Ábyrgar fjárfestingar lífeyrissjóða

Grein eftir Tómas N. Möller, yfirlögfræðing Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og nefndarmanns í Nefnd Landssamtaka lífeyrissjóða um fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóða, sem birtist í Morgunblaðinu 2. desember 2019. 

Ábyrgar fjárfestingar lífeyrissjóða

Langtímasjónarmið eru í auknum mæli höfð til hliðsjónar við mat á fjárfestingarkostum lífeyrissjóða og við stýringu eignasafna þeirra. Markmiðið er að bæta áhættustýringu, styðja við trausta langtímaávöxtun og að endurspegla gildi lífeyrissjóða sem fjárfesta. Þetta er vegferð sem tekur tíma þar sem byggja þarf upp reynslu og viðbótarþekkingu.

Árið 2017 tóku gildi breytingar á lögum um fjárfestingarstarfsemi lífeyrissjóða. Nú er meiri áhersla á áhættumat, samsetningu eignasafna og krafa er gerð um að lífeyrissjóðir setji sér siðferðileg viðmið í fjárfestingarstarfseminni. 

Góð rök eru fyrir því að kröfum um siðferðileg viðmið sé vel mætt með því að meta fjárfestingakosti og eignasöfn með hliðsjón af umhverfismálum, hagsmunum samfélagsins og stjórnarháttum. Á ensku er í þessu sambandi stundum vísað til: „triple bottom line; people – planet – profit“.

Nú horfa stofnanafjárfestar eins og lífeyrissjóðir í vaxandi mæli til sjálfbærrar þróunar og hagsmuna ýmissa haghafa svo sem starfsfólks, birgja og neytenda. Áherslan í starfsumhverfi fjárfesta er sífellt meiri á langtímasýn og mat á svonefndum ófjárhagslegum upplýsingum. Þó er ekki vikið frá kjarna umboðs lífeyrissjóða sem er að ávaxta eignir sjóðfélaga. Ítrekaðar rannsóknir sýna að þar sem siðferðilegum viðmiðum er sinnt er langtímaávöxtun fjárfestingar að jafnaði síst lakari og gjarnan traustari en ella. 

Viðbót, ekki bylting

Aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga kemur ekki í stað hefðbundinna fjárfestingaraðferða, hún er viðbót ætluð til að víkka sjóndeildarhringinn við eignastýringu. Lífeyrissjóðirnir eru í raun að verða virkari eigendur sem fjárfestar með því að kalla eftir upplýsingum og skýringum sem lúta að stjórnarháttum, umhverfisþáttum og samspili við samfélagið sem fyrirtækin starfa í. Þannig geta sjóðirnir betur greint langtímahagsmuni sína, virðiskeðjur þeirra fyrirtækja sem fjárfest er í og vægi lykil haghafa fyrirtækjanna. Þar fara saman hagsmunir sjóðfélaga sem hinna endanlegu eigenda og hagsmunir vel rekinna fyrirtækja. 

Áhrif EES

Talsverðar breytingar hafa orðið á löggjöf ESB um fjárfestingaumhverfi stofnanafjárfesta eins og lífeyrissjóða, fjárfestingasjóða og líftryggingafélaga. Þar gætir m.a. sjónarmiða og áhrifa sem tengjast fjármálakreppunni 2008, sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna frá 2016, sem og aðgerðum vegna loftslagsbreytinga og til stuðnings sjálfbærum fjárfestingum. Þessi þróun hefur áhrif hér á landi vegna EES-samningsins. Hér er af nógu að taka fyrir íslenska fjárfesta. 

Sem dæmi um þetta má nefna endurskoðun á tilskipun ESB um starfstengda lífeyrissjóði og breytingar á félagaréttartilskipun ESB þar sem auknar kröfur eru gerðar til stofnanafjárfesta sem eigenda á sama tíma og þeim eru tryggð aukin réttindi. 

Þá eru t.d. í farvatninu tvær reglugerðir. Önnur lýtur m.a. að kröfum til stofnanafjárfesta um að þeir geri eigendum (endafjárfestum) grein fyrir þeirri áhættu sem tengist umhverfisþáttum, samfélagslegum þáttum og stjórnarháttum. Hin er svokölluð „EU Taxonomy for sustainable activities“ reglugerð sem ætlað er að skilgreina það hvað telst til sjálfbærs reksturs í starfsemi fyrirtækja. Reglugerðinni er m.a. ætlað að auðvelda markaðssetningu svokallaðra sjálfbærra/grænna verðbréfa, auka skilvirkni og draga úr hættu á grænþvotti þar sem aðilar skreyta sig með stolnum fjöðrum.   

Samfélagsleg ábyrgð og styrkir

Þegar fjallað er um ábyrgar fjárfestingar og ábyrgan rekstur fyrirtækja skiptir fyrst og fremst máli hvernig hagnaðurinn verður til en ekki hvernig honum er ráðstafað. Þá ber einkum að líta til þess „hvernigfyrirtækin búa til hagnað“, hvaða fótspor starfsemin skilur eftir sig, hvernig fyrirtæki nýta auðlindir jarðar og svo framvegis. Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja kemur ekki fram í ráðstöfun hagnaðar. Í því samhengi skiptir því almennt ekki máli hvernig fyrirtæki kýs að ráðstafa hagnaði sínum, til að mynda með styrkjum til íþróttafélaga, góðgerðafélaga eða stjórnmálaflokka. 

Opin tækifæri

Í þessu öllu felast ekki síður mikil tækifæri en ógnir. Svo dæmi sé tekið áætlar ESB að það þurfi um 180 milljarða evra, um 25 þúsund milljarða íslenskra króna, á ári til 2030 í loftslags- og orkutengd verkefni. Verulegur hluti þess fjár þarf að koma frá einkageiranum. Góð fjárfestingartækifæri geta falist í verkefnum sem tengjast umbótum í framleiðsluferli og virðiskeðju fyrirtækja. Þar geta farið saman sjálfbærni, nýsköpun og góð fjárfestingartækifæri. 

Íslenskir lífeyrissjóðir hafa undanfarin misseri unnið að því að innleiða framangreind sjónarmið og reglur í starfsemi sína og má segja að á heildina litið hafi vel miðað og fjárfestingar sjóðanna séu traustari en áður. Hér liggja þó klárlega enn ónýtt tækifæri til að gera betur og ná meiri árangri.