Lífeyrisréttindin verðmætari en húsið og bíllinn

Lífeyrisréttindin verðmætari en húsið og bíllinn

Eyrún Einarsdóttir, áhættustjóri hjá Birtu lífeyrissjóði.„Lífeyrisréttindi eru verðmætasta eign okkar og skipta flesta meira máli en íbúðir eða bílar! Þess vegna hvet ég fólk til að kynna sér lífeyrisréttindi sín snemma á vinnuferlinum og láta alls ekki duga að velta vöngum yfir lífeyrismálum þegar starfslokin eru rétt handan hornsins. 

Þeir sem eru vakandi fyrir þessu á besta aldri hafa svigrúm til að gera ráðstafanir strax með eftirlaun í huga. Það er of seint að gera eitthvað sem máli skiptir um sextugt, hvað þá síðar,“ segir Eyrún Einarsdóttir, áhættustjóri Birtu lífeyrissjóðs. 

„Greinilegt er að lífeyrissjóðir ná vel til fólks sem nálgast eftirlaunaaldur, það er eðlilega mjög móttækilegt fyrir leiðbeiningum um hvernig staðið verði best að útgreiðslu lífeyris. 

Lífeyrissjóðir hafa sömuleiðis snertifleti við margt ungt fólk sem fær lán frá þeim vegna íbúðarkaupa, kynnist þá séreignarsparnaði í tengslum við fasteignakaup og fær ef til vill áhuga á að kynna sér málefni lífeyrissjóða í víðara samhengi. 

Kynslóðirnar þarna á milli eru jafnan minna í snertingu við lífeyrissjóðina og kynna sér ekki réttindi sín sem skyldi. Fólk á fertugsaldri á ekki að bíða með að kanna stöðu sína, heldur fara til dæmis inn á Lífeyrisgáttina (lifeyrisgattin.is)  og öðlast heildarsýn yfir réttindi sem áunnist hafa í lífeyrissjóðum. 

Þá er þess að geta að flestir greiða í fleiri en einn lífeyrissjóð um dagana og réttindaávinnslan getur verið mismunandi, það er að segja að hver þúsundkall í iðgjaldi veitir ekki endilega sama lífeyrisrétt í krónum talið hjá sjóðum sem viðkomandi greiðir í. 

Ég þekki sjálf dæmi um að fólk ráðstafaði meirihluta skylduiðgjalds í sparnaðarleið sem ekki fæst greitt úr fyrr en um áttrætt, án þess að gera sér grein fyrir því að missi það starfsgetu á besta aldri fær það greitt lægra hlutfall af launum úr samtryggingu áður en starfsgeta skertist.“ 

Hvað ef starfsorkan skerðist? 

„Sjálf safnaði ég fyrir nokkru saman upplýsingum um eigin lífeyrisréttindi og hef líka hvatt vini og kunningja við til að kynna sér málin. Nauðsynlegt er að hafa vitneskju um hve mikið menn fengju greitt úr lífeyrissjóðakerfinu við til dæmis 65 ára aldur og fólk getur auðvitað spurt lífeyrissjóðina sína hvenær þeir byrji að greiða út eftirlaun og hve mikill lífeyrisréttur viðkomandi sé.

Algengt er að menn eigi réttindi í fleiri lífeyrissjóðum en þeir gera sér grein fyrir og það þarf að hafa fyrir því að safna slíkum upplýsingum saman. 

Mikilvægt er að kanna þetta, leggja niður fyrir sér hvenær á æviskeiðinu stefnt er að því að draga úr vinnu eða hætta að vinna og skipuleggja útgreiðslur í samræmi við það, að svo miklu leyti sem það er unnt. 

Flestir gera ráð fyrir að halda óskertri starfsorku til loka starfsævinnar en þannig er það því  miður ekki. Fólk ætti að kanna hvað það fengi úr sjóðunum ef starfsgetan skerðist af einhverjum ástæðum.“ 

Upplýsingar um sparnaðarleiðir á Lífeyrismál.is 

Séreignarsparnaður er mikilvægur liður í undirbúningi fyrir efri árin og því fyrr sem byrjað er að leggja fyrir því betra. Um margar mismunandi sparnaðarleiðir er að velja hjá lífeyrissjóðunum, eins og til dæmis má sjá undir "Ávöxtun - séreign" á Lífeyrismál.is. Þar eru á einum stað upplýsingar um séreignarleiðirnar, samsetningu þeirra og ávöxtun.

Ráðgjafar lífeyrissjóðanna mæla jafnan með því að yngra fólk frekar en það eldra velji áhættusamari sparnaðarleiðir og geti þá vænst meiri en sveiflukenndari ávöxtunar. Miðaldra og eldra fólki er hins vegar frekar ráðlagt að líta til áhættuminni sparnaðarleiða þar sem ætla má að ávöxtun sé að sama skapi minni. 

Nefna má að í anda þessarar hugmyndafræði sendir Birta lífeyrissjóður tilteknum hópi eigenda séreignarsparnaðar innan tíðar bréf, það er að segja sextugum og eldri sem eiga að lágmarki tiltekna upphæð á sparnaðarreikningum í mesta áhættuflokki. Sjóðurinn spyr hvort viðkomandi vilji fá sparnaðinn greiddan út eða hvort færa eigi fjármunina á sparnaðarleiðir með minni áhættu. Birta ræður hér viðskiptavinum sínum heilt og gætir hagsmuna þeirra að eigin frumkvæði. 

Tilgreindur séreignarsparnaður kom nýlega til sögu í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þar stendur fólk frammi fyrir vali um að nýta 3% af launum til að auka hlutdeild sína í samtryggingu lífeyrissjóða eða verja þeim frekar í séreignarsparnað.“ 

Mælir með bókinni Lífið á efstu hæð 

Eyrún segir að margs sé að gæta í heildarmyndinni, til dæmis geti hjón jafnað lífeyrisréttindi með því að annað flytji réttindi til hins. Yfirleitt hallar oftar á konuna í þessum efnum þar sem réttindamunurinn er verulegur á annað borð. 

„Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins og rithöfundur, hefur sent frá sér aðgengilegar bækur um fjármál og lífeyrismál fyrir fólk á öllum aldri. Sú nýjasta, Lífið á efstu hæð, fjallar einmitt um þá sem undirbúa fjármál sín fyrir starfslok. Þá bók hef ég lesið og mæli með henni. Svör við ótal algengum spurningum er þar að finna. 

Aðalatriðið er að fólk kanni vel rétt sinn til lífeyris og taki lífeyrissjóðsmál sín yfirleitt alvarlega sem fyrst á starfsævinni. Góðra gjalda vert er að sinna vel viðhaldi fasteigna sinna og bíla en mikilvægara að sýna fyrirhyggju gagnvart eftirlaunum og tryggingum sem varða afkomu á efri árum, heilsu og líf.“