Aðalfundur Landssamtaka lífeyrissjóða 2018

Aðalfundur Landssamtaka lífeyrissjóða 2018

Guðrún Hafsteinsdóttir nýr formaður Landssamtaka lífeyrissjóða

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins og stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, tók í dag við formennsku Landssamtaka lífeyrissjóða og Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins - LSR, er varaformaður.

Þrír nýir stjórnarmenn voru kjörnir í níu manna stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða á ársfundi í dag: Jakob Tryggvason, Birtu lífeyrissjóði; Halldóra Káradóttir, Brú lífeyrissjóði og Valmundur Valmundsson, Lífeyrissjóði Vestmannaeyja.

Aðrir stjórnarmenn eru Harpa Ólafsdóttir, Gildi-lífeyrissjóði; Erla Jónsdóttir, Stapa lífeyrissjóði; Gylfi Jónasson, Festu lífeyrissjóði og Arnaldur Loftsson, Frjálsa lífeyrissjóðnum.

Varastjórn er óbreytt frá síðasta kjörtímabili: Hulda Rós Rúriksdóttir, Almenna lífeyrissjóðnum; Erla Ósk Ásgeirsdóttir, Íslenska lífeyrissjóðnum og Sigurbjörn Sigurbjörnsson, Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda.

Á aðalfundinum var samþykkt að bæta við nýrri fastanefnd Landssamtaka lífeyrissjóða, áhættunefnd, í ljósi þess að mikil breyting hefur orðið á regluverki lífeyrissjóða varðandi áhættumat og áhættustýringu. Margir sjóðir hafa ráðið fólk í störf áhættustjóra.

Fjórar fastanefndir eru fyrir á vettvangi landssamtakanna og fjalla reglulega um margvísleg hagsmunamál og samskipti inn á við í lífeyrissjóðakerfinu og út á við. 

„Klúðursleg útfærsla“ hálfa lífeyrisins í stjórnsýslunni 

Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar og fyrrverandi stjórnarmaður í Birtu lífeyrissjóði, hætti sem formaður Landssamtaka lífeyrissjóða á ársfundinum í dag og óskaði eftir að láta af störfum sem stjórnarmaður samtakanna. Hann kallaði eftir því í yfirlitsræðu að Landssamtök lífeyrissjóða fengju „skýrt og meðvitað umboð“ til að beita sér í hagsmunamálum lífeyrissjóðakerfisins og fylgja þeim eftir:

„Við ræddum fyrir nokkrum árum hugmyndir og viðbrögð við þeirri staðreynd að þjóðin eldist.  Við lögðum fram hugmyndir um viðbrögð, meðal annars að hækka lífeyristökualdur í áföngum á löngu tímabili.

 Þessar hugmyndir eru enn að velkjast um í kerfinu okkar án þess að málið hafi í raun verið rætt frekar og náð að þroskast.

 Tilgreinda séreignin er enn eitt dæmið og gleymum svo ekki hálfa lífeyrinum, sem ég ætla að segja fáein orð um að gefnu tilefni. 

Landssamtökunum  og lífeyrissjóðunum, með öllum þeim sérfræðingum og reynsluboltum sem þar er að finna, var haldið algjörlega utan við útfærslu á hálfum lífeyri. Útkoman varð í samræmi við það, klúðursleg útfærsla.

Þeir einir sem eiga rétt á hálfum lífeyri frá lífeyrissjóðum og hálfum lífeyrir frá Tryggingastofnun verða að ná ákveðinni upphæð sem er nú 236.500 krónur á mánuði. Útreikningar sýna að ef eftirlaunafólki er skipt í tíundir eftir tekjum, eru það einungis þeir í tveimur tekjuhæstu tíundarhópunum sem geta nýtt sér þau gæði að taka hálfan lífeyri samkvæmt gildandi lögum.

Tekjur hafa ekki áhrif á greiðslur hálfs lífeyris á sama hátt og aðrar skattskyldar tekjur, hvaða nafni sem nefnast.

Ég er á þeirri skoðun að landssamtökin eigi að hafa skýrt og meðvitað umboð til að beita sér í svona málum fyrir hönd lífeyrissjóðakerfisins, fylgja þeim eftir og vinna með málin svo þau velkist ekki um í kerfinu munaðarlaus jafnvel árum saman eins og dæmi eru um.  Með þessu er ég ekki að segja að baklandið eigi ekki að hafa afskipti af lífeyriskerfinu heldur að hlutverkaskiptingin þarf að vera skýrari og meiri samvinna milli aðila.

Þetta blasir enn frekar við þegar haft er í huga að allir lífeyrissjóðir hafa nú verið settir undir sömu löggjöf.  Mér finnst við enn býsna föst í skiptingunni sem í grófum dráttum er annars vegar lífeyrissjóðir almenna vinnumarkaðarins með Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið sem bakhjarl, hins vegar opinberir sjóðir á hinum kantinum og í þriðja lagi sjóðir með frjálsa aðild einhvers staðar þar á milli.

Staðan er orðin önnur og breytt. Við þurfum að tryggja aðkomu allra þegar við eigum samtal um lífeyriskerfið, framvindu þess og þróun ekki síst þegar það tekur til breytinga á heildarlöggjöfinni.“

Þorbjörn vék í lokinni að óvæginni þjóðmálaumræðu gagnvart lífeyrissjóðakerfinu og harmaði að starfsmenn lífeyrissjóðanna væru þar skotmörk líka:

„Ég hef aldrei kveinkað mér undan því að fá á mig gagnrýni og jafnvel skammir sjóðfélaga, ef svo ber undir. Tel það reyndar hluta af starfsskyldu stjórnarmanns að taka við ákúrum og fá þá um leið tækifæri til að ræða málin, upplýsa og útskýra. Tíma til að ræða við fólk er jafnan vel varið.

Hins vegar þykir mér miður að verða vitni að því þegar fólk leyfir sér að láta ókvæðisorð dynja á starfsmönnum lífeyrissjóða. Eitt hið ánægjulegasta sem eftir situr í minningunni nú þegar upp er staðið er að fá að kynnast þeim mikla mannauði sem lífeyrissjóðakerfið býr yfir. Við höfum ótal sérfræðinga og dugmikið og reynsluríkt fólk á öllum sviðum sem skilar frábæru starfi, leggur hart að sér og lætur daglega gott af sér leiða.

Orðræðan er oft grimm um menn og málefni og það langt, langt úr hófi fram. Mér sárnar mjög þegar starfsfólk lífeyrissjóðanna er gert að sérstöku skotmarki þeirra sem missa stjórn á tungu sinni á fundum eða fingrum á lyklaborði tölvunnar á Fésbókartímum. Það er bæði rangt og ósanngjarnt gagnvart fólki sem alltaf skilar verkum sínum af ósérhlífni og trúmennsku.“

Í lok fundarins flutti Ari Skúlason erindi sem bar yfirskriftina Lengra líf og samfélagið og byggt var á greinum sem eru aðgengilegar hér.

Tvær konur gegna nú forystustörfum lífeyrissjóðakerfis landsmanna 

Starfsskýrsla Landssamtaka lífeyrissjóða 2017-2018

Glærur frá ársfundi 2018

 Myndir frá fundinum