Skuldabréf á grænum vængjum

„Orkuveita Reykjavíkur er eins grænt orkufyrirtæki og hugsast getur og var fyrsta fyrirtækið á Íslandi sem skráði græn skuldabréf á markað, í júlí 2019,“ sagði Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, í upphafi kynningarfundar sem OR efndi til í Nauthóli 27. janúar í samstarfi við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og IcelandSIF.

dr. Ahmad A. Rahnema, prófessor í alþjóðaviðskiptaháskólanum í Barcelona og sérfræðingur á sviði fjármögnunar fyrirtækjaFundarsalurinn var troðfullur og svo mikill var áhuginn að skráningu var hætt daginn áður. Yfirskrift samkomunnar var Græn skuldabréf - straumar á Íslandi og erlendis. Aðalfyrirlesarinn var dr. Ahmad A. Rahnema, prófessor í alþjóðaviðskiptaháskólanum í Barcelona og sérfræðingur á sviði fjármögnunar fyrirtækja. Hann hafði orð á að fá evrópsk fyrirtæki væru í álíka áhugaverðu ferli og Orkuveitan á leið í sjálfbæran rekstur þar sem græn skuldabréf væru hluti af breytingunni. 

Orkuveitan gaf út græn skuldabréf fyrir 12,5 milljarða króna að markaðsvirði í fyrra (2019) og stefnir að því að gefa eingöngu út græn bréf. Þetta kom fram í máli Ingvars Stefánssonar fjármálastjóra og Drafnar Harðardóttur sérfræðings á fjármálsviði OR. 

Hvað gerir skuldabréf „græn“? 

Áskilið er að fé, sem aflað er með útgáfu grænna skuldabréfa, sé varið til umhverfisvænna verkefna. Af slíku er nóg að taka hjá Orkuveitunni og dótturfélögum hennar; í raforkuframleiðslu, hitaveituframkvæmdum, vatnsvernd, fráveitum, snjallvæðingu veitukerfa og síðast en ekki síst í kolefnisbindingarverkefnum sem orðin eru þekkt og umtöluð um víða veröld. 

„Við sýnum samfélagslega ábyrgð í verki, fylgjum eftir stefnu fyrirtækisins í umhverfis- og loftlagsmálum, tengjum saman fjármál og samfélagslega ábyrgð og svörum jafnframt kalli fjárfesta um græna fjárfestingarkosti. Það má til dæmis gera ráð fyrir því að sjóðfélagar lífeyrissjóða velti í auknum mæli fyrir sér og spyrji sjóðina sína hvort þeir fjárfesti í grænum orkuverkefnum eða til dæmis í raforkuframleiðslu með kolum? 

Nánast öll fjárfestingarverkefni Orkuveitunnar, Orku náttúrunnar og Veitna eru skilgreind sem græn,“ sagði Ingvar Stefánsson á kynningarfundum og bætti við:

 „Eftir efnahagshrunið var Orkuveitan ljóti andarunginn í augum erlendra lánastofnana en nú er öldin önnur. Norræni fjárfestingarbankinn  og Evrópski fjárfestingarbankinn eru stoltir yfir því að lána Orkuveitunni í ljósi mats síns á verkefnum hennar. Evrópski bankinn hefur meira að segja myndband um starfsemi okkar á vefnum sínum. 

Grænu skuldabréfin eru vottuð en það segir sína sögu að fulltrúi eins lífeyrissjóðs sagðist alltaf hafa litið á Orkuveituna sem grænt fyrirtæki þótt það hefði ekki verið vottað formlega sem slíkt. Við vissum fyrir að verkefnin okkar fengju vottun en það gerðu stjórnarhættir okkar líkar.“ 

Dröfn Harðardóttir sagði að Orkuveitan hefði sett sér „grænan ramma“ í tengslum við útgáfu skuldabréfanna sem byggðist á skilgreiningu verkefnaflokka, valferli verkefna, meðferð fjármuna og upplýsingamiðlun til fjárfesta. 

„Það fylgja því eingöngu kostir en engir gallar að gefa út græn skuldabréf. Útgáfa bréfanna kallar vissulega á meiri vinnu, aukinn kostnað og meira utanumhald en verkefnið í heild er ómetanlegt lærdómsferli, gríðarlega stefnumótandi og hvetur til samstarfs og samvinnu í fyrirtækinu.“