ASÍ/SA og FME ósammála um tilgreinda séreign

ASÍ/SA og FME ósammála um tilgreinda séreign

Fjármálaeftirlitið telur að það standist ekki lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða að meina sjóðfélaga að fela öðrum lífeyrissjóði að ávaxta tilgreinda séreign sína en þeim sjóði sem tekur við iðgjaldi til skyldutryggingar. Þessu eru Samtök atvinnulífsins (SA) og Alþýðusamband Íslands (ASÍ) ósammála.

Ágreiningurinn birtist í bréfum sem gengið hafa á milli aðila málsins núna í júlímánuði.

  1. FME sendi frá sér dreifibréf til lífeyrissjóða 7. júlí „vegna villandi fréttaflutnings og upplýsinga á heimasíðum lífeyrissjóða, þess efnis að sjóðfélögum beri að ráðstafa iðgjaldi til tilgreindrar séreignar til sama lífeyrissjóðs og tekur við iðgjaldi vegna samtryggingar“.  FME segir að sjóðfélagi geti lögum samkvæmt ákveðið að ráðstafa séreignarhluta iðgjaldsins til annars lífeyrissjóðs án sérstaks kostnaðar fyrir sjóðfélagann.
  2. ASÍ og SA lýstu sig ósammála afstöðu Fjármálaeftirlitsins í sameiginlegu bréfi til FME 19. júlí. Þar er bent á að tilgreinda séreignin eigi rætur að rekja til kjarasamnings á almennum vinnumarkaði frá 15. janúar 2016 þar sem hafi meðal annars verið kveðið á um að hækka framlag launagreiðenda í lífeyrissjóði úr 8% í 11,5% í þremur áföngum. Það sé „veigamikill áfangi í jöfnun lífeyriskjara á almennum og opinberum vinnumarkaði“ og af þeirri ástæðu sé „afar mikilvægt að allt skylduiðgjaldið verði varðveitt hjá viðkomandi skyldutryggingarsjóði.“ ASÍ og SA telja sig hafa „fulla heimild á grundvelli laga“ til að gera kjarasamning um tilgreinda séreign er lúti öðrum reglum en ákvæðum laga um annan séreignarsparnað varðandi vörsluaðila, ávöxtun og útgreiðslu. Í bréfinu var því beint til FME að „skýra frekar og endurskoða tilmælin til lífeyrissjóðanna.“
  3. Fjármálaeftirlitið svaraði með bréfi 21. júlí og hvikaði hvergi frá afstöðu sinni frá 7. júlí. Þar kemur fram það álit FME að „efni kjarasamninga um lífeyrisréttindi þurfi að rúmast innan ramma laga nr. 129/1997 [um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða] og að aðilar vinnumarkaðarins „geti ekki samið þá launamenn, sem kjarasamningur tekur til, undan lögbundnum rétti sjóðfélaga til að velja sér annan aðila til að taka við iðgjaldi sem renna skal til tilgreindrar séreignar“ en þann lífeyrissjóð sem tekur við iðgjaldi vegna samtryggingar.

 

Sjö lífeyrissjóðir starfa á samningssviði ASÍ og SA

  • Birta lífeyrissjóður
  • Festa lífeyrissjóður
  • Gildi lífeyrissjóður
  • Lífeyrissjóður Rangæinga
  • Lífeyrissjóður verslunarmanna
  • Lífeyrissjóður Vestmannaeyja
  • Stapi lífeyrissjóður.

Sjóðirnir boðuðu allir til aukaársfunda síðari hluta júnímánaðar 2017 og breyttu samþykktum sínum að tilmælum ASÍ og SA, svo þeir gætu tekið á móti iðgjöldum í tilgreinda séreign frá og með júlímánuði 2017.