Tryggingamál

Lífeyrissjóðir veita fjölþættar fjölskyldutryggingar.

Mikilvægt er að þekkja þær reglur sem gilda um tryggingarvernd lífeyrissjóðanna.

 • Get ég sleppt því að kaupa líftryggingu ef ég greiði í lífeyrissjóð?

  Nýir sjóðfélagar með börn á framfæri og miklar fjárskuldbindingar ættu að skoða vandlega að kaupa líftryggingu til að verja fjölskyldu fyrir tekjumissi við fráfall.

  Líftrygging getur skipt sköpum við fráfall til þess að hægt sé að greiða af lánum og framfleyta fjölskyldunni ef sjóðfélagi fellur frá. Við fráfall er makalífeyrir greiddur úr lífeyrissjóðum þar til yngsta barnið hefur náð 18 ára aldri (sumir lífeyrissjóðir greiða barnalífeyrir lengur) en ef börnin eru orðin fullorðin er makalífeyrir yfirleitt tímabundinn og greiddur í þrjú til fimm ár (hjá sumum sjóðum þó lengur).

  Réttindin eru oft óveruleg fyrstu þrjú árin sem greitt er í lífeyrissjóð og það er af þeirri ástæðu sem Landssamtök lífeyrissjóða hvetja nýja sjóðfélaga til að skoða vandlega þörf á líftryggingu fyrstu árin á vinnumarkaði.

  Það má reyndar færa rök fyrir því að líftrygging sé skynsamleg hvenær sem er á starfsævinni en þörfin er sérstaklega mikil fyrstu þrjú árin sem greitt er í lífeyrissjóð.

 • Þarf ég að kaupa tryggingar til að verja mig fyrir tekjumissi vegna slysa eða sjúkdóma ef ég greiði í lífeyrissjóð?

  Það tekur nýja sjóðfélaga yfirleitt þrjú ár að öðlast rétt á fullum örorkulífeyri. Þetta þýðir að ungt fólk sem er að hefja störf á vinnumarkaði er í raun án örorkutryggingar fyrstu árin. Það er slæmt þegar tekið er tillit til þess að þetta eru þau ár sem fólk er að stofna fjölskyldu og eignast heimili. Þess vegna getur verið skynsamlegt fyrir nýja sjóðfélaga að kaupa sérstaka örorkutryggingu.