Þarf lög um kynjakvóta í framkvæmdastjórnum fyrirtækja?

Frá vinstri: Þórey S. Þórðardóttir, Andrea Róbertsdóttir, Jón Atli Benediktsson, Frú Vigdís Finnboga…
Frá vinstri: Þórey S. Þórðardóttir, Andrea Róbertsdóttir, Jón Atli Benediktsson, Frú Vigdís Finnbogadóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Frú Eliza Reid, Alma Dís Óladóttir, Agnes M. Sigurðardóttir, Hanna Katrín Friðrikson, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, Bergþóra Þorkelsdóttir og Magnús Harðarson.

Yfir 60 af hundraði forystukvenna í íslensku atvinnulífi kalla eftir því að sett verði lög um kynjakvóta í framkvæmdastjórnum fyrirtækja, hliðstæð lögum um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja sem tóku gildi 2010 og innleidd voru til fulls 2013.

Þetta er niðurstaða viðhorfskönnunar sem gerð var á vegum Háskóla Íslands og um var fjallað í málstofu í hátíðarsal HÍ 28. janúar.

  • Í Kauphöll Íslands eru skráð félög 21 talsins. Þau uppfylla öll skilyrði um kynjahlutföll í stjórnum.
  • Í stjórnum sjö félaga eru konur til jafns við karla eða fleiri en karlarnir.
  • Í 16 félögum eru karlar bæði forstjórar og stjórnarformenn.
  • Í þremur félögum eru framkvæmdastjórnir eingöngu skipaðar körlum.
  • Konur eru frekar í forystu lítilla fyrirtækja með einn til tíu starfsmenn en þær eru einungis  13% stjórnenda í fyrirtækjum með fleiri en 50 starfsmenn.
  • Engin kona er forstjóri í skráðu félagi í Kauphöllinni!

Alþjóðaefnahagsráðið hefur í 11 ár í röð sett Ísland í efsta sæti yfir ríki með kynjajafnrétti í veröldinni. Jafnréttið nær hins vegar ekki inn í stjórnendahópa fyrirtækjanna, langt frá því.

Ásta Dís Óladóttir, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, kynnti og ræddi niðurstöður könnunar sem hún gerði ásamt Gylfa Dalmann Aðalsteinssyni og Þóru C. Christensen og birt var skömmu fyrir jól í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla.

Lagðar voru spurningar fyrir 186 konur í stjórnendastöðum í atvinnulífinu. Ásta Dís orðaði það svo í málstofunni í HÍ að niðurstaðan væri „ákall um aðgerðir“.

Í könnuninni komu fram ýmsar hugmyndir um hvernig mætti fjölga konum í stjórnunarstöðum, til dæmis að fyrirtækjum á einkamarkaði yrði gert skylt að auglýsa slík störf.

Þá var talað um að breyta þyrfti vinnufyrirkomulagi og vinnumenningu á Íslandi og bæta fæðingarorlofskerfið til að auðvelda konum að standa jafnfætis körlum gagnvart forystustörfum. Karlar yrðu líka að axla aukna ábyrgð í fjölskyldulífinu og fái tækifæri til þess og efla ætti konur og hvetja til að sækjast eftir æðstu stjórnendastöðum í fyrirtækjum.

Lífeyrissjóðir voru nefndir til sögu á þann veg að þeim yrði gert að marka eigendastefnu með kynjakvóta, í fyrirtækjum sem þeir fjárfesta í, á þann veg að lágmark hvors kyns í framkvæmdastjórnum yrði ekki undir 40%.

Síðast en ekki síst birtist sem sagt mikill stuðningur við að Alþingi lögfesti kynjakvóta á stjórnunarstöðum í atvinnulífinu.

Ásta Dís sagði að konur sjálfar þyrftu greinilega að láta meira til sín taka í stjórnum fyrirtækja og margir áhrifavaldar væru til kallaðir líka: hluthafar, stjórnir, stjórnvöld og verkalýðshreyfingin. 

Í pallborði f.v. Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar og Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallar ÍslandsLagasetning - já eða „visst neyðarúrræði“

Þrennt tók þátt í háborðsumræðum í hátíðarsalnum: Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, og Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða. 

Hanna Katrín sagði að reynsla af kynjakvótum í stjórnum fyrirtækja væri góð. Hún boðaði frumvarp um breytingu á lögum um starfsemi lífeyrissjóða þess efnis að sjóðunum yrði skylt að fylgja jafnréttisstefnu í starfsemi sinni og rökstyðja ef þeir fjárfestu í fyrirtækjum „með skekkta stöðu kynja i stjórnendahópum sínum.“ Slíkt teldist ekki vera afskipti af fjárfestingum sjóðanna heldur ákall um jafnrétti kynja og gegnsæi. 

Þórey sagði „enga spurningu um að lífeyrissjóðir ættu að líta til jafnréttis í eigendastefnum sínum“. Sjóðirnir væru lögskyldaðir til að horfa til samfélagslegrar ábyrgðar í fjárfestingum og þar væri viðmiðið „USS-hugmyndafræðin“  (Umhverfi-Samfélag-Stjórnarhættir – á ensku ESG: Environment-Social-Governance). Jafnréttismál væru þar einn af grunntónum.

Þórey nefni líka að gefnu tilefni að hið háa Alþingi mætti sýna betra fordæmi í jafnréttismálum við skipan fastanefnda. Þannig sætu sjö karlar en einungis tvær konur í fjárlaganefnd annars vegar og í umhverfis- og samgöngunefnd hins vegar. Í efnahags- og viðskiptanefnd væru sex karlar og þrjár konur en kynjahlutföll væru skárri í öðrum fastanefndum. 

Magnús sagði að lög um kynjakvóta í framkvæmdastjórnum væru „visst neyðarúrræði“. Hann vildi frekar að stjórnir fyrirtækjanna beittu sér meira og með ákveðnari hætti, mörkuðu stefnu um kynjahlutföll í stjórnendahópnum sem forstjórar yrðu þá að starfa eftir og bera ábyrgð á gagnvart stjórnum hvernig hrint væri í framkvæmd. „Ég trúi ekki öðru en að það hafi áhrif ef stjórnir fyrirtækja beita sér með þessum hætti en það gæti gerst að ég styddi kynjakvóta ef annað dugar ekki til breytinga.“