Íslenska lífeyriskerfið kom vel út hvað tekjuhlutföll varðar í samanburði á lífeyrisgreiðslum í köflum 3 og 4, þrátt fyrir að í 5. kafla hafi verið sýnt fram á að lægra hlutfall af þjóðarframleiðslu og launum á Íslandi renni til greiðslu ellilífeyris en í hinum löndunum. Í þessum kafla er fjallað um lýðfræðilegar upplýsingar úr gagnagrunnum OECD sem skipta máli í þessu sambandi.
Hlutfall eldri borgara (65 ára og eldri) er lægst á Íslandi samkvæmt tölum OECD frá 2013. Íslendingar fara almennt síðar á lífeyri en íbúar hinna landanna og munar miklu hve atvinnuþátttaka aldraðra er meiri og lengri á Íslandi en í hinum löndunum. Útgreiðsla úr báðum hlutum lífeyriskerfisins hefst því að jafnaði síðar hér á landi. Meðalaldur íslensku þjóðarinnar er lægri en hinna þjóðanna og því er lífeyrisbyrði opinbera kerfisins enn mjög lág í samanburði við hinar þjóðirnar.
| Land | Meðalaldur landsmanna í árum1) | Hlutfall 65 ára og eldri af landsmönnum2) | Hlutfall aldraðra af fólki á vinnualdri (15-64 ára)2) | 
| Bretland | 40,5 | 17,0% | 26% | 
| Danmörk | 42,0 | 18,0% | 27,9% | 
| Holland | 42,5 | 17,1% | 25,9% | 
| Ísland | 36,3 | 13,1% | 19,7% | 
| Svíþjóð | 41,2 | 19,9% | 31,3% | 
| Land | 55-59 ára | 60-64 ára | 65-69 ára | 
| Bretland | 73% | 48% | 21% | 
| Danmörk | 78% | 48% | 16% | 
| Holland | 71% | 70% | 15% | 
| Ísland | 86% | 82% | 53% | 
| Svíþjóð | 82% | 66% | 21% | 
| Land | Opinber lífeyristökualdur 2014 | Virkur lífeyristökualdur karlar | Virkur lífeyristökualdur konur | Ólifuð meðalævi frá virkum lífeyristökualdri karlar | Ólifuð meðalævi frá virkum lífeyristökualdri konur | Framtíðarlífeyristökualdur sem lögfestur hefur verið | 
| Bretland | 65 (62,5 konur) | 64,1 | 62,4 | 18,5 | 22,7 | 68 | 
| Danmörk | 65 | 63,0 | 60,6 | 18,3 | 23,3 | 67 | 
| Holland | 65,2 | 62,9 | 61,9 | 19,2 | 23,5 | 67 | 
| Ísland | 67 | 69,4 | 68,0 | 15,3 | 18,6 | 67 | 
| Svíþjóð | 65 | 65,2 | 64,2 | 18,2 | 21,9 | 65 | 
Af ofangreindum töflum má ráða að útgjöld úr opinbera kerfinu hljóti að verða minni á Íslandi en í hinum löndunum, því að færri eru komnir á lífeyrisaldur, taka lífeyris hefst seinna og ólifuð meðalævi frá virkum lífeyristökualdri er styttri.
Ísland sker sig úr hvað virkan lífeyristökualdur varðar. Íslendingar hefja að jafnaði töku lífeyris 1-2 árum eftir að opinberum lífeyristökualdri er náð, en í hinum löndunum fjórum fer fólk að jafnaði á lífeyri nokkru áður en opinberum aldursmörkum er náð. Íslendingar taka því að jafnaði lífeyri í mun færri ár en tíðkast í hinum löndunum.
Í töflu 16 í 5. kafla eru opinber framlög umreiknuð í iðgjöld og þar er Ísland einungis að reiða fram 22-30% af því sem hin löndin gera.
Hagstæð aldursdreifing og mikil atvinnuþátttaka eiga því veigamikinn þátt í að íslenska lífeyriskerfið komi vel út í alþjóðlegum samanburði, þrátt fyrir að hér séu greidd lægri iðgjöld en víðast hvar annars staðar, eins og nefnt var í inngangi samantektarinnar. Rétt er að taka fram, að í þessari samantekt verður ekki fjallað um áhrif ávöxtunar, þ. á m. vaxtastigs og eignasamsetningar, á getu söfnunarkerfa til greiðslu lífeyris.
Hins vegar sýna tölurnar í köflum 3 og 4 um samanburð á kjörum lífeyrisþega í löndunum fimm, að Ísland leggur áherslu á að beina opinberu útgjöldunum einkum að þeim verst settu og láglaunafólki og er með mun meiri tekjutengingu en hin löndin. Þessi áhersla leiðir til þess að þeir sem eiga góð lífeyrisréttindi í starfstengdu sjóðunum eða hafa umtalsverðar aðrar tekjur fá lítið eða ekkert úr opinbera kerfinu.
Benda má á ákveðna eiginleika starfstengdu sjóðanna (stoðar 2) á Íslandi sem leiða til þess að lífeyrir frá þeim kemur vel út í alþjóðlegum samanburði:
Samanburður við önnur kerfi er því líklegur til að sýna annars vegar góða útkomu láglaunafólks á Íslandi (opinbera kerfið sér til þess) og hins vegar góða útkomu þeirra sem ávinna sér full réttindi í starfstengdu lífeyrissjóðunum á samfelldri starfsævi hér á landi.
Opna kafla 7: Samanburður erlendra fagaðila á lífeyriskerfum