Sjómannaforinginn í forystusveit lífeyrissjóða


"Ég var til sjós í 30 ár, byrjaði sextán ára en hef unnið í landi frá því árið 2007 og safnað lífeyrisréttindum sem ég sé í Lífeyrisgáttinni hver orðin eru. Hvar stæði maður án þessara réttinda sem áunnist hafa á starfsævinni? Ekki er ríkisvaldinu að treysta, svo mikið er víst. Skerðing lífeyris almannatrygginga sýnir það og sannar.“

Valmundur Valmundsson er formaður Sjómannasambands Íslands og stjórnarmaður í Landssamtökum lífeyrissjóða. Hann var um árabil formaður Sjómannafélagsins Jötuns í Vestmannaeyjum, er núna varamaður stjórnar Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja og áður aðalmaður í stjórn sjóðsins í umboði verkalýðsfélaganna í Eyjum.

Sjómannafélagið Jötunn, Drífandi stéttarfélag, félög verslunarmanna, skipstjórnarmanna og fleiri félög launamanna velja í sameiningu þrjá stjórnarmenn og varamenn þeirra í Lífeyrissjóði Vestmannaeyja. Drífandi og Jötunn eru stærstu félögin og áttu jafnan fulltrúa sína í stjórn sjóðsins en oft var tekist á um þann þriðja á árum áður. Valmundur segir að tilnefning stjórnarmanna hafi hins vegar gengið vel og friðsamlega fyrir sig undanfarinn hálfan annan áratug.      

Ávöxtun Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja sú besta á Norðurlöndum 2018

Lífeyrissjóður Vestmannaeyja er meðalstór í lífeyrissjóðakerfi landsmanna þegar horft er til eigna. Sjóðurinn hefur jafnan ávaxtað pund sitt vel um dagana. Hann þurfti ekki að grípa til skerðingar lífeyrisréttinda eftir efnahagshrunið og á dögunum var honum birt viðurkenning bresks fyrirtækis sem mælir árangur lífeyrissjóða á heimsvísu. Lífeyrissjóður Vestmannaeyja ávaxtaði eignir sínar best allra lífeyrissjóða á Norðurlöndum á árinu 2018, hvorki meira né minna!

„Lífeyrissjóður Vestmannaeyja á fjármálafyrirtækið Jökla-verðbréf hf. að hálfu á móti Festu lífeyrissjóði. Jöklar-verðbréf annast fjárfestingar lífeyrissjóðsins okkar að miklu leyti. Hlutfall erlendra fjárfestinga er tiltölulega hátt í samanburði við aðra íslenska lífeyrissjóði og skilaði góðri ávöxtun 2018. Innlend verðbréf ávöxtuðust líka vel.

 Annars má segja að Lífeyrissjóður Vestmannaeyja sé íhaldssamur og varfærinn í fjárfestingum. Hann var líka of lítill til að vera með í ýmsum stórum fjárfestingum sem léku aðra sjóði grátt í efnahagshruninu. Það er því stundum til lukku að vera smár.

 Yfirbygging Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja er lítil, þar eru þrír starfsmenn og til stendur að bæta við þeim fjórða. Staðreynd er að sífellt erfiðara verður að halda litlum lífeyrissjóðum gangandi vegna kröfu um sérhæfingu og ábyrgð, fjölgunar verkefna og aukins umfangs starfseminnar sem af því leiðir.

 Í seinni tíð hefur lítið verið rætt um að sameina sjóðinn stærri heild en hugmyndir um slíkt voru nokkrum sinnum uppi þegar ég byrjaði að fjalla um lífeyrismál á vegum Jötuns upp úr aldamótum. Þá var til dæmis rætt um að sameina þrjá lífeyrissjóði í einn sjóð fyrir Norðurland, Austurland og Vestmannaeyjar. Sú hugmynd mætti andstöðu í röðum verkalýðsfélaganna í Eyjum og henni var að lokum sópað út af borðinu. Mörgum þótti sem ýmsum spurningum væri ósvarað um slíka sameiningu og í ljós kom svo að lífeyrissjóðir Norðurlands og Austurlands stóðu verr en af var látið. Við blasti því að sameining við þá hefði ekki verið gæfuspor fyrir Eyjamenn.“

Lífeyrissjóðir verða að fylla í eyður samþykkta sinna

Valmundur hefur líkt og fleiri í verkalýðshreyfingunni og lífeyrissjóðakerfinu fylgst með átökum og umræðum í kjölfar þess að stjórn VR afturkallaði umboð stjórnarmanna sem hún hafði tilnefnt til setu í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Valmundur var einmitt með greinargerð Fjármálaeftirlitsins á borðinu framan við sig þegar þetta viðtal átti sér stað.

„Málið á sér engin fordæmi en ég get sem forystumaður í verkalýðshreyfingunni verið sammála formanni VR um að þeir sem tilnefna fulltrúa í stjórnir lífeyrissjóða geti á sama hátt afturkallað umboð fulltrúanna ef svo ber undir. Hins vegar hlýtur að þurfa að hafa skýrar reglur um hvernig að slíku er staðið. Fjármálaeftirlitið bendir réttilega á að lífeyrissjóðirnir verði að hafa skýr ákvæði í samþykktum sínum að þessu leyti.

Þarna vantar greinilega formfestu og sjóðirnir verða að bregðast við kalli FME með því að breyta samþykktum sínum og fylla þar í eyður sem sýnilega eru til staðar í ljósi atburða á vettvangi VR og Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.

Hér er mikið undir, hvernig svo sem á er litið. Þarna vega salt annars nýgerðir kjarasamningar og fyrirheit sem í þeim fólust eða fylgdu og hins vegar réttindi sjóðfélaga lífeyrissjóða og lagaskyldur sjóðanna um að ávaxta iðgjöld og skapa sjóðfélögum sem best lífeyrisréttindi.“

Siglfirskur Eyjamaður

Valmundur er Siglfirðingur að uppruna. Hann fæddist þar og ólst upp en flutti til Eyja 1989. Hann telur sig Siglfirðing eða siglfirskan Eyjamann eftir atvikum. Sumir Eyjamenn halda því fram að menn þurfi að hafa fæðst í Vestmannaeyjum til að geta talið sig Eyjamann. Valmundur blæs á það og segist hafa bent meintum, fullgiltum Eyjamanni á að sá væri þá sjálfur ekki gegnheill, hafandi komið í heiminn á fæðingarheimili í Reykjavík! 

Hvað um það, Valmundur á að baki stóran hluta starfsferils síns í Vestmannaeyjum og sótti sjóinn þaðan. Upphaflega fór hann frá Siglufirði til Eyja til að vera á einni vetrarvertíð en þær urðu alls tuttugu. Þau Björg Sigrún Baldvinsdóttir fluttu til Vestmannaeyja árið 1989 og þaðan til Reykjavíkur 2015. Þau eiga Önnu Brynju og Val Má og barnabörnin eru orðin fjögur talsins.

Valmundur var fyrst til sjós á Frigg VE, sem síðar var Frár. Vinnslustöðin átti skipið en Tangi gerði það út. Hann var einn vetur á Þórunni Sveinsdóttur VE, síðar Suðurey en eftir það á Frá VE allt til 2007 þegar hann hætti sjómennsku. Óskar Þórarinsson á Háeyri gerði Frá út.

Helsta áhugamál sjómannaforingjans utan vinnutíma er fluguveiði og tilheyrandi fluguhnýtingar. Hann nefnir líka ferðalög og samvistir með fjölskyldunni.

Kjarasamningarnir - eldskírn formanns 

„Ég var í mörg ár í stjórn og framkvæmdastjórn Sjómannasambands Íslands en haustið 2014 var ég kjörinn formaður stjórnar og ætlaði að sinna starfinu frá Vestmannaeyjum. Ég reyndi það þá um veturinn en gafst upp. Slíkt fyrirkomulag var hvorki bjóðandi fjölskyldunni né Sjómannasambandinu. Við fluttum því til Reykjavíkur 2015 og hér er ég á skrifstofu undir sama þaki og Alþýðusamband Íslands, Efling stéttarfélag, Gildi lífeyrissjóður, Landssamtök lífeyrissjóða og fleiri. 

Við erum tveir starfsmenn Sjómannasambandsins, með mér er Hólmgeir Jónsson skrifstofustjóri. Hann er hokinn af reynslu, gangandi fróðleiksnáma um allt er við kemur kjarasamningum og réttindum sjómanna. 

Við liðsinnum 17 aðildarfélögum sem best við getum, til dæmis með lögfræðiaðstoð, túlkun samninga og annað sem upp kemur í daglegri starfsemi. Sjö manna framkvæmdastjórn Sjómannasambandsins hittist að jafnaði mánaðarlega og fulltrúaráðið að jafnaði tvisvar á ári. Þannig ganga hlutirnir fyrir sig frá degi til dags.

Kjarasamningarnir sem undirritaður voru í febrúar 2017 tóku á. Vissulega náðist að semja og var reyndar mikill áfangi í sjálfu sér. Báðir aðilar voru þokkalega ósáttir við niðurstöðuna. Ætli megi ekki segja að þá teljist niðurstaðan viðunandi!

Já, samningarnir voru ansi erfiðir. Ég fékk eldskírn sem formaður og öðlaðist reynslu sem kemur sér vel í næstu lotu í kjölfar þess að samningarnir losna 1. desember 2019.“