Áhugi á eyðublöðum, skjölum og möppum kom í ljós strax á barnsaldri

Væntanlegur starfsvettvangur framkvæmdastjóra Stapa lífeyrissjóðs réðst snemma ævinnar.

Áhugi á eyðublöðum, skjölum og möppum kom í ljós strax á barnsaldri

„Við gerðum upp árið 2019 með liðlega 10% raunávöxtun eigna, besta ár í sögu sjóðsins að því leyti. Árið 2020 fer ágætlega af stað líka þrátt fyrir allt. Veiking krónunnar ýtir ávöxtun upp, skuldabréf í eignasafninu gefa góða ávöxtun og erlendir fjármálamarkaðir hafa styrkt sig. Nú er að sjá hvernig áhrif veirufaraldursins birtast okkur. Vanskil hafa ekki aukist enn sem komið er en umsvif í ferðaþjónustu eru mikil á Eyjafjarðarsvæðinu og í Þingeyjarsveit. Ætla má því að næsti vetur verði erfiður hjá mörgum fyrirtækjum og sjóðfélögum sem þar starfa.“

Jóhann Steinar Jóhannsson tók við framkvæmdastjórastarfi hjá Stapa lífeyrissjóði í byrjun september 2017. Hann hafði áður verið í skamman tíma framkvæmdastjóri ÍV sjóða hf. og þar áður starfað í fjárstýringu og eignastýringu hjá Stapa í fjögur ár eða frá því hann kom heim frá meistaranámi í stjórnun og fjármálum í Lundi í Svíþjóð árið 2012. Hann er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík.

„Vissulega telst það umtalsverð starfsreynsla í lífeyriskerfinu að hafa verið þar innanbúðar í ein átta ár en svo las ég á Lífeyrismál.is viðtöl við reynsluboltana Árna Guðmundsson, framkvæmdastjóra Gildis-lífeyrissjóðs, og Hauk Hafsteinsson, sem hætti í fyrra sem framkvæmdastjóri LSR. Þeir byrjuðu báðir að vinna í lífeyrissjóðum 1982, árið sem ég fæddist, og Árni er enn að. Ég bruddi með öðrum orðum sand á leikvelli þegar þeir félagar höfðu hafið farsælan starfsferil sinn í lífeyriskerfinu!

Annars get ég upplýst að ég var ekki kominn langt frá sandkassanum þegar skrifað var í skýin yfir Akureyri hvar ég myndi hafna á vinnumarkaði þegar að því kæmi. Ég hafði strax sem strákpjakkur ódrepandi áhuga á skjölum og möppum. Pabbi er bókari og líklega hefur vinnan hans átt hlut að máli að kveikja áhugann og viðhalda honum. 

Ég setti upp skrifstofu heima með síma og skjalaskáp og hirti og setti í möppur millifærslukvittanir sem foreldrarnir komu með heim eftir innlit í banka. Mamma var læknaritari og þegar ég fór í vinnuna til hennar fékk ég að stimpla skjöl til að hafa á skrifstofunni minni heima. 

Árleg laufabrauðsgerð á heimilinu var sérstök hátíðarstund því ég hirti brakandi smjörpappírsblöð úr kössum sem kökurnar voru í, gataði þau og notaði sem milliblöð í möppurnar mínar. Eyðublöð til að fylla út voru í hávegum höfð og sérstaka ástríðu hafði ég fyrir eyðublöðum í tvíriti. 

Flest bendir því til þess að ég hafi í mér endurskoðunargen og ég þrífst afskaplega vel í mínu umhverfi fjármála og skjala af öllu tagi í vinnunni. Langt er samt síðan ég hætti að safna smjörpappírsblöðum!“ 

Stærsti lífeyrissjóðurinn í ferkílómetrum talið 

Stapi varð til árið 2007 við sameiningu Lífeyrissjóðs Austurlands og Lífeyrissjóðs Norðurlands. Höfuðstöðvar sjóðsins eru á Akureyri og eins manns starfsstöð í Neskaupstað, bráðum tveggja manna. Nýráðinn er starfsmaður í annað stöðugildi þar eystra og útibúið verður flutt í samvinnuhúsið Múla þar sem nokkrar smáar starfseiningar verða undir sama þaki og deila mötuneyti, fundarsölum og því sem til húsrekstrar heyrir. 

Starfssvæði Stapa er þannig gríðarstórt og augljóst að hann er stærsti lífeyrissjóður landsins í ferkílómetrum talið. „Ríki“ Stapa nær frá Hrútafirði í vestri, austur um Norðurland og suður um Austurland allt að Skeiðará. 

Á svæðinu er allir byggðakjarnar á Norður- og Austurlandi og sjóðfélagar eru launafólk í sjávarútvegi, verslun, þjónustu, iðnaði og fleiri atvinnugreinum.

 „Vissulega er áskorun að reka lífeyrissjóð sem hefur hálft Ísland sem bakland. Enginn ætlast til þess að sjóðfélagar ferðist langar leiðir á samkomur hjá okkur en við efnum til sjóðfélagafunda víða, streymdum síðasta ársfundi á Vefnum og ætlum í fyrsta sinn að hafa rafrænan fulltrúaráðsfund núna í júní.

 Veirufaraldurinn knúði alla, þar á meðal okkur, til að hugsa ýmsa hluti upp á nýtt. Það á til dæmis við um fjarfundi og fjarvinnu. Þegar COVID-fárið gekk yfir skiptum við tuttugu starfsmönnum Stapa í tvo hópa sem unnu til skiptis heima og á skrifstofunni viku eftir viku. Þetta gekk ljómandi vel enda nýtur sjóðurinn þess að hafa einstaklega velviljað og gegnheilt fólk í vinnu.“ 

Áunnin réttindi jukust um 13% á árinu 2019 

Ekki verður talað við framkvæmdastjóra Stapa án þess að víkja að réttindakerfi lífeyrissjóðsins sem tekið var í gagnið í ársbyrjun 2016. Kerfi Stapa virkar í sjálfu sér eins og réttindakerfi lífeyrissjóða yfirleitt en hefur engu að síður ákveðna sérstöðu. 

  • Lífeyrisréttindi sjóðfélaga breytast mánaðarlega í samræmi við inngreidd iðgjöld og ávöxtun eigna. Tryggingafræðileg staða sjóðsins er því alltaf í jafnvægi.
  • Mikið er lagt upp úr gagnsæi. Auðvelt er að kynna og útskýra fyrir sjóðfélögum hvað verður um iðgjaldið þeirra, hve stórum hluta er varið í áfallatryggingar og hve stór hluti rennur til réttindasjóðs til eftirlauna.
  • Áhrif ávöxtunar á réttindasjóðinn sjást í sjóðfélagayfirlitum. 

„Við urðum að tileinka okkur nýja hugsun og vinnubrögð og höfum í mörg horn að líta til að tryggja að útreikningar kerfisins séu ávallt réttir. Álagið á starfsfólkið var mikið þegar kerfinu var komið á og í framhaldinu þegar það var að slípast en kostir fyrirkomulagsins eru yfirgnæfandi. Sérstaklega skynjum við að fólk á auðveldara en áður með að skilja gangverkið í lífeyrissjóðakerfinu og það er ekki lítill ávinningur. 

Lífeyrisréttindi sjóðfélaga eru á hverjum tíma í samræmi við eignirnar. Áunnin réttindi hjá Stapa jukust um 13% á árinu 2019 í samræmi við hækkun eignavísitölu sjóðsins.“ 

– Hvers vegna hafa ekki aðrir lífeyrissjóðir fetað í ykkar slóð ef kostir breytingarinnar eru þeir sem þú lýsir? 

„Því get ég ekki svarað, kannski ættum við að upplýsa meira um hvernig kerfið okkar virkar. Ég verð var við að margir sem starfa í öðrum lífeyrissjóðum vita ekki að við höfum annað fyrirkomulag og að það hafi gefist vel. Nokkur ár tók að undirbúa breytinguna og að því vann Bjarni Guðmundsson  tryggingastærðfræðingur, ásamt þáverandi stjórnarmönnum og starfsmönnum sjóðsins.“

Margt áunnist í kynningarmálum 

– Merkir þú breytingu á viðhorfum almennings til lífeyrissjóða? 

„Já, það geri ég og þykist skynja að markvisst kynningar- og upplýsingastarf skilar tvímælalaust árangri. Landssamtök lífeyrissjóða hafa til dæmis staðið sig mjög vel við að kynna lífeyrismálefni og lífeyrissjóðakerfið. Upplýsingamiðlun verður stöðugt að vera í gangi og hana þarf að auka frekar en hitt. 

Mér sýnist illt umtal um lífeyrissjóði eiga sér aðallega stað í yfirborðslegum frösum á samfélagsmiðlum. Sjálfur hitti ég ekki marga sjóðfélaga sem tala svona en marga sem vilja ræða málin og fjalla um bæði styrkleika lífeyrissjóðakerfisins og agnúa. Slík umræða er uppbyggileg því hvorki ég né aðrir í forystu lífeyrissjóða teljum að eftirlaunakerfið sé fullskapað og fullkomið. 

Almennt séð hefur náðst mikill árangur í að efla vitund sjóðfélaga um þau réttindi sem fylgja því að greiða í lífeyrissjóð. Þeirri vinnu lýkur aldrei. Lífeyrissjóðir eru afsprengi kjarasamninga á vinnumarkaði og hlutverk okkar er að taka við iðgjöldum, ávaxta þau og greiða út sem lífeyri eða vera öryggisnet með áfallatryggingum. Við starfsmenn lífeyrissjóða erum aðeins vörsluaðilar þessa sparnaðar sjóðfélaga okkar. 

Stærstar einstakar eignir fólks eru gjarnan þessi réttindi í lífeyrissjóðum, nú um stundir alls um 5.000 milljarðar króna. Lífeyrisréttindin eru verðmætari en það sem flest fólk á í íbúðarhúsnæðinu sínu, á bankareikningum eða í verðbréfum. 

Því miður upplifa samt sumir skjólstæðingar okkar það ekki endilega svo að réttindi í lífeyrissjóðum séu sín eign heldur stilla þeir sjóðunum jafnvel upp sem andstæðingum! 

Okkar hlutverk er að halda áfram góðu kynningarstarfi og opnu samtali við skjólstæðinga okkar. Þannig færum við sjóðina nær sjóðfélögum.“