Við andlát sjóðfélaga

Lífeyrissjóðir greiða makalífeyri til maka látins sjóðfélaga til að

milda fjárhagslegt áfall fjölskyldunnar.

Lífeyrissjóðirnir greiða einnig barnalífeyri með börnum örorkulífeyrisþega og látinna sjóðfélaga. Barnalífeyrir er greiddur a.m.k. til 18 ára aldurs og oft lengur.

  • Ef maki minn fellur frá, fæ ég þá lífeyri úr lífeyrissjóði hans?

    Já. Makalífeyrir greiðist til eftirlifandi maka við andlát sjóðfélaga. Óskertur makalífeyrir er greiddur í tvö ár hið minnsta. Hafi eftirlifandi maki börn á framfæri sínu er greiddur óskertur makalífeyrir þar til yngsta barnið hefur náð 18 ára aldri (hjá sumum sjóðum lengur). Ef eftirlifandi maki er öryrki við andlát sjóðfélagans og yngri en 67 ára, skal óskertur makalífeyrir greiddur meðan sú örorka varir. 

    Hjá nokkrum lífeyrissjóðum er fullur eða skertur makalífeyrir greiddur lengur og jafnvel til æviloka. Hann fellur þó niður ef makinn gengur í hjónaband á ný eða stofnar til sambúðar.

    Athugið að eftirlifandi maka er heimilt að nýta skattkort hins látna í 9 mánuði talið frá andlátsmánuði.

  • Er upphæð maka- og barnalífeyris mismunandi eftir fjölskyldustærð?

    Ef börn eru á heimilinu er eftirlifandi maka greiddur óskertur makalífeyrir þar til yngsta barnið hefur náð 18 ára aldri (hjá sumum sjóðum lengur). Eins er barnalífeyrir greiddur vegna barna sjóðfélaga eða kjörbarna fram að 18 ára aldri og lengur hjá sumum sjóðum.

    Barnalífeyrir er greiddur ef sjóðfélaginn hefur greitt iðgjöld í að minnsta kosti 24 mánuði af síðustu 36 mánuðum, eða 6 mánuði af síðustu 12 mánuðum, notið elli- eða örorkulífeyris við andlátið, eða öðlast rétt til svokallaðs framreiknings.

    Stjúpbörn og fósturbörn kunna að eiga rétt til barnalífeyris hafi þau sannanlega verið á framfæri sjóðfélagans.

  • Fá börnin okkar lífeyri ef annað okkar fellur frá?

    Börn sjóðfélagans og kjörbörn eiga rétt á barnalífeyri til 18 ára aldurs og lengur hjá sumum sjóðum. Barnalífeyrir er greiddur ef sjóðfélaginn hefur greitt í a.m.k. 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum eða 6 mánuði af síðustu 12 mánuðum fyrir andlát, notið elli- eða örorkulífeyris við andlátið eða öðlast rétt til svokallaðs framreiknings.

    Stjúpbörn og fósturbörn eiga rétt hafi þau sannanlega verið á framfæri sjóðfélagans.

    Upphæð barnalífeyris er almennt ekki háð launum sjóðfélagans heldur er hún föst fjárhæð sem breytist í samræmi við hækkun vísitölu neysluverðs.

    Barnalífeyrir er hærri vegna fráfalls en vegna starfsorkumissis sjóðfélagans.

  • Skiptir máli hvort maki minn er enn að vinna eða kominn á eftirlaun eða örorkulífeyri við andlát?

    Nei. Upphæð makalífeyris fer eftir þeim réttindum sem sjóðfélagi hafði áunnið sér fyrir andlátið, auk þeirra réttinda sem hann hefði áunnið sér hjá sjóðnum ef hann hefði greitt til 65 eða 67 ára aldurs (framreikningur).

    Til að réttur til framreiknings geti myndast þarf sjóðfélagi að hafa greitt til lífeyrissjóðsins í a.m.k. 24 mánuði á undanförnum 36 mánuðum og 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir andlátið.

  • Erfist viðbótarlífeyrissparnaður?

    Viðbótarlífeyrissparnaður sem greiddur er í séreignarsjóð rennur að fullu til eftirlifandi maka og barna. 

    Hér má finna upplýsingar um vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar. Það eru ekki til miðlægar upplýsingar um viðbótarlífeyrissparnað þess vegna þarf að senda tölvupóst á alla vörsluaðila ef ekki liggur fyrir hvar sparnaðurinn er. 

  • Erfist tilgreind séreign?

    Já, tilgreind séreign erfist samkvæmt erfðalögum.

  • Erfast lífeyrisréttindi?

    Nei, skyldulífeyrisréttindi í samtryggingarsjóðum veita tryggingu til ævilangs lífeyris auk örorku-, maka- og barnalífeyris. Séreignarsjóður eða viðbótarlífeyrissparnaður erfist hins vegar til maka og barna.

  • Erfist séreignarsjóðurinn minn?

    Við andlát rennur séreignarsjóður til maka og barna.  Skiptingin er sú að hjúskaparmaki (giftur) fær 2/3 og börn 1/3.  Séreignarsjóðnum er skipt þótt að maki sitji eftir í óskiptu búi. Ef hinn látni var hvorki giftur né átti börn þá flyst inneignin til dánarbúsins og rennur til erfingja.  

  • Greiða lífeyrissjóðir útfararkostnað

    Lífeyrissjóðir greiða ekki útfararkostnað. Þeir greiða maka- og  barnalífeyri ef eftirlifendur eru til staðar. Sum stéttarfélög greiða hins vegar útfararstyrk.