útgreiðslum eins og hann telur henta sér best. Þá erfist viðbótarlífeyrissparnaður að fullu til maka og barna við fráfall og komi til örorku á sjóðfélagi rétt á að fá viðbótarlífeyrissparnaðinn greiddan samkvæmt ákveðnum reglum. Í ljósi þeirra möguleika að nýta viðbótarlífeyrissparnað til annars en lífeyris á efri árum er þeim mun mikilvægara að huga snemma að sparnaði. Þær breytingar sem hafa verið gerðar á sparnaðarforminu undanfarin ár hafa á vissan hátt fært viðbótarlífeyrissparnað nær ungu fólki og þar með aukið áhuga þess og þekkingu. Ég er þess fullviss að ungt fólk í dag, ólíkt mér árið 1999, horfir ekki á viðbótarlífeyrissparnað sem skerðingu á tekjum eða eitthvað sem þarf að huga að þegar sextugsaldurinn nálgast. Enda viðbótarlífeyrissparnaður einn hagstæðasti sparnaður sem völ er á vegna mótframlags atvinnurekanda. Hlutfall þeirra sem nýta sér sparnaðinn er því þrátt fyrir allt furðu lágt og hvet ég þá sem ekki hafa nú þegar hugað að þessu sparnaðarformi til að kynna sér möguleikana sem í því felast.